27.02.1975
Efri deild: 50. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1979 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Frv. því till., sem hér er lagt fram, er ætlað að mæta tvenns konar vanda, annars vegar að afla fjár til að standa straum af endurreisninni í Neskaupstað í kjölfar snjóflóðanna þar og hins vegar að afla Viðlagasjóði viðbótartekna, svo að sjóðurinn geti komist sómasamlega frá verkefnum sínum.

Gert er ráð fyrir því, að Viðlagasjóður annist bótagreiðslur og ákvörðun þeirra í sambandi við snjóflóðin í Neskaupstað, eins og ákveðið var þegar 30. des., þegar ríkisstj. fól sjóðnum til bráðabirgða að koma fram gagnvart yfirvöldum þar. Var gerð úttekt á tjóninu og hafa verkfræðingar og matsmenn sjóðsins nú áætlað útgjöld sjóðsins til þessara bóta um 500 millj. kr. Í aths. við frv. er gerð grein fyrir, hvernig þessi upphæð er sundurliðuð, og skal ég því ekki endurtaka það.

Frv. það, sem hér um ræðir, gerir ráð fyrir víkkun á hlutverki Viðlagasjóðs, sem samkv. gildandi lögum takmarkast við eldgosið í Vestmannaeyjum og afleiðingar þess. Hlutverk Norðfjarðardeildar Viðlagasjóðs, sem stofnað er til með frv. þessu, er þríþætt: 1. Að bæta tjón af völdum snjóflóðanna í Norðfirði. 2. Að greiða kostnað við björgun verðmæta og hreinsun rústa og athafnasvæða. 3. Að stuðla að endurbyggingu atvinnufyrirtækja sem eyðilögðust eða skemmdust í snjóflóðinu. Er gert ráð fyrir að stjórn Viðlagasjóðs hafi náið samband við bæjarstjórn Neskaupstaðar og aðra opinbera aðila sem um málefni norðfirðinga fjalla.

Frv. þetta gerir ráð fyrir, að sjóðnum verði aflað tekna til að standa straum af þessum útgjöldum með álagningu víðlagagjalds á söluskattsstofu. Hinn 28. febr. n.k. fellur úr gildi viðlagagjald á söluskattsstofn, sem innheimt hefur verið síðan 1. mars 1973. Gjald þetta var upphaflega 2%, eins og kunnugt er, en 1% frá 1. mars 1974. Var þá hinu prósentstiginu varið til niðurgreiðslu á olíu. Nú er ráðgert að framlengja viðlagagjald og leggja 2% á söluskattsstofn á tímabilinu frá 1. mars 1975 til 31. des. 1975.

Samkv. áætlunum þeim, sem frv. fylgja, er talið að tekjur Viðlagasjóðs af þessum 2 prósentustigum í 10 mánuði verði 1600–1700 millj. kr. Tekjurnar munu skiptast á milli deilda sjóðsins samkv. áætlaðri fjárþörf, þannig að 32% renni til Norðfjarðardeildar og 68% til Vestmannaeyjadeildar. Þá gildir sú regla sem fyrr, að hækkun á útsöluverði vöru og þjónustu, sem hlýst af viðlagagjaldi á söluskatt, valdi ekki hækkun á kaupgreiðsluvísitölu.

Enn skortir Viðlagasjóð fé til að geta komist frá verkefnum sínum vegna eldgossins í Vestmannaeyjum og afleiðingum þess. Áætlun sú um tekjur og gjöld Viðlagasjóðs, sem hér er lögð fram sem fskj. 2, sýnir að yfirdráttarskuld sjóðsins við Seðlabankann muni aukast enn á þessu ári og nema 1604 millj. kr. í árslok, ef ekki koma til nýir tekjustofnar. Samkv. þessu mun staðan við Seðlabankann því versna um 65 millj. kr. á árinu 1975 eingöngu vegna tjónanna í Vestmannaeyjum, og er þar e.t.v. ekki allt tekið fram sem nauðsynlegt er, t.d. hærri upphæðir, sem fara til tekjubóta, en nú er ráðgert, svo að dæmi sé nefnt.

Hinn gífurlegi hallarekstur Viðlagasjóðs undanfarin tvö ár, sem fjármagnaður hefur verið með útstreymi úr Seðlabankanum, er einn frumþáttur þeirrar peningaþenslu og verðbólgu sem einkennt hefur tímabilið. Þessa þróun verður tafarlaust að stöðva og snúa við.

Hlutur Vestmannaeyjadeildar sjóðsins af tekjunum er áætlaður 1100 millj. og er von til þess að sú fjárhæð dugi til að koma fjármálum Viðlagasjóðs á réttan kjöl. Verður þá skuld sjóðsins hjá Seðlabankanum í árslok um 740 millj. kr. í staðinn fyrir 1600 millj. kr. Þá eru óinnheimtar 220 millj. kr. af tekjum sjóðsins af álögðu viðlagagjaldi, sem berast honum á fyrstu tveimur mánuðum ársins 1976.

Í upphafi næsta árs eru eignir Vestmannaeyjadeildar sjóðsins taldar munu verða 2125 millj. kr. að meðtöldum óinnheimtum tekjum er áður var getið. Eftirstöðvar af ógreiddum skuldbindingum eru þá taldar 555 millj., en hætt er við að sú upphæð geti hækkað verulega. Hafa verður og hugfast, að ógreiddar skuldbindingar í lok þessa árs eru fyrst og fremst bætur til Vestmannaeyjakaupstaðar og verður greiðslum að mestu eða öllu lokið á árinu 1976. Á hinn bóginn er stærsti eignarliðurinn skuldabréf vegna sölu innfluttra húsa. Fæst andvirði þeirra ekki greitt nema á löngu árabili og síðustu greiðslur af skuldabréfum verða ekki inntar af hendi fyrr en eftir 25 ár. Annar stærsti liðurinn eru skuldabréfalán til sveitarfélaga, en þau eru almennt til 5 ára.

Af þessu má ráða, að beinn samanburður á eftirstöðvum eigna og skulda gefur ranga mynd af fjárhagsstöðu sjóðsins. Hins vegar er ljóst, að endanlega, þegar skuld sjóðsins hjá Seðlabankanum hefur verið greidd, sem verður væntanlega ekki fyrr en á árinu 1978 þrátt fyrir þennan tekjustofn, sem gert er ráð fyrir í frv., þá munu skuldlausar eignir sjóðsins í verðbréfum verða nokkrar. Gætu þær orðið hluti höfuðstóls varanlegs Viðlagasjóðs.

Þá vil ég geta þess, að í Nd. var sú breyting gerð á frv., að 6. gr. frv. var felld burt. Þar var gert ráð fyrir heimild til handa ríkisstj. í samráði við Síldarverksmiðjur ríkisins að selja vélar og tæki úr verksmiðjum Síldarverksmiðja ríkisins, sem ekki er fyrirsjáanlega þörf fyrir á næstunni. Þar sem ekki var útlit fyrir að heimild þessi yrði notuð, var gr. felld burt, en í stað hennar var sett inn ákvæði í 6. gr. frv. þess efnis, að Viðlagasjóði væri heimilt í samráði við Bjargráðasjóð að bæta tjón vegna náttúruhamfara annars staðar á landinu, en því miður er snjóflóðahætta viða. Hingað til hefur tjón vegna slíkra einstakra snjóflóða, sem ekki gera viðtækan óskunda, verið bætt með greiðslum úr tryggingum. En þegar um víðtækt tjón er að ræða, er ekki hægt að búast við að tryggingar bæti slík tjón. Að vísu er nú sérstök n. á vegum trmrh. að starfi til þess að fjalla um með hvaða hætti megi kaupa tryggingar til þess að standa betur að vígi þegar slík tjón af náttúruhamförum verða eins og er tilefni þessa frv.

Þá vil ég láta það koma fram við þessa 1. umr. í Ed. um ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði og fjáröflun til Viðlagasjóðs, að eins prósentustigs hækkun á söluskatti er vitaskuld neyðarúrræði, en þó nauðsynlegt engu að síður til þess að standa við þá skuldbindingu sem allur þingheimur hefur tekist á hendur vegna Vestmannaeyjagossins og snjóflóðanna í Neskaupstað.

Ég vil, herra forseti, gera að till. minni að frv. þessu verði vísað til fjh.- og viðskn. þessarar d. og 2. umr.