19.11.1974
Sameinað þing: 11. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

Umræður utan dagskrár

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir greið svör og upplýsingar. Að sjálfsögðu er það augljóst að hreppurinn á í flestum tilfellum forkaupsrétt. Hitt er svo annað mál að hann er kannske lítils virði þegar um svo svimandi upphæðir er að ræða eins og nefndar voru í sjónvarpsviðtalinu. En það er ekki meginatriði þessa máls, heldur einmitt það að þarna er um nokkuð sérstakt mál að ræða. Ég vil gera mikinn greinarmun og mér finnst raunar eðlismunur á því, hvort venjuleg eigendaskipti fara fram á jörð eða hvort um er að ræða, eins og ég sagði áðan, breytingu á stærð sveitarfélaga, stærð sýslufélaga og stærð kjördæma. Ég held að trygging fáist ekki fyrir verulegum umbótum í þessu efni nema sérstök löggjöf komi til.

Í öðru lagi er það að þegar minnst var á hinar háu upphæðir í áðurnefndu sjónvarpsviðtali, þá verður líka að hafa í huga að það er ekki fyrst og fremst sveitarfélagið, sem til greina kemur að missi jörðina, sem veldur því hvernig komið er, heldur miklu frekar einmitt nágrennið við Reykjavík. Og það er mitt álit, að ef íbúar Reykjavíkur vilja flytjast upp í Mosfellssveit, þá eigi þeir að verða mosfellingar, en ekki að halda áfram að vera íbúar Reykjavíkur, og reyndar vandséð að það sé nokkur ástæða til slíks. Við sjáum að þetta hefur gengið mjög vel í Kópavogi, þar sem þetta hefur gerst án þess að breyt. á lögsagnarumdæmum færu fram.

Ég viðurkenni að þetta er mjög mikilvægt mál fyrir okkur. Mér fannst ástæða til að taka þetta fram hér utan dagskrár vegna þess að það getur verið of seint að fara að hugsa fyrir ráðum gegn slíku þegar langt er komið áleiðis með aðgerðirnar.