27.02.1975
Efri deild: 50. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1981 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það frv., sem hér um ræðir, er af eðlilegum ástæðum hugstætt og höfuðtilgangi frv. er ég fyllilega samþykkur. Samkv. yfirlýsingum hæstv. ríkisstj. nú í þinglok fyrir jólin skyldi tjónið vegna hinna hörmulegu atburða í Neskaupstað bætt eftir bestu getu, og við þá yfirlýsingu er hæstv. ríkisstj. að standa.

Vestmannaeyjavandinn er enn óleystur að hluta og það er ljóst, að til hvors tveggja er fjár þörf. Um aðferð til fjáröflunar og fyrirkomulag hefur orðið ágreiningur, sem skýrt hefur fram komið í hv. Nd. Ég vil segja það, að ég hefði fremur kosið þá leið, sem hv. 2. þm. Austf., Lúðvík Jósepsson, gerði grein fyrir í Nd., að fjárins yrði aflað á lengri tíma. Ég tel þá þá leið um flest eðlilegri og réttlátari, þar sem allar nýjar viðbótarálögur á landslýðinn auka þann mikla vanda, sem við er að glíma í efnahagsmálum og ekki síst stjórnvöld setja upp sem hrikalegt vandamál, og skerða á vissan hátt kjör launafólks enn meir, en þó er ríkulega að gert og unnið af hálfu stjórnvalda. Þessi leið, sem farið var fram á, hefur ekki reynst njóta stuðnings hæstv. ríkisstj., heldur hefur þrátt fyrir tilraunir og vissan vilja ekki önnur leið fengist fram. Þar sem það er ljóst, hlýtur aðalatriðið að vera það, að tryggt sé að fjármagn fáist til bóta, tryggt sé að við fyrri skuldbindingar, sem hafa verið gefnar, verði staðið. Hér í Ed. verða eflaust gerðar tilraunir til að gera till. um fjármögnun nokkuð á annan veg, svipað og gert hefur verið í Nd. Það er líklega nokkuð hæpið, að þær leiðir fáist, og fáist þær ekki fram, þá styð ég frv. í þeirri mynd sem það er nú endanlega að þeim till. felldum.

Ofar öðru stendur það í minni vitund, að við gefin fyrirheit skuli staðið og tjónabætur verði á þann hátt sem framast mega verða og í mannlegu valdi stendur að bæta.