28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1982 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Frsm. meiri hl. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Þetta frv. var tekið til meðferðar í fjh.- og viðskn. Ekki náðist samstaða um afgreiðslu málsins, en meiri hl., sem stendur að nál. á þskj. 335, leggur til að frv. verði samþ. óbreytt. Þessa ákvörðun ber að líta á sem staðfestingu á því loforði, sem á sínum tíma var gefið af hálfu hins opinbera, að staðið skyldi fullkomlega að því að bæta það tjón sem varð vegna hinna hörmulegu náttúruhamfara í Neskaupstað Ég er ekki í efa um það, að það hefði öllum þótt æskilegast að ekki hefði komið til þess að þyrfti að leggja á sérstakan skatt vegna þessara greiðslna, en vegna þeirrar ríkjandi óvissu, sem er um alla fjárhagslega afkomu ríkissjóðs, og það liggur einnig fyrir að það þarf að endurskoða útgjöld ríkissjóðs til verulegrar lækkunar, þá þótti ekki fært annað en að tryggja fjármuni til þess að hægt væri að standa við það loforð, sem á sínum tíma var gefið um bætur til handa fólkinu, sem varð fyrir því mikla tjóni sem þarna varð.