27.02.1975
Efri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég get lýst þeirri afstöðu minni, að ég mun fylgja þeim brtt. sem meiri hl. fjh: og viðskn. flytur í sambandi við þetta frv., og vísa ég í því sambandi til þeirra raka sem komið hafa fram í ræðum þeirra þm. sem mælt hafa með því áliti, sem flutt var af meiri hl. fjh.- og viðskn.

Tilefni þess, að ég hef kvatt mér hljóðs í sambandi við þessar umr., eru þær upplýsingar, sem komið hafa fram í sambandi við umr. málsins í dag, að verulegur afgangur mun verða af því fé, sem ætlað var til niðurgreiðslu á olíuhækkunum í hitunarkostnaði íbúða á s.l. ári. Það hefur komið fram í umr. manna hér, að það væri nokkurt vafamál um hvaða heimildir væru til þess að ráðstafa þeim fjármunum sem kunna að vera afgangs.

Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að að mínu áliti er það ekkert efamál, að meginhluta þessa fjármagns beri að verja til styrktar þeim rafveitum sem hafa orðið að nota olíuna sem orkugjafa til framleiðslu rafmagns til hitunar. Það er vitanlegt, að kostnaður þeirra orkuvera, sem hafa orðið að láta rafmagn af hendi til hitunar sem framleitt er með olíu er langt fyrir ofan það verð sem þeir hafa selt rafmagnið fyrir, svo að það er ekki nokkrum vafa bundið, að það er mjög mikil sanngirniskrafa, að ef hér er um afgangsfé að ræða, þá verði því að meginstofni til varið til þess að létta þessum orkuframleiðendum og orkuseljendum róðurinn. Þar sem ég þekki best til, á laxárvirkjunarsvæðinu, er mér kunnugt um það að framleiðslukostnaður á einni kwst. í dísilstöð er nú kominn upp í 9 kr. á kw. Þá sjá allir að hverju stefnir með það að orkuframleiðendur sem slíkir eru í geysilegum greiðsluerfiðleikum vegna þess arna, því að þeir eiga þess engan kost að selja þessa orku á því verði sem kostar að framleiða hana. Ég tel það vera mjög mikla sanngirniskröfu, ekki síst þar sem eru skýlaus ákvæði um að þessu fé skuli varið á þann hátt sem ég hef greint hér frá, að tekið verði á þessu máli af skilningi og velvilja. Og ég vil eindregið beina þeim tilmælum mínum til hlutaðeigandi yfirvalda, að þau skoði þessi mál vandlega og þessi ósk, sem hér er fram borin, megi mæta skilningi hjá hlutaðeigandi yfirvöldum.