28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þessar umr. eru nú orðnar nokkuð almenns eðlis og er kannske ekkert við því að segja, því að þessi mál koma óneitanlega inn á mörg svið þjóðlífsins. Það liggur ljóst fyrir að lausn Vestmannaeyjavandans og bætur fyrir tjónið af snjóflóðunum í Neskaupstað eru ekki deilumál milli neinna þm. Það eru allir sammála um að þar skuli við staðið eftir bestu getu. Það er aðeins deilt um það hverja fjáröflunaraðferð eigi þar að hafa. Þar er því ekki hlaupist undan neinum merkjum. Ég tek ekki við neinum kveðjum um ábyrgðarleysi til mín varðandi það, enda hef ég lýst því yfir fyrr, að ef þetta er eina leið ríkisstj. og hún rígbindur sig við þessa einu leið þrátt fyrir tilraunir og góðan vilja í báðum stjórnarflokkunum til þess að koma ríkisstj. á öllu vitlegri leið, eins og hér hefur verið bent á, en menn hafa verið beygðir til þess af hæstv. ríkisstj. að fara þessa einu leið, — að að öllu því frágengnu og felldum okkar till. um þetta, þá mun ég vitanlega greiða þessu frv. í þeirri mynd, sem það nú er, atkv. engu að siður, af því að ég tel að við þær skuldbindingar eigi að standa.

En út af því, sem hv. 2. þm. Vesturl. sagði hér áðan um það, hvort við hefðum virkilega efni á því að tala um eitthvað gott í sambandi við vinstri stjórnina, þá verð ég að leyfa mér að segja örfá orð.

Vinstri stjórnin — við höfum einmitt ástæðu til þess að segja dálítið um hana — hún gerbreytti einmitt launakjörum fólks í landinu. Hún gerbreytti einmitt launakjörum láglaunafólks. Hún gerbreytti einmitt kjörum þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu, elli- og örorkulífeyrisþega, og ég get alveg fullvissað hv. 2. þm. Vesturl. um það, að ég er mjög stoltur af því að hafa mátt eiga minn litla þátt að því. Það er rétt, ríkisstj. átti við mikinn vanda að etja á s.l. ári, og hv. 2. þm. Vesturl. veit vel hvaða ástæður lágu fyrir þeim vanda, — þeim vanda sem lá í því að ekki var hægt að gera nauðsynlegar efnahagsráðstafanir. Það var fyrst og fremst ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar þá sem olli því, — ábyrgðarleysi þeirrar sömu stjórnarandstöðu sem sagði að það væri enginn vandi að leysa efnahagsmálin, enginn vandi að koma öllu í lag, það þyrfti bara að fá nýja menn við stjórnvölinn. Og nú eru þessir nýju menn komnir við stjórnvölinn og er rétt að þeir fari að sýna það. Þeir hafa ekki sýnt það enn þá. Það fer að koma tími til þess, eins og þetta var allt auðvelt á s.l. vetri. Það fer að koma tími til þess, að þeir sýni það og þeir mega gjarnan sýna það m.a. í því að rétta hlut láglaunafólks, elli- og örorkulífeyrisþega, ef hann hefur verið eitthvað slakur á dögum vinstri stjórnarinnar, eins og þessi hv. þm. lét orð liggja að áðan. Hann talaði um að fyrrv. ríkisstj. hefði tekið allt úr sambandi, kaupgjaldsvísitöluna þar með. Hún tók líka verðhækkanir, sem áttu að dynja yfir fólk rétt á eftir, úr sambandi. Hún tók þær einnig úr sambandi, þannig að launafólk stóð jafnrétt eftir.

Svo tala þessir hv. þm. nú um erfiða tíma og það sé minni upphæðum að skipta. Mætti þá ekki minna á reynsluna af þeirra eigin ríkisstj., viðreisnarstjórninni? Þá var stundum minna og stundum meira að skipta. Var það kannske svo, að kaupmáttur launa fylgdi þá ævinlega bættum viðskiptakjörum, að kaupmáttur launa verkafólks flygi upp í hvert skipti sem viðskiptakjörin bötnuðu? Reynslan af viðreisninni er allt önnur. Þar var ekkert samræmi á milli. Þeir hv. sjálfstæðismenn tala eingöngu um að kaupmátturinn eigi að fylgja viðskiptakjörunum þegar viðskiptakjörin ern eitthvað versnandi, þegar þau fara eitthvað niður á við. Þegar þau fara upp á við er ekki minnst á það.