28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég skal svara fyrirspurn hv. 5. þm. Norðurl. v. Í fjárl. yfirstandandi árs er gert ráð fyrir því að unnt sé að veita 700 millj. kr. til lækkunar beinna skatta, þ.e.a.s. áætlunarupphæð tekna af beinum sköttum er 700 millj. kr. lægri en gildandi skattalög mundu gefa við álagningu. Það hefur síður en svo verið krafa launþegasamtakanna að frá þessari fyrirætlan væri horfið. Hins vegar hafa fulltrúar launþegasamtakanna mjög ætlast til að þessi upphæð væri hækkuð og tekið fram að vísu að aðrir sérskattar væru ekki á lagðir. En þegar velja skal á milli óbeinna skatta annars vegar, eins og söluskatts, og beinna skatta hins vegar, eins og tekjuskatts, þá var það stefna fulltrúa launþegasamtakanna á s.l. vetri, við gerð kjarasamninga þá, að meta lækkun beinna skatta svo mikils, að hækkun söluskatts um 5 prósentustig var talin jafngilda þeirri lækkun. Hækkun söluskatts varð þó ekki meiri af þessum sökum en 4 prósentustig, þótt lækkun beinna skatta væri fyllilega sú sem fulltrúar launþegasamtakanna ætluðu sér á móti 5 söluskattsstigum. Ég tel í þessu fólgið ákveðið mat fulltrúa launþegasamtakanna á þessum tveim skattformum.

Hinu skal ég ekki neita, að það verður erfitt og ég sé ekki fram á það í dag að unnt sé að verja hærri upphæð en 700 millj. kr. í þessu skyni eða öðru til þess að koma á móts við kröfur launþega, sérstaklega miðað við þá nauðsyn sem er á því að draga saman útgjöld ríkissjóðs að öðru leyti. En vitaskuld mun ríkisstj. gera það sem í hennar valdi stendur til þess að þær ráðstafanir verði gerðar sem auðvelda samninga milli vinnuveitenda og launþega. Á það ber þó fyrst og fremst að líta, að ætlast verður til að þessir aðilar semji sín á milli um kaup og kjör og geri það sem í þeirra valdi stendur til þess að ná saman. Það er ekki ávallt hægt að ætlast til þess af hinu opinbera, að það gripi inn í samningana, og raunar er það stefna beggja aðila, hvort heldur er launþegasamtaka eða vinnuveitenda, að óska eftir því að ríkið grípi almennt séð ekki inn í kjarasamninga, þótt það hafi verið nauðsynlegt oft á tíðum þegar sérstakir erfiðleikar hafa verið á ferðinni.

Ég vil láta það koma hér fram, að öllum hv. þm. er áreiðanlega ljóst og líka hv. síðasta ræðumanni, að kjarasamningarnir á s.l. vetri voru því miður óraunhæfir, jafnvel þótt byggt væri á þeim víðskiptakjörum sem þá voru, jafnvel þótt byggt væri á því útflutningsverði sem við fengum fyrir sjávarafurðir okkar. Nú þegar viðskiptakjörin hafa rýrnað um meira en 30% frá þeim tíma liggur í augum uppi, að viðmiðunargrundvöllurinn getur ekki verið þeir kjarasamningar sem gengið var frá með þessum hætti á s.l. vetri.

Ég vil leiða hjá mér umr. um launajöfnunarbætur, upphæð þeirra eða fyrirkomulag, m.a. til þess að halda það heit, sem ríkisstj. hefur gefið launþegasamtökunum og vinnuveitendasamtökunum, að bíða með framlagningu þeirra till. og þ. á m. bíða með umr. um þær þar til aðilar sjálfir hafa fjallað um málið.