27.02.1975
Efri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að harma það, að þrátt fyrir ósk mína og ummæli í fjh.- og viðskn. Ed. hefur ekki unnist tími til þess að senda þetta frv. til l. um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða til umsagnar sveitarfélaga og þá sérstaklega þeirra sveitarfélaga, sem eru hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu og þetta frv. kemur sérstaklega til með að snerta hvað niðurgreiðslur á olíuverði til íbúa bar snertir. Ég vil enn einu sinni — ég hef gert það áður úr þessum ræðustól — harma það að ekki skuli vera gefinn nógur tími til þess að athuga áriðandi mál gaumgæfilega, áður en þau eru lögð fram eða koma úr nefnd.

Ég lít þannig á þetta frv., að það sé hægt að nota um það sömu orð og ég gerði hér, þegar ég talaði um skuldabréfasölu, að þetta er meira álag á Reykjavíkursvæðið, á Reykjavík, en nokkurt annað svæði. Ég vil enn einu sinni vara við því, að Reykjavík eða Reykjavíkursvæðið verði gert, eins og nú stendur til, að einhverju skattríki þjóðarinnar. Ég hafði gaman af því og þótti vænt um það, að hv. 3. þm. Vestf. kom strax með till. um að einhverju af þessum peningum, sem koma í Orkusjóð, verði varið til Vestfjarðanna. Það var byrjunin á þeim sama málflutningi og var hér þegar Norðurvegur kom til umr. og þau kaup sem þar áttu sér stað. Fyrst þegar það frv. kom fram, er það Norðurvegur með 1 200 millj., næst var það Norðurvegur, Austurvegur 2 000 millj. Síðan í lok umr. Norðurvegur, Austurvegur og Vestfirðirnir upp á 2 500 millj. kr. Allt átti þetta að seljast eða a.m.k. að mestu leyti á sparifjármarkaði reykvíkinga. Þetta er kannske ekki beint tilheyrandi þessu máli, en þó eru vinnubrögðin í þessum stíl.

Ég verð að benda á, að í þessum umr. og umr. um hitaveituna almennt hefur hvergi komið fram neitt mat á því átaki, sem Reykjavíkurborg átti frumkvæðið að með byggingu Hitaveitu Reykjavíkur og þeim framkvæmdum, sem síðan hafa verið gerðar í hitaveitumálum og upplýst var áðan af einhverjum ræðumanni að sparaði landinu um 68% af olíuinnflutningi. Það hlýtur að minnka álag á gjaldeyriseign landsmanna á hverjum tíma, og gjaldeyri er þá hægt að beina í aðra átt en til olíukaupa, til innflutnings á þeim vörutegundum, sem gefa ríkissjóði eitthvað meira en olían e.t.v. gerir í tolltekjum. Það væri þá kannske eðlilegt að þær tekjur ríkisins væru þá látnar ganga til þeirra orkumála, sem hér hafa verið til umr. En það er eins á þessu sviði og á öllum öðrum sviðum, það er alveg sama hvaða tekjulindir skapast, það er alveg sama hvað þær eru til skamms tíma, þær festast alltaf og ríkisbáknið þarf alltaf síaukið fjármagn. Það á við bæði vinstri og hægri ríkisstj., ef hægt er að tala um hægri ríkisstj. hér.

Ég ætla að vona, að fyrir Hitaveitunni fari aldrei eins og um rafmagnið. Þar á ég sérstaklega við iðnað og tek sem dæmi það erindi, sem nú liggur fyrir iðnrh. frá Kassagerð Reykjavíkur, sem fór út í það að breyta um kynditæki hjá sér frá olíukyntum gufukatli yfir í rafmagnsketil, vegna þess að rafmagnið var ódýrara. En þegar ketillinn var kominn upp var rafmagnið komið yfir 1 kr. pr. kwst. + söluskattur og verðjöfnunargjald, en olíukynnt kwst. var þá í 93 aurum. Ég ætla að vona, að það stefni ekki í þá átt að gera Hitaveitunni sömu bölvun og Rafmagnsveitunni hefur þarna verið gert. Ég vara við því.

Ég er alveg hissa á því, sem hæstv. viðskrh. lét sér um munn fara áðan, að það væri ekki fjárhagslega óskaplega stórt mál. en þó má skilja að það sé stórt fyrir þá aðila, sem þurfa að biða í eitt ár eða einhvern tíma af einu ári án þess að fá olíuniðurgreiðslu. Hann talar þó í tugum millj. um þær upphæðir, sem annars færu út í þetta kjördæmi, sem er á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ég vil taka það fram af reynslu minni sem borgarfulltrúi, að í Reykjavík er það fyrst og fremst fátækt fólk, sem býr þá kannske fyrir utan hin eiginlegu hitaveitusvæði eða á svæðum sem eru enn þá óvirk af hitaveitunni, sem býr við olíukyndingu. Ég held, að þetta fólk muni talsvert mikið um þá peninga sem það fær til baka í olíuniðurgreiðslu. Og það er ósjaldan sem maður verður var við það sem borgarfulltrúi, að fólkið reynir frekar að spara við sig hitakostnaðinn til þess að geta notað eitthvað af olíupeningunum til þess að bæta upp þau lágu laun sem það fær. Þetta fólk er flest verkafólk í Reykjavík. Ég tala nú ekki um þegar búið er að taka af þeim yfirvinnuna, þeir eru komnir í um 40 þús. kr. á mánuði eða milli 10 og 11 þús. kr. á viku. Það er ekki að furða þótt það komi fram opinberlega krítík á alls konar hlunnindi sem þm. hafa, og séu á milli tanna manna, þegar þetta fólk þarf að lífa af tekjum jafnháum aukastyrkjum sem við fáum sjálfir.

Svo að ég komi að frv. sjálfu, þá tel ég mig ekki geta samþykkt nokkra skerðingu á rétti íbúa á Stór-Reykjavíkursvæðinu til niðurgreiðslu á olíukostnaði, þótt komið hafi verið til móts við þá till. mína í fjh: og viðskn. um ákvæði, sem hljóðar svo í lok a-liðar í 2. gr., sem þm. kannast við: „Styrkur þessi skal eigi greiddur til þeirra, sem fá íbúðarhúsnæði sitt tengt við hitaveitu fyrir 29. febr. 1976.“ Þetta þýðir, að 1/4 af því fé, sem fólkið á Stór-Reykjavíkursvæðinu á rétt á, er tekinn af því til að fjármagna Orkusjóð. Ég tel þetta fólk því greiða þá upphæð umfram það, sem aðrir söluskattsgreiðendur gera. Ég ítreka það, að á þessu svæði er fólk mismunandi efnað, en það, sem illa er stætt, þolir þetta ekki til viðbótar þeim kostnaði sem það hlýtur að þurfa að leggja í við að breyta kyndifyrirkomulagi á húsum sínum almennt. Það vita allir, að heimtaugar og annað, sem þarf að gera, og jafnvel í sumum tilfellum að breyta um ofnakerfi, það kostar mikla peninga. Þá vil ég benda á, að hér er verið að afla aukalega fjár í Orkusjóð frá fólki, sem á von á hitaveitu sem ríkið fjármagnar ekki að neinu leyti. Þessar framkvæmdir fara fram á vegum Reykjavíkurborgar í samkomulagi við viðkomandi sveitarfélög, og hún ein tekur á sig alla ábyrgð og alla áhættu af þeim. Það er óeðlilegt, að ríkissjóður seilist með skattlagningu í slíkar framkvæmdir sveitarfélaganna, vegna þess aðeins að styttri tími er þangað til fólk á umræddum svæðum fær væntanlega að njóta upphitunar húsa sinna frá jarðvarma. Hér er fólk skattlagt út á væntanlegan lúxus sem það kemur til með að njóta.

Herra forseti. Ég mun því greiða atkv. gegn þessu frv. í þeirri mynd sem það nú liggur fyrir. Þar sem meiri hl. er fyrir frv. í fjh.- og viðskn. tel ég ástæðulaust að leggja fram brtt. eða sérstakt nál. sem 2. minni hl., en vildi með þessum orðum gera hv. d. ljósa afstöðu mína.