28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég missti því miður af þeim umr. sem fóru fram hér um tryggingamál, en ég heyrði þó aðeins hluta af ræðu hv. næstsíðasta ræðumanns, þar sem hann jafnaði saman tekjutryggingu almannatrygginga, sem kom fyrst til framkvæmda í tíð vinstri stjórnarinnar, og heimild, sem gilti áður og gildir reyndar enn, um að hækka tryggingabætur ef viðkomandi aðili kemst ekki af án þess. Hér held ég að hv. þm. skilji ekki alveg nákvæmlega hvað hann er að tala um, því að þessi heimild til að hækka tryggingabætur var takmörkuð við heildarupphæð sem veitt var í ellilífeyri og örorkulífeyri í heild í landinu og mátti ekki fara yfir ákveðið mark, ég held það hafi verið 10%, þannig að það takmarkaðist þegar af þessum orsökum. (Gripið fram í.) Jú, það náði aldrei 10% sem veitt var. Þar að auki þurfti samþykki í hverju tilfelli frá sveitarstjórn. Það fólk, sem taldi sig ekki komast af með örorkubætur eða ellilífeyri, þurfti að leita til sveitarstjórnarinnar um að sótt yrði um það til trygginganna að það fengi hækkun, og sveitarstj. átti að greiða 2/5 af upphæðinni Það var mismunandi vel tekið undir þetta og í sumum sveitarfélögum var þessi hækkun yfirleitt ekki veitt. Það var mikil tregða hjá sveitarstjórnum að veita hækkun, að fólk bjó ekki við sama rétt um allt land í þessu máli. Þessu var breytt í tíð vinstri stjórnarinnar. Þá var það afnumið að sveitarstjórnir greiddu hluta af hækkun bóta. Þessu ákvæði var breytt þá og ekki fyrr. Og þá komu fyrst í gildi sérstakar bætur til þeirra sem náðu ekki ákveðnum tekjum, sérstök tekjutrygging. Hvers vegna skyldi þessi tekjutrygging hafa kostað ríkissjóð hundruð millj. ef það hefði verið það sama og hækkun á tryggingabótum var áður? Þar var mjög mikill munur á. Og nú er það svo, að þó að menn fái tekjutryggingu þá geta þeir eftir sem áður fengið hækkun. Sú regla í lögunum: gildir enn, að ef menn komast ekki af með ellilífeyri eða með tekjutrygginguna, þá eiga þeir enn rétt á því að fá hækkun og sú hækkun er framkvæmd enn í mjög mörgum tilfellum, en nú þarf ekki að sækja um það til sveitarstjórnar. Nei er það Tryggingastofnunin sjálf sem úrskurðar þetta. Fólk hefur verið leyst undan þeirri kvöð, sem gilti áður, að nánast segja sig til sveitar og leita til sveitarstjórnar um að fá hækkun.