20.11.1974
Efri deild: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

11. mál, launajöfnunarbætur

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá atriði sem ég vildi gera að umræðuefni við 1. umr. málsins, þó kannske fyrst og fremst aðeins eitt atriði.

Það er augljóst af þessu frv. að hér er gengið þvert á gerða kjarasamninga, sem í gildi eru, að því leyti að það er allt annað en frjáls samningagerð milli aðila á vinnumarkaðnum. Verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum árum talið fjöregg sitt þar sem um vísitöluna er að ræða, m.a. vegna þess að hún væri þar nokkuð tryggð fyrir utanaðkomandi verðhækkunum á nauðsynjavörum og í því fælist sú trygging, sem verkalýðshreyfingin, eins og ég áðan sagði, hefur metið sem sitt fjöregg, en er hér kippt úr sambandi. Hæstv. forsrh. minntist á það hér áðan að gengið hefði verið svo til móts við aðila vinnumarkaðarins sem tök hefðu verið talin á. Nú langar mig til að spyrja: Hver eru þau atriði þessa frv., sem launþegasamtökin höfðu mesta andúð á og voru mest á móti, og hvar var lengst hægt að ganga á móti þeirra óskum í sambandi við gildandi kjarasamninga? Ég held að það sé nauðsynlegt upp á yfirlýsingar annarra flokka hér á undanförnum mánuðum að þetta liggi fyrir því að svo stór orð hafa verið höfð um þessa hluti sem ekki þarf að rekja hér við 1. umr. málsins og gefst tækifæri til þess við frekari umr. málsins í d. Ég held að það sé brennandi spurning í huga hvers manns, sem hlustaði á ræðu hæstv. forsrh., að vita hvað var minnst hægt að ganga á móti verkalýðshreyfingunni og hver voru þau atriði sem verkalýðshreyfingin fékk ekki fullnægt í þeim viðræðum sem áttu sér stað við hæstv. ríkisstj. Ég hygg að þetta sé hlutur sem nauðsynlegt sé að upplýsa nú þegar upp á frekari framvindu málsins hér í hv. þd.