27.02.1975
Neðri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1949 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Það hefur aðeins verið vikið, bæði í umr. sem fóru fram hér s.l. þriðjudag um þetta mál og eins nú, að því samráði sem hæstv. ríkisstj. telur sig hafa haft við stjórnarandstöðu. Ég vil aðeins í upphafi víkja nokkrum orðum að þessu atriði.

Það er rétt, sem fram kom hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, að í janúarmánuði ræddi hæstv. forsrh. við formenn stjórnarandstöðuflokkanna og gaf í skyn hugmyndir sem ríkisstj. væri með. Síðan hefur þetta ekki verið rætt mér vitanlega við stjórnarandstöðuþm. fyrr en daginn áður en frv. er lagt hér fram á Alþ. Það er að vísu misjafnt og hlýtur að vera misjafnt kannske, hvað menn telja samráð. En slík málsmeðferð eins og hæstv. ríkisstj. hefur haft í þessu máli svo og öðru máli, sem nú er verið að ræða í hv. Ed., er ekki samráð sem ég tel líkleg til þess að komist verði að sameiginlegri niðurstöðu eða reynt verði að þoka málum í þá átt, að sem minnst beri á milli í endanlegri niðurstöðu. Ég get því tekið undir það, að samráð í þeim skilningi, sem ég legg í það orð, hafa ekki verið höfð við stjórnarandstöðuna.

Það kom einnig fram í umr. hér s.l. þriðjudag, að hv. þm. sumir hverjir vörpuðu því á milli sín, hverjir væru að bregðast loforðum, svíkjast undan merkjum og þar fram eftir götum varðandi þetta mál. Ég vit taka það skýrt fram, að því er okkur áhrærir, að við erum ekki að svíkjast undan því sem við töldum, eins og aðrir stjórnmálaflokkar, að það bæri að bæta norðfirðingum það tjón, sem þar átti sér stað, á sama hátt og gert var vegna tjónanna í Vestmannaeyjum. En við erum ekki þar með að segja, að við ætlum endanlega að fylgja þeim till. eða þeim leiðum sem hæstv. ríkisstj. hefur valið til þess að þetta verði hægt að gera. Við áskiljum okkur rétt til þess að benda á aðrar leiðir, sem við teljum affarasælli og koma réttlátar niður gagnvart öllum almenningi í landinu heldur en þær, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur valið. Það er um það sem deilan stendur. Það er spurning um val á leiðum til þess að bæta það tjón, sem átti sér stað á Norðfirði, og til þess að standa við skuldbindingar, sem Viðlagasjóður hefur á sig tekið gagnvart tjóninu í Vestmannaeyjum. Það er engin spurning um hitt, það eru allir um það sammála að bæta á sama hátt tjón í Norðfirði eins og var gert í Vestmannaeyjum að því er varðar Norðfjarðarbúa. Hitt gæti verið spurning, og það vil ég að komi hér fram, hvort það er réttlætanlegt að skattleggja allan almenning í landinu, elli- og örorkulífeyrisþega jafnt sem aðra, til þess að bæta tjón sem orðið hefur, t.d. hjá olíufélögunum, sem að mínu áliti eru gróðafyrirtæki og eiga að bera sjálf þau tjón sem þau verða fyrir í sambandi við slíkt. Það er spurning í mínum huga, hvort það er réttlætanlegt að leggja stórkostlegar álögur á allan almenning í landinu til þess að bæta slíkum aðilum tjón. Ég hygg, að það verði margur hinn almenni kjósandi í landinu og almenningur almennt, sem verður mér sammála um að vafamál sé, hvort þetta sé réttlætanlegt. Um hitt eru allir sammála, að því er Neskaupstaðarbúa sjálfa varðar og það tjón sem varð á mannvirkjum þar.

Það kom fram hér í umr. s.l. þriðjudag, að Samtökin eru andvíg því að hækka nú söluskatt um 1% frá því sem hann er nú. Ég veit ekki til að neinn hafi verið því andvigur eða haft uppi andóf gegn því að framlengja það söluskattsstig sem hefur runnið til Viðlagasjóðs. En hinu eru menn andvígir, að í því ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu, kaupgjald er bundið, þrýst hefur verið niður á lægsta stig launakjörum hjá láglaunafólki og öllum almenningi, þá eru menn andvígir því að bæta álögum á þetta fólk. Það má vera, að þeim einstaklingum í þjóðfélaginu, hvort sem er á Alþ. eða annars staðar, sem eru á tvöföldum topplaunum í starfi, þyki lítið muna um 1 söluskattsstig til hækkunar frá því sem nú er. En þann, sem er á elli- eða örorkulífeyrisbótum, eða þann láglaunamann, sem hefur ekki nema 40 þús. kr. mánaðartekjur, munar um að bæta 1 söluskattsstigi við hvern einasta matarbita sem hann lætur ofan í sig. Það eru þessir aðilar, sem munar fyrst og fremst um það sem hér er verið að gera. Ef hæstv. ríkisstj. telur svo brýna nauðsyn til bera í leiðarvali sínu í þessum efnum, að hún telji sig knúna til þess að hækka söluskatt um 1 stig nú og þar með hækka verðlag á allri vöru og þjónustu í landinu til allra, þá hefði hæstv. ríkisstj. verið nær að líta í eigin barm. Það hefði verið nær, að nú hefði hæstv. ríkisstj. skorið upp það mein sem ríkir innan ríkiskerfisins sjálfs. Það hefði ekkert gert til, þó að það hefði verið byrjað á hæstv. ráðh., þm. og öðrum aðilum sem eru á hæstu launakjörum í þjóðfélaginu. Það hefði verið réttlætanlegra og það hefði verið hægt fyrir hæstv. ríkisstj. að fá meiri hljómgrunn fyrir hækkun söluskatts á öllum almenningi, hefði hún byrjað á toppunum og farið niður eftir, heldur en að höggva í sama knérunn og hún hefur gert allt frá upphafi sinnar valdatöku, þrýsta niður kjörum þeirra sem verst eru settir og lægst hafa launin. Það væri vissulega ástæða til þess fyrir hæstv. ríkisstj. og fyrir Alþ., í ástandi sem nú er ekki síst, að huga að eigin málum, byrja þar sem á að byrja, hjá þeim sem hafa mest, og hætta þeirri vitleysu sem við hefur gengist og viðgengst enn í ríkiskerfinu, að borga mönnum laun fyrir störf sem þeir koma ekki nálægt svo að áraröðum skiptir. Á þessu á að byrja, og þá fyrst er hægt að ætlast til þess, að almenningur taki jákvætt undir þær hugmyndir eða þær till. sem núv. hæstv. ríkisstj. er hér að bera fram. Fyrr en þetta verður gert skal enginn ætlast til þess að almenningur í landinu sætti sig við endalausar álögur, jafnt á þá sem minnst hafa eins og hina sem mest hafa. Og það er þetta sem er spurningin. Við teljum, að hækkun söluskatts nú um 1 stig sé ranglát og ranglátust gagnvart þeim sem minnst hafa.

Það hefur verið sýnt fram á, að framlenging þess söluskattsstigs, sem hefur farið til Viðlagasjóðs, nægir fyrir bótagreiðslum að því er varðar Vestmannaeyjavandamálið og það vandamál sem upp kom á Norðfirði. Það, sem á milli ber, er um þá skuldasöfnun, sem Viðlagasjóður hefur, viðskiptaskuld við Seðlabankann. Ætti að vera hægt, ef vilji er fyrir hendi hjá ráðamönnum þjóðarinnar og hæstv. ríkisstj., að gera þær ráðstafanir, bæði að því er varðar samkomulag við viðskiptabankana um að brúa þetta bil til tiltölulega skamms tíma og með öðrum leiðum, eins og hér hefur verið bent á í umr. af okkar hálfu áður, t.d. með skyldusparnaði á hærri laun.

Það er því ekkert, sem komið hefur fram að því er þetta varðar, sem réttlætir 1 stigs hækkun á söluskatti eins og nú er ástatt, fyrir utan hitt, sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson kom inn á og snýr að verkalýðshreyfingunni í landinu á þeim tímum sem nú eru, þ.e. á tíma sem verkalýðshreyfingin í landinu stendur í samningagerð við atvinnurekendur og ríkisvald, þá skuli slíkum vinnubrögðum vera beitt, sem eru ekkert annað að mínu áliti og hefur komið berlega fram í áliti verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar að eru ekkert annað en ögrun við verkalýðshreyfinguna á þeim tímamótum sem hún stendur nú á, — ögrun, sem getur haft afdrifaríkar afleiðingar. Það ætti hæstv. ríkisstj. að hugleiða áður en hún lemur hér í gegn það frv. sem hér er til umr.

Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð um þetta. Ég stend hér að brtt. ásamt hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, brtt. sem mér sýnist vera bitamunur, en ekki fjár samanborið við þá till. sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefur lagt fram. Það er ekki meginmunur þar á, og ég fyrir mitt leyti tel að hvor sú leið sem yrði valin hefði fullnægt því, sem allir eru sammála um að á að gera, að standa við skuldbindingar Viðlagasjóðs gagnvart Vestmanneyingum og standa við það sem lofað hefur verið af öllum gagnvart því tjóni sem varð í Neskaupstað. Hvor þessara leiða sem yrði valin fullnægir þessu. En það, sem skilur í milli þessa og hins, sem ríkisstj. vill, er að með hækkun söluskatts er enn höggvið í sama knérunn og gert hefur verið af hálfu núv. ríkisstj., þ.e. að láta það bitna harðast á þeim sem minnst hafa og verst eru settir.

Ég hélt satt að segja, að menn gætu nú, eins og varð reyndin á í sambandi við Vestmannaeyjatjónið, orðið sammála um að fara sömu leið nú og þá var gert. En það er einmitt það sem lagt er til í sambandi við þá till. sem ég hef að staðið, nákvæmlega sama leið og allir stjórnmálaflokkar urðu sammála um að fara til þess að bregðast við vandanum sem upp kom í Vestmannaeyjum. Ég vona í lengstu lög, að hæstv. ríkisstj. sjái að sér, endurskoði þá afstöðu sem ég hygg að sé e.t.v. fyrst og fremst hjá hæstv. ráðh. sjálfum. Hinn óbreytti stjórnarliði margur hver gerir þetta sárnauðugur, ekki síst þeir sem hafa rætur til verkalýðshreyfingarinnar. Þeir hljóta að gera slíka hluti sárnauðugir, ef þeir láta hafa sig til þess að gera það. Og það væri öllum til sóma, að hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. endurskoðaði þessa einstrengingslegu afstöðu sina og féllist á til samkomulags að fara þær leiðir, sem hér hefur verið bent á.

Fari svo í úrskurði hæstv. forseta um hvernig þessi mál koma hér til atkv., þá vil ég lýsa því yfir fyrir mitt leyti, að verði till. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar borin upp á undan þeirri, sem ég stend að, þá mun ég greiða henni atkv. En ég undirstrika það enn á ný, ég mun greiða atkv. gegn þeim hugmyndum og þeim till., sem ríkisstj. nú stendur að og leggur hér fram, að því leyti að hækka söluskatt um heilt stig.