28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1988 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég endurtek það sem sagt hefur verið um eðlileg og pólitískt heilbrigð viðhorf ríkisstj. og Alþ. í vetur þegar ógæfan dundi yfir Neskaupstað að skömmu fyrir jól, að heita þá fullkominni aðstoð við uppbyggingu og bótum á því tjóni sem þarna varð. Ég hygg að skjót viðbrögð ríkisstj. hafi fengið góðar undirtektir hjá alþjóð, og ég er alveg efalaus um skyldu ríkisstj. og Alþ. að standa við þau fyrirheit sem þá voru gefin, á sama hátt og ég er efalaus um skyldur ríkisstj. og Alþ. að standa við fyrirheitin sem gefin voru í sambandi við jarðeldana í Vestmannaeyjum.

En ég er ekki alveg eins viss um að sú leið, sem valin hefur verið af ríkisstj. til þess að standa við þessi góðu loforð, sé jafnheilbrigð. Það ætla ég að hafi ekki verið fráleitt í sambandi við jarðeldana í Vestmannaeyjum og tjónið, sem þá varð, að afla tekna til þess að bæta þetta tjón með hækkun á söluskatti. En það hefur orðið mikil breyt. á kjörum alþýðumanna í landinu síðan. Launakjör fólks hafa stórversnað síðan og sú leið, sem þá var fær, að heimta slíkan skatt af öllum almenningi er ekki jafnfær núna. Ég vil í því sambandi vekja athygli á ræðu sem hv. þm. Albert Guðmundsson flutti í gær, þar sem hann gerði grein fyrir þeim sannindum að nú er svo komið að fjöldi launafólks, verkamenn, hefur vikutekjur sem samsvara 10–11 þús. kr. Þetta fólk er ekki aflögufært, nema síður sé, um grænan eyri.

Ég held að einmitt athugasemd hv. þm. Steingríms Hermannssonar um söluskattinn hafi verið býsna tímabær um réttlæti söluskattsins. Spurningin er ekki um það, eins og hv. þm. Jón Árnason benti á áðan, hvort bætur vegna tjónsins í Vestmannaeyjum og Neskaupstað séu nauðsynjamál. Við erum allir sammála um að hér sé nauðsynjamál á ferðinni. Spurningin er um það hvort söluskattsleiðin, söluskattsheimtan í þessu skyni, sé réttlætismál. Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að eins og hag alþýðumanna er nú komið eftir tiltölulega skamma setu íhaldsstjórnarinnar, þá sé fjöldi fólks ekki aflögufær um þetta eina söluskattsstig.

Ég harma það að ekki skyldi vera haft samráð við stjórnarandstöðuna um þetta mál, því að tími gafst sannarlega til þess, um það hvernig afla bæri tekna í þessu skyni. Við hefðum getað fundið leiðir til fjáröflunar í þessu skyni sem við það væru miðaðar að byrðarnar væru lagðar á þegnana eftir gjaldgetu þeirra, eftir efnum og ástæðum. En verði sú till., sem hér hefur verið borin fram af hálfu Alþb. og Alþfl. um framlengingu söluskattsstigsins, sem fyrir var vegna Viðlagasjóðs, felld, þá mun ég eigi að siður telja mig tilknúinn vegna aðstæðna að greiða atkv. með frv. óbreyttu, með þeim staðfasta ásetningi að kosta þá öllu til að knýja það fram, að það óréttlæti og tjón, sem verkafólkið, sem hv. þm. Albert Guðmundsson gerði grein fyrir í gær að hefur nú ekki þurftarlaun, verður fyrir vegna þessarar afgreiðslu, verði bætt að fullu.