27.02.1975
Efri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég hygg, að hv. 12. þm. Reykv. þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af því þrátt fyrir þetta frv. og fjölmörg önnur af svipuðu tagi, að það halli neitt á Reykjavík eða Reykjavíkursvæðið að einu eða neinu leyti. Þetta tal hans virðist stafa af fullkomnu þekkingarleysi á erfiðri aðstöðu fólks úti á landsbyggðinni, og eins hefur hann eins og fleiri Reykvíkingar ekki áttað sig á því hvernig fólkið á landsbyggðinni stendur undir stórstofnunum í Reykjavík, undir ríkiskerfinu að miklu leyti, sem Reykjavík nýtur fyrst og fremst góðs af og að sínum ríflega hluta í þeim þjóðartekjum, sem Reykjavík á svo drýgstan hlut að að eyða.

Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með þá afgreiðslu sem þetta frv. hefur hlotið hjá hv. meiri hl. fjh.- og viðskn. Það er ljóst, að skilningur og vilji minn og skilningur og vilji minni hl. fjh.- og viðskn. og þeirra hv. þm., 2. og 3. þm. Vestf., fer mjög í sömu átt. Það er hins vegar einnig ljóst, að skilningur og vilji hæstv. ríkisstj. í þessu efni er ekki sá sami, sbr. það að hæstv. viðskrh, sagðist sætta sig við þetta, virtist gera það allnauðugur, — sætta sig við þær lítils háttar breytingar, sem á hafa orðið hjá meiri hl. n. Fyrir þessum skilningi og vilja hæstv. ríkisstj. — eða réttara sagt skilningsleysi á þörfum þessa fólks hefur svo meiri hl. n. greinilega beygt sig. Og það virðist vera að þeir hv. þm., 2. þm. Vestf. og 3. þm. Vestf., ætli báðir að sætta sig hér við, þó að það sé greinilegt að óánægja þeirra er mjög mikil og þeir taki í raun og veru fullkomlega undir það, sem minni hl. n. og við aðrir höfum sagt, sem höfum í þessu einarðari og harðari skoðun fyrir fólkið á landsbyggðinni. Ég vil taka það fram enn einu sinni að fólk treystir almennt á það á landsbyggðinni, að jöfnunin verði ekki minni en hún hefur verið. Fólk veit best að það er enn meiri þörf nú, miðað við það að fólk sér fram á rýrnandi lífskjör og minnkandi kaupgetu sina almennt, — þá er enn meiri ástæða til þess að þessi hlutföll raskist ekki, til að uppbótin verði a.m.k. fullkomlega eins mikil og lögin gerðu ráð fyrir í upphafi og þar verði í engu skert. Til móts við þetta sjónarmið fólksins á að koma eins rækilega og unnt er. Það er sem sagt beint framhald af því, sem gert var á s.l. ári, og það á ekki að búa við síðri aðstöðu nú, á sama tíma og lífskjörum þess er beinlínis þrýst niður viljandi af stjórnvöldum.

Mörgum þótti nefnilega ekki neitt sérstaklega ofgert í þessum efnum í fyrra, og það er vitað að fólki þykja þetta býsna kaldar kveðjur nú og það einmitt sérstaklega frá þm. landsbyggðarinnar, að þeir skuli ekki treysta sér til þess að halda þarna uppi svipuðum jöfnuði þó og fékkst í fyrra. Við þessu er ekkert að gera. Þarna hefur stefna hæstv. ríkisstj. ráðið og menn hafa beygt sig í auðmýkt, og þá er auðvitað ekki annað en taka því. Kjósendur verða svo að draga sína lærdóma þar af.

Ég ætla aðeins að koma að því, sem talað var hér áðan um raforkuna þar sem olíuverðið kemur mikið inn í. Hæstv. viðskrh. las áðan upp bréf sem átti að mínu viti að taka af öll tvímæli um áður umdeilt atriði. En ástæður þess, að ég talaði sérstaklega um þetta í ræðu minni við 1. umr., voru þær, að rafveitustjórinn á Austurlandi, Erling Garðar Jónasson, hefur alla tíð haldið því fram, að þarna væri um mismunun að ræða, og sagt, að hann hefði um það óyggjandi skýrslur, og á því byggði ég þessar fullyrðingar. Nú kann það að vera, að þetta sé rangt hjá þessum starfsmanni og framkvæmdastjóra Rafmagnsveitna ríkisins á Austurlandi. Ég hef ekki fengið tækifæri til þess að kanna það. En með þessari breytingu, sem nú á að verða á l., ætti a.m.k. ekki að vera hér þörf neinna frekari skýringa, málið sem sagt liggi nú orðið það ljóst fyrir. Ég tek það fram, að ég tel að meiri hl. hafi gengið þarna alveg nógu langt til móts við þetta fólk.

Ég skal svo aðeins taka það fram út frá því, sem kemur fram í áliti minni hl. varðandi Orkusjóðinn, varðandi 2. gr. c, að ég álít, eins og ég sagði við 1. umr., að c-liðurinn eigi hreinlega að falla niður. Ég hef ekki trú á því, að þeir fjármunir, sem Orkusjóðurinn þannig fær, verði notaðir á þann veg sem best kæmi því fólki sem ég hef umboð frá.