28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Frsm. 1. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að lengja þessar umr. en í tilefni af orðum hæstv. forsrh., þar sem hann ber okkur stjórnarandstæðingum á brýn ábyrgðarleysi, langar mig til að fara fáeinum orðum um það hugtak.

Mér skilst að í fjárl. þessa árs séu a.m.k. 700 millj. kr. ætlaðar til lækkunar á tekjuskatti. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. hvort ætlunin sé að nota þessa heimild með því að lækka tekjuskatt. Í öðru lagi langar mig til þess að vita hvort ætlunin er e.t.v. að lækka tekjuskattinn enn frekar en þessu nemur. Ef svo er langar mig til að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann sé í hjarta sínu alveg sannfærður um að það sé skynsamlegt frá efnahagslegu sjónarmiði eða sanngjarnt gagnvart hinum lægst launuðu að hækka nú söluskatt um 1 stig, en lækka síðan að fáum vikum liðnum tekjuskatt, sem kemur alls ekki hinum lægst launuðu að neinum notum. Er ekki alveg ljóst, að þegar við stöndum frammi fyrir því að ætla hugsanlega að fara að lækka tekjuskattinn að fáum vikum liðnum um kannske allmörg milljóna hundruð, ef ekki milljóna þúsund, að þá væri hyggilegra að skoða það mál í samhengi og athuga hvort það væri þá ekki réttara að fresta þessari hækkun söluskattsins og hafa þá tekjuskattshækkunina eitthvað minni. Kynni að vera að það væri heldur skynsamlegra fyrir þjóðarbúið og fyrir stöðuna í efnahagsmálum og fyrir þá samninga sem nú standa yfir við verkalýðshreyfinguna.

Eins og ég sagði áðan, þá varð hæstv. forsrh. tíðrætt um ábyrgðarleysi, og hann taldi að á þessu máli væri engin önnur lausn en sú að leggja á þetta söluskattsstig. Eins og hér hefur margoft komið fram í þessum umr. eru margar aðrar leiðir til, og ábyrgðarleysið er mest hjá þeim sem vilja ekki koma auga á neina aðra leið, bæði ábyrgðarleysi gagnvart kjörum þeirra lægst launuðu og alveg sérstaklega ábyrgðarleysi gagnvart ástandinu í efnahagsmálum, því að varla er hægt að finna nokkurt annað úrræði sem kemur sér jafnilla og er jafnóskynsamlegt frá efnahagslegu sjónarmiði.

Hæstv. forsrh. sagði áðan, að við ákvörðun launajöfnunarbóta hefði verið tekið tillit til þess og það haft í huga að þetta söluskattsstig lenti ekki á þeim sem verst stæði á fyrir og þar af leiddi að launajöfnunarbæturnar yrðu þeim mun hærri. Það vill nú svo til að upphæðir launajöfnunarbóta hafa verið gerðar opinskáar og birtar opinberlega með framlagningu till. ríkisstj. í fjh: og viðskn. Ed., og mér er ekki kunnugt um eða hefur ekki verið tjáð að þar væri um neitt launungarmál að ræða, enda var það mál hreinlega afgr. í n. í gær, og n. klofnaði um málið. Mér skilst að till. af hálfu hv. meiri hl. n. hafi síðan verið í burðarliðnum. Mér er því fullkunnugt um hvað þar var um miklar fjárhæðir að ræða. Og það verð ég að segja að ef hæstv. forsrh. upplýsir það nú að í raun og veru hafi skattlagningin, sem fólgin er í þessu 1%, verið bætt í þeim tölum og í þeim upphæðum sem áttu að renna til hinna lægst launuðu í gegnum þessar launajöfnunarbætur, þá er ljóst að bæturnar áttu upphaflega ekki að vera ýkjamiklar. Hér er um að ræða 3 600 kr. bætur til hinna lægst launuðu, og mér skilst að þessar bætur eigi að vera svipaðar að krónutölu allt upp í 60 000 kr. kaup. En miðað við laun hinna lægst launuðu, eins og þau eru um þessar mundir, lætur nærri að hér sé um 6% kauphækkun að ræða, þ.e.a.s. miðað við 40 þús. kr. kaup er um 6% kauphækkun að ræða, ef miðað er við heildarlaun hinna lægst launuðu. Það er að vísu hægt að leika sér að tölum og segja að þetta sé 9% hækkun ef einungis er miðað við dagvinnu. En ef tekið er tillit til þess að fólk verður að vinna talsverða yfirvinnu í þessu þjóðfélagi til að eiga í sig og á, þá verður að sjálfsögðu að taka til greina bæði yfirvinnu og næturvinnu eins og hún er að jafnaði, og með hliðsjón af því er hér einungis um 6% launahækkun að ræða.

Það skal tekið fram að hér er öðruvísi að farið en var varðandi launajöfnunarbætur sem greiddar voru í haust. Þá var miðað við launin í heild, en ekki einungis við dagvinnukaupið eins og nú virðist gert ráð fyrir. Og það skal upplýst hér að til þess að hinir lægst launuðu fengju nú það sem þeim raunverulega ber samkv. þeim samningum sem gerðir voru á s.l. vetri, þá ættu þau laun, sem hinir lægst launuðu höfðu í haust, þ.e.a.s. 35 350 kr. fyrir neðsta flokk Dagsbrúnar eftir eins árs starf, að hækka um 46% nú, en þau hafa einungis hækkað um þessar 3 500 kr. í haust og svo hugsanlega núna aðrar 3 600 kr. Þetta er sú staða sem blasir við hjá þeim lægst launuðu, og það er gagnvart þessari stöðu sem nú bætist enn ein söluskattsprósenta sem að sjálfsögðu kemur verst við einmitt þetta fólk. Það er þetta sem ég vil kalla ábyrgðarleysi og vísa algjörlega til föðurhúsanna þeirri nafngift sem forsrh. reyndi að setja á okkur stjórnarandstæðinga í þessu máli.