27.02.1975
Neðri deild: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal verða stuttorður og það verður hægt að ljúka 1. umr. af minni hálfu nú um kvöldmatarleytið. En út af því sem hv. 4. þm. Vestf. sagði, þá er ekki alls kostar rétt hjá hv. þm. að það þurfi ekki að brýna þá stjórnarliða úr þingliði Vestfjarða til þess að standa á rétti umbjóðenda sinna þar. Hvað er verið að gera hér með c-liðnum, eins og hann var í frv. Það átti að klípa nokkur hundruð millj. af þeim styrk, sem m.a. kjósendur hv. þm. Gunnlaugs Finnssonar á Vestfj. hafa fengið greiddan allt til þessa, til þess að ráðstafa því í ótilteknar framkvæmdir, kannske til að ráðstafa því í þær framkvæmdir, sem við vildum fá í gegnum fjárl. og sumir Vestf.- þm. m.a. hv. þm. neituðu um til vatnsorkurannsókna á Vestfjörðum. Það er því ekki að ófyrirsynju, að ég ásamt fleirum brýni bæði þennan hv. þm. svo og aðra stjórnarliða til þess að gæta betur að hag umbjóðenda sinna á Vestf jörðum a.m.k. Það er ekki að ófyrirsynju.

Þá sagði hann að ég hefði hér farið rangt með tölur. Ég sagði, að skv. upphaflegri mynd frv. hefði verið gert ráð fyrir því að taka 400 millj. af því sem 1 söluskattsstig gæfi. Það eru upplýsingar, sem hæstv. forsrh. gaf mér. Það er þá hann sem er að segja ósatt, að áliti hv. þm. Gunnlaugs Finnssonar, en ekki ég, og það verður hann að eiga við hann. Það stendur eigi að síður óhaggað, að það er talið að söluskattsstigið yfir heilt ár gefi 1000–1100 millj. kr., og það voru uppi hugmyndir um að það yrðu teknar um 400 millj. af því. Það voru hugmyndir a.m.k. ríkisstj., að eigin sögn hæstv. forsrh.

Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, ég heiti a.m.k. á Vestfjarðaþm. úr stjórnarliði, að þeir láti ekki troða svo á umbjóðendum sínum í þessu máli að lækka við þá þann styrk, sem þeir hafa fengið, þrátt fyrir stóraukinn kostnað vegna hækkunar á þeim tíma sem orðið hefur. Ég bíð og sé hvað setur við atkvgr. um þetta mál, hvernig þeir snúast þá við, hv. þm. stjórnarliðsins að vestan, eins og hv. 4. þm. Vestf., hvort hann er þess sinnis eins og ég, að það sé réttlætanlegt að leggja nokkurn skatt á þá, sem best eru settir, til þess að jafna þetta bil. Ég bíð meðan ég sé ekki, að hann sé til þess líklegur eða þangað til hann réttir upp höndina með till. minni. En þá skal ég láta hann njóta þess sannmælis, sem hann á þá skilið, svo og aðra, en fyrr ekki.