27.02.1975
Neðri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (1558)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Okkur alþm. er oft furðu ósýnt um að fjalla um mál af eðlilegri reisn og skilningi á þeim aðstæðum, sem eru tilefni umr. á þingi hverju sinni. Ég hygg, að við munum öll þá tilfinningu sem greip okkur þegar ótíðindin urðu á Norðfirði, þegar margir norðfirðingar létu lífið og mikil verðmæti eyðilögðust. Við gáfum þá það heit hér á Alþ., að við mundum sjá til þess að bætt yrði það tjón sem unnt væri að bæta með fjármunum. Ég held menn eigi að muna eftir þessum aðdraganda í umr. hér í dag. En mér virðist að sumir þeir, sem hér hafa talað, hafi ekki munað það. Þetta var tvímælalaust vilji allra alþm. í des. — allra alþm. — og þess vegna bar hæstv. ríkisstj. að sjálfsögðu að reyna að tryggja sem best samstöðu þm. um það, hvernig sú efnahagsaðstoð yrði veitt sem allir þm. sögðust vilja standa að. Ég tel ákaflega miður farið, að hæstv. ríkisstj. hefur brugðist þessu skylduverki sínu. Hún hefur ekki haft neitt raunverulegt samband við stjórnarandstöðuna, heldur flutt frv. upp á sitt eindæmi og þannig komið stjórnarandstöðunni í vissan vanda. Það hafa komið fram till. frá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, sem tvímælalaust eru þess eðlis að um þær væri hægt að ná fullri samstöðu hér á hinu háa Alþ., og ég held að sómi Alþ. yrði meiri ef menn hyrfu að því ráði. Það er enn hægt að gera það, og ég tel að því fari mjög fjarri, að ríkisstj. væri að missa eitthvað af sóma sínum ef hún kæmi til móts við þetta sjónarmið, að Alþ. eigi að standa saman um aðgerðir af þessu tagi. Hæstv. forsrh. er því miður ekki viðstaddur hér, en ég vil engu að síður beina því til hans og bið þá menn að koma á framfæri við hann, að hann íhugi enn hvort hann geti ekki á það fallist að gera þær breyt. á þessu frv., sem leiði til þess að þm. standi hér saman.

En það var annað, sem var tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs áðan, og það var ræða sú sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason flutti og var með þvílíkum endemum, að hliðstæður eru ekki ákaflega margar, en þó vissulega til. Ég minnist þess, að við höfum áður staðið í þeim sporum hér á Alþ. að þurfa að takast á við óhemjulegan vanda af völdum náttúruhamfara, og þá á ég við jarðeldana í Vestmannaeyjum. Þáv. ríkisstj. vann að því ásamt embættismönnum sínum með eins skjótum hætti og hún gat að semja frv. til l. um ráðstafanir til að taka á hinum efnahagslega vanda sem leiddi af þessum ótíðindum. Ríkisstj. stóð algerlega saman um þetta frv. Frv. var borið undir Gylfa Þ. Gíslason þáv. form. Alþfl., og hann lýsti því yfir við ríkisstj. að hann væri algerlega sammála þessu frv. algerlega sammála því. Svo gerðist það á seinustu stundu, að það kom í ljós að einn stuðningsmaður ríkisstj., Björn Jónsson, sem þá var þm., snerist gegn frv. Maður skyldi nú ætla að frv. ætti öruggt fylgi samt eftir yfirlýsingar hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar. En það var sannarlega ekki. Þegar hann frétti um þessa afstöðu Björns Jónssonar, sá hann að hægt var að nota jarðeldana í Vestmannaeyjum til þess að taka upp pólitíska refskák og þá hljóp hann frá öllum þeim loforðum sem hann hafði gefið, og síðan voru þessi ótíðindi gerð að tilefni ákaflega ósæmilegra pólitískra bragða hér á Alþ. og í hliðarsölum Alþ., tilrauna til þess að nota þessi ótíðindi til þess að fella ríkisstj. Í mínum huga hefur Alþ. sjaldan sett eins ofan og gerðist einmitt þessa daga þá, þegar slíkt tilefni var einnig notað til þess að leika pólitíska refskák.

Ríkisstj. tók þá ákvörðun að breyta frv. sínu stórlega til þess að ná um það fullri samstöðu, einnig stjórnarandstöðunnar, svo að hægt væri að samþykkja þessar aðgerðir einróma hér á Alþ. Þetta var gert, þó að þær aðgerðir væru því miður þess eðlis að þær náðu ekki þeim tilgangi sem hið upphaflega frv. hefði náð. Hið upphaflega frv. hafði í sér verðhjöðnunartill., en það, sem um var samið að lokum, voru verðbólguaðgerðir, og ég er hræddur um að við búum að því enn. Það er ekki á dagskrá, heldur er á dagskrá einmitt þetta, að hér skuli sitja á Alþ. menn sem eru þannig, hafa þannig siðferðilega innviði, að þeir geta notað atburði eins og þessa til þess að leika sina pólitísku refskák. Það er alveg ljóst, að á sama hátt ætlar Gylfi Þ. Gíslason að reyna að nota þetta mál, hvernig Alþ. afgr. aðstoð við Neskaupstað eftir snjóflóðin þar, nota það í pólitísku skyni, og sérstaklega á að reyna að beina atlögunni að okkur Alþb.- mönnum.

Við heyrðum þá ræðu sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hélt hér áðan. Þessi maður, sem staðið hefur á Alþingi að harkalegri árásum á lífskjör almennings, samningsrétt verkalýðsfélaganna og réttindi verkafólks en nokkur annar maður, hann leyfir sér að tala um hnefahögg í andlit verkalýðshreyfingarinnar og verkalýðsfjandsamlega afstöðu og þar fram eftir götunum. Þetta vekur að sjálfsögðu aðeins vorkunnsama kímni okkar sem þekkjum orðið feril þessa hv. þm. En þessi málflutningur er gjörsamlega ósæmilegur og tilraunir hans til þess að halda því fram, að hér sé um að ræða eitthvert ágreiningsefni innan Alþb., eru tilhæfulausar með öllu.

Alþb. í heild hefur marglýst yfir því, að það telur að hinar óbeinu álögur, sem hvíla á almenningi, séu orðnar allt of þungar. Þessar álögur hafa orðið þeim mun þungbærari í tíð núv. ríkisstj. sem þær hafa verið auknar til mikilla muna með tveimur gengislækkunum og ýmsum hliðstæðum aðgerðum, á sama tíma og bannað hefur verið að greiða vísitölubætur á kaup.

Við fluttum fyrir nokkrum dögum frv. til l. um breyt. á l. um söluskatt. Flm. eru ég og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson, en frv. er að sjálfsögðu flutt fyrir hönd Alþb. og um það er full samstaða í Alþb. Við leggjum þar til að öll matvæll, kaffi og te verði felld út úr grundvelli söluskattsins, að það verði hætt að taka söluskatt af matvælum. Nú vita allir, sem eitthvað þekkja ástandið í þjóðfélaginu, að það fólk sem hefur lægstar tekjur, þ. á m. aldrað fólk og öryrkjar, notar meginhluta tekna sinna til að kaupa einmitt mat, og það er till. okkar Alþb.- manna að þessi skattheimta verði felld niður eins og nú er ástatt. Um þetta er ekki neinn ágreiningur hjá okkur, um þetta er full samstaða. Þegar hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason heldur öðru fram, þá talar hann gegn betri vitund. Þá er hann að leika þann púka sem hann hefur leikið margsinnis þegar svipað hefur staðið á og ímyndað sér að hann muni fitna og fitna. En það hefur farið öðruvísi fyrir þessum hv. þm. Hann hefur ekki verið að fitna á undanförnum árum. Það fór svo í kosningunum á síðasta ári, að það munaði ekki nema u.þ.b. 600 atkv. að þessi hv. þm. tækist að hrekja allan flokk sinn út úr sölum Alþ. Og reynslan af stefnu þessa hv. þm. var sú, að hann sá sér þann kost vænstan eftir kosningar að hætta við formennsku í flokknum. En þetta mun að vísu ekki hrifa ákaflega mikið, vegna þess að allir vita að þessi hv. þm. fer með völdin þar engu að síður.

Við þm. Alþb. höfum sagt alveg skýrt, að við erum andvígir því að söluskattur verði hækkaður, og hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefur flutt um það till. hvernig hægt sé að leysa þennan vanda eftir þeim meginlínum, sem ríkisstj. telur sig þurfa að fara, án þess að hækka söluskattinn. Ef hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason ímyndar sér nú, eins og hann ímyndaði sér eftir jarðeldana í Vestmannaeyjum, að hann geti notað tilefni af þessu tagi til að auka pólitískan frama sinn, þá skjátlast honum ákaflega mikið. Það eru ekki nema sárafáir af flokksbræðrum hans sem taka undir þá hugmynd, sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason kom sjálfur á framfæri í blaði einu á Akureyri, að núv. ríkisstj. ætti að segja af sér, en mynda svo nýja ríkisstj. undir forsæti Gylfa Þ. Gíslasonar, sem væri eini maðurinn sem hefði þekkingu, reynslu og hæfileika til að stjórna Íslandi.

Mér finnst trúðskapur af því tagi sem hv. þm. hefur gert sig sekan um hér í dag ekki sæmandi fyrir Alþ. Við getum ekki slitið í sundur, — eða ég get það a.m.k. ekki í huga mínum — þá tilfinningu, sem greip okkur í desembermánuði, og það mál, sem hér er verið að afgr. Ég vil lýsa því yfir fyrir mitt leyti, að ég er algerlega andvigur þeirri gjaldheimtuaðferð sem í frv. felst, eins og kjaramálum er háttað nú á Íslandi. Ég tel einnig ástæðu til að harma það mjög, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki vilja fallast á leiðir til fjárhagsaðstoðar við Neskaupstað sem allir alþm. gætu fallist á, og ég vil ítreka það — ég sé að hæstv. forsrh. er kominn — að ég beindi til hans áðan þeim tilmælum hvort hann vildi ekki íhuga enn frekar að gera þær breyt. á þessu frv. sem leiddu til þess að allir alþm. gætu staðið saman um afgreiðslu þess. Ég held að hlutur forsrh. yrði meiri af því að fallast á slíka breyt., en ekki minni. En þó að ég sé andvígur þessu frv. og beini þessari áskorun til hæstv. forsrh., lít ég svo á, að ég hafi í desembermánuði gefið drengskaparheit um að taka þátt í að leysa þann þungbæra vanda, sem norðfirðingar hafa orðið fyrir, og sé ríkisstjórnarmeirihl. ekki til viðtals um neina aðra leið en þessa, sem ég tel þó ranga, þá mun ég engu að síður segja já við atkvgr. um frv.