27.02.1975
Efri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það má nú varla seinna vera af minni hálfu, að ég þakki hæstv. viðskrh. fyrir það, hvað honum er einkar lagið að varpa vingjarnlegu og skýru ljósi á ýmis vandamál. Þennan eiginleika hans hef ég dáð lengi. En það er sannarlega þakkarvert þegar mál eru lögð þannig fyrir, og væri kannske frekja og annað ekki að ætlast til þess að honum væri jafnlagið að draga eðlilegar ályktanir af því sem hann sjálfur sér í því ljósi. En á þetta virðist mér m.a. skorta smávegis í skýringu hans á vandamálinu sem við okkur blasir í sambandi við óheyrilegan kostnað við upphitun íbúðarhúsnæðis með olíu.

Vandamálið, sem hér er við að glíma, hefur vaxið mjög mikið síðan í fyrra, svo að því fer víðs fjarri að nú veiti ekki af öllu því fé, sem inn fæst með skattheimtunni, til þess að greiða niður þennan kostnað, til þess að ráða örlítið meiri bót á vanda þess fólks sem verður að hita upp húsnæði sitt með olíukyndingu. Ég viðurkenni að vísu fúslega það, sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði áðan, að þessi tekjustofn, söluskattsstigið eina, mundi hvergi nægja til þess að jafna bilið sem er á milli þeirra, sem njóta ódýrrar hitaveitu, og hinna, sem kynda með olíu. En væru þessar tekjur notaðar að fullu til þess arna, þá mundu þær þó nægja til þess að mjókka bilið, og allir hljótum við að viðurkenna að það getur verið býsna mikill munur á stóru bili og litlu bili.

Ég er sammála gagnrýni þeirri, sem fram kom hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni áðan á málatilbúnaðinn. Ég tel, að þetta mál hafi verið flausturslega búið til afgreiðslu á Alþ. Ég vil vekja athygli á því, að enda þótt hér væri um neyðarráðstafanir að ræða í fyrra, þá geta þetta ekki talist neyðarráðstafanir núna. Það hefur verið ærinn tími til þess að undirbúa varanlega lausn á þessu vandamáli og leita að eðlilegum leiðum.

Ég hlýt að lýsa yfir því, að ég mun greiða atkv. með þessu frv. Ég mun greiða atkv. með þessari ráðstöfun til þess að bæta úr vanda fólksins sem kyndir húsnæði sítt með olíu. En ég hlýt eigi að síður að vekja athygli á því, að þar sem nú hefur verið ljóst um alllangt skeið að þessi vandi væri okkur á höndum, þá hefði verið hægt að leita annarra og heppilegri og sanngjarnari úrlausna, eins og nú er í pottinn búið með kaupgjald fólks. Ég er hv. þm. Albert Guðmundssyni sammála um það, að hér verður heimtur skattur af launafólki sem er ekki aflögufært, sem er illa statt fjárhagslega, þolir slíkt illa. Þetta er gert þrátt fyrir það þótt ærinn tími hefði átt að vera til þess að undirbúa einhverja varanlega lausn eða stefna að varanlegri lausn á þessu húshitunarvandamáli.

Mér er ekki kunnugt um að gerðar hafi verið neinar raunhæfar ráðstafanir til þess á næstliðnum missirum að taka í notkun raforku til húsahitunar í stað olíu. Athuganir, sem hafra verið gerðar á kostnaðarhlíð þeirra framkvæmda, hafa allar byggst á ágiskunum. Það hefur komið fram hjá þeim tæknifræðingum, sem um þau mál hafa fjallað nýlega, í iðnn. þessarar hv. d., að raunhæfar athuganir hafa alls ekki verið gerðar á tæknilegum möguleikum eða kostnaðarhlið þeirra framkvæmda sem þyrfti að ráðast í til þess að koma raforku í byggðarlögin sem nú verða að reiða sig eingöngu á olíu til húsahitunar. Það er alveg ljóst, að það er hægt að útvega lánsfé til þeirra framkvæmda. Það er ljóst mál, að það getur ekki talist eðlilegt, eins og nú er ástatt um fjárhag almennings, að skattleggja alþýðu manna til þess að standa straum af jarðhitaleit eða til þess að standa straum af rannsóknum og athugunum í sambandi við dreifingu á raforku. Þetta fé væri eðlilegt að taka að láni nú. Það væri t.d. miklu eðlilegri ráðstöfun að taka fé að láni nú til þeirra framkvæmda heldur en leita eftir erlendu láni til þess að koma raforku okkar í lóg í stóriðjuveri uppi í Hvalfirði.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar, að eins og nú árar sé ekki rétt að skattleggja alþýðu manna hér á landi til þess að leggja fé í Orkusjóð og standa undir framkvæmdum Orkusjóðs. Ég tel eðlilegra, að við leitum eftir lánsfé til þeirra arðbæru framkvæmda, sem Orkusjóður ætti að standa að, en að við verjum þessu fé öllu til þess að greiða niður kostnaðinn af olíukyndingu. Og umfram allt, áður en til þess kemur næst að við afgreiðum lagafrv. um ráðstafanir til stuðnings því fólki sem verður að hita híbýli sín með olíu, ættum við að reyna að tengja þær aðgerðir einhverjum skynsamlegum áætlunum um að leysa olíuna af hólmi við upphitun íbúðarhúsnæðis á Íslandi.