27.02.1975
Efri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í tilefni af orðum hv. utanrrh., en síðasti ræðumaður gerði raunverulega grein fyrir forsendu okkar í okkar mati og hvernig 10 þús. kr. mundu duga, þó kynni að skapast nokkur afgangur. En af því að 2. þm. Vestf. kom hér upp og drap réttilega á, að nauðsynlegt væri að hafa það á hreinu að afgangur frá s.l. ári rynni til þeirra er sæta olíukyndingu, þá vil ég taka undir sjónarmið hans mjög ákveðið. Okkar forsendur vorn, það kom fram í ræðu minni, — að ég reiknaði með að 150 millj. væru óráðstafað. Ég hafði það a.m.k. persónulega í huga, miðað við þær upplýsingar, sem fulltrúar viðskrn. gáfu okkur á nefndarfundi. Og ef við lítum á þessar þrjár forsendur, sem voru fyrir ákvörðun okkar í minni hl. að setja 10 þús. kr. á ári, þá var í fyrsta lagi þessi mismunur. Ég vil eindregið taka undir orð hv. 2. þm. Vestf., að tryggja eigi í frv., sem verður að lögum vonandi í dag eða á morgun, að þessu fé verði áfram ráðstafað óumdeilanlega til þeirra sem eiga að fá þessa peninga, því að ég tel að það sé ekki hægt að ganga frá því. 1% álagið var sett til þess að ráðstafa þessari tölu upphaflega, en eðlilegt var að byggja á ákveðnu mati. Það sýnir sig, að nokkur afgangur er. Hann stafar af tvennu: nokkru meiri veltu frá söluskattsstiginu en áætlað var í upphafi og einnig hinu, að margir íbúar koma inn og njóta hitaveitu á tímabilinu, detta út sem styrkþegar. Þess vegna myndast afgangur. Það er ekkert óeðlilegt, og við göngum raunar út frá því enn, að svo muni verða á þessu ári, þar sem segir í nál. okkar, að á næstu mánuðum muni tenging hitaveitu við íbúðarhúsnæði eiga sér stað í Kópavogi, Garðahreppi og Hafnarfirði. Ég trúi því ekki, þar sem það loforð er efst á lista hæstv. ríkisstj., að það verði mikil seinkun í þessu efni. Ég trúi því ekki, þó að öll útboð hafi verið stöðvuð frá því í des. varðandi þessar framkvæmdir. Á fundi, sem ég sem þm. Reykn. átti með hæstv. iðnrh., var afstaða hans sú að hér yrði að reyna að ráða bót á sem allra fyrst, og allir þm. Reykn. eru á því og munu þrýsta á það að hér verði ekki dráttur á. Við teljum, að hér muni sparast allveruleg upphæð, eins og reyndar frsm. meiri hl. drap á að reikna mætti. Þar er önnur forsenda hjá okkur, og svo einnig, eins og kemur fram í nál., að ekki verður annað séð en hér sé varlega áætlað um tekjuöflun af einu söluskattsstigi. Þess vegna taldi ég ekki óraunhæft, að nokkur upphæð yrði eftir handa Orkusjóði. Svo kemur fram það sjónarmið, sem skýrt var hér af Þorvaldi Garðari Kristjánssyni, að Orkusjóður ætti að fá þetta til raforkuframkvæmda. En Orkusjóður er bara ekki framkvæmdaaðili rafveitna, svo að hér þurfum við að kveða nokkru nánar á. Sennilega er þetta ekki ágreiningsatriði heldur, að flýtt sé framkvæmdum á raforkusviðinu. En þá er bara að fara að lögum í því efni eða breyta þeim. Þó að við vinnum hratt á hv. Alþ. stundum og séum að gera það í dag, þá ættum við að gá að því að hafa sómasamlegt form á þeirri löggjöf sem við erum að afgreiða, svo að það skapi ekki viðkomandi ráðh. vandamál í framkvæmdum og ráðstöfun á fjármagni. Við ættum að gefa okkur nægilegan tíma í því efni.

Við í minni hl. styðjum þessar hugmyndir allar. En það er sýnilegt að það er nokkur fljótaskrift hér á, og ég held að við ættum aðeins að hugleiða það á milli 2. og 3. umr., hvort við gætum ekki haft þetta ákveðið og á hreinu, miðað við þær raddir, sem fram hafa komið, að það þurfi ekki að vera deiluefni um framkvæmd laganna. E.t.v. getur hæstv. viðskrh. leitt í ljós um betra orðalag eða nánari framkvæmd laganna, svo að þessum misskilningi sé eytt á báða bóga hjá okkur. En efnislega tel ég okkur hafa samstöðu um tekjuöflun og um ráðstöfun. Að því leyti að við viljum fara sem næst því marki sem við teljum raunhæft og ráðstafa einnig afganginum frá fyrra ári í þessu skyni, þá er talan 10 000 ekki út í loftið. Þess vegna held ég, að ég hafi svarað hæstv. utanrrh. varðandi vangaveltur hans. Við fyrstu sýn gæti það komið fram, að við hefðum skotið yfir markið með tölunni 10 þús. En þetta kom fram á nefndarfundi hjá þeim embættismönnum, sem komu til n. og gerðu grein fyrir ýmsum þáttum á bak við frv. Við töldum, að talan 10 þús. kr. ætti .að geta verið nálægt lagi og þrátt fyrir það kynni að vera einhver afgangur handa Orkusjóði til rannsókna. Hann hefur ekki mikið til framkvæmda, enda ekki hans verkefni samkv. lögum að standa í stórframkvæmdum. Ef á að breyta því þá þarf það að vera á hreinu.

Ég get að ýmsu leyti tekið undir orðalag meiri hl. Fyrst ekki var gengið endanlega frá á nefndarfundi, eins og kannske var eðlilegt eins og tímaskorturinn var, þá er það að sumu leyti eðlilegra og undirstrikar þarfirnar í raforkuframkvæmdunum. En þá er ráðstöfun á fjármagni til Orkusjóðs hæpin vegna þess að það er ekki hans verksvið. Hins vegar hefur Orkusjóður það verksvið að hefja undirbúningsframkvæmdir og e.t.v. er átt við það. En þá er nauðsynlegt að skýra það og hafa það á hreinu.