28.02.1975
Neðri deild: 50. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Mér þóttu það æðimikil tíðindi, sem hæstv. orkumrh. greindi frá úr þessum ræðustól áðan, að ríkisstj. hefði á fundi sínum í morgun ákveðið að samþykkja 23% hækkun á gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur. Gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur var hækkuð um 41% í haust, og þegar 23% bætast ofan á þann grunn, þá jafngildir það því að gjaldskrá Hitaveitunnar hafi hækkað um hvorki meira né minna en 73% í tíð núv. ríkisstj., um 73% á hálfu ári. Ég hlýt að taka undir bað með hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur, að hér er um ákaflega þungbæra hækkun að ræða, hækkun sem bitnar að sjálfsögðu þyngst á þeim sem erfiðasta hafa afkomuna, vegna þess að menn komast ekki undan því að hita upp hýbýli sín hér í Reykjavík frekar en annars staðar.

Mér þætti æðifróðlegt að fá dálítið gleggri vitneskju um þessa afgreiðslu hæstv. ríkisstj. Ég las í Tímanum fyrir 1–2 dögum forustugrein þar sem borið var sérstakt lof á hæstv. viðskrh. fyrir það, að hann hefði staðið gegn órökstuddum og óeðlilegum kröfum Hitaveitu Reykjavíkur um hækkanir á gjaldskrá. Það var heill leiðari helgaður þessu málefni og frammistöðu hæstv. viðskrh. og reykvíkingar áttu að skilja að það væri þessi ágæti hæstv. viðskrh. sem stæði í veginum fyrir því að þarna bættist við ný og erfið hækkun. Mér þætti mjög æskilegt að fá skýringar hæstv. ráðh. á því, hvers vegna hann hefur breytt um skoðun í þessu máli. Það hefur að vísu gerst alloft á þeim mánuðum, sem núv. ríkisstj. hefur starfað, að þessi hæstv. ráðh. hafi ýmist sjálfur lýst yfir tilteknum skoðunum eða látið blað sitt gera það, en beygt sig svo fyrir samstarfsflokknum eftir tiltölulega stuttan tíma. Þetta gerðist í sambandi við síðustu gengislækkun, eins og menn muna, og þetta hefur gerst margsinnis oftar og þetta hefur greinilega gerst nú í sambandi við þessa ósk Hitaveitu Reykjavíkur, nema forustugreinin í Tímanum hafi verið skrifuð af hv. þm. Þórarni Þórarinssyni til þess að gera formanni flokksins alveg sérstakan óleik

Hæstv. iðnrh. skýrði frá því, að það hefði ekki legíð fyrir ríkisstj. nein beiðni frá Hitaveitu Reykjavíkur um aðstoð við öflun lánsfjár. Þetta merkir þá augljóslega það, að Hitaveita Reykjavíkur hefur fengið mál sitt afgreitt á þann hátt að geta tekið meiri hlutann af þessum miklu nýbyggingarframkvæmdum af hreinum ágóða af rekstri sínum. Hér er um að ræða aðstöðu sem engin önnur fyrirtæki á Íslandi hafa svo að ég viti til. Það má eflaust færa rök að því, að þetta sé í sjálfu sér góð stjórn á fyrirtæki. En ef slík stjórn á að vera á slíkum fyrirtækjum hér á Íslandi, ef við erum menn til þess að stjórna fyrirtækjum okkar á þennan hátt, þá er rétt að önnur fyrirtæki sitji þar við sama borð. En það veit ég sannarlega ekki til að gert hafi verið.

Hæstv. iðnrh. er nú farinn héðan, svo að ég skal ekki eyða löngum tíma í að gera aths. við það sem hann beindi sérstaklega til mín. Ég átaldi þær tafir sem orðið hefðu í nágrannabyggðum Reykjavíkur. Við skulum vona að þær verði ekki mjög langar. En ég vil minna á það, að hver dagur sem tafir standa kostar margar millj. kr. — hver dagur, þannig að þær vikur, sem þegar hafa farið til einskis í þessu sambandi, eru þegar orðnar dýrar Hæstv. iðnrh. sagði, að það væri nú mikill munur á framtaki sínu og fyrrv. ríkisstj. í sambandi við hitaveitu á Suðurnesjum. Það hefði gerst hvorki meira né minna en það, að samþ. hefði verið frv. hér á þingi fyrir jól. Þetta veit ég ákaflega vel. En ég er hræddur um, að suðurnesjamenn ylji sér ekki ákaflega mikið á einu saman frv. Og það, sem á stendur þar er að hæstv. ríkisstj. hefur ekki getað veitt sveitarfélögunum neina fyrirgreiðslu til þess að afla fjármagns til að ráðast í þessar framkvæmdir. Það var þetta, sem ég spurði um, og um þetta fékk ég ekkert svar nema út í hött, að frv. hefði verið samþ. Það er alls ekki um það að ræða. Það er um það að ræða að afla fjármagns. Þetta er í sjálfu sér ákaflega svipað og þegar sami hæstv. ráðh. stóð hér í vetur og var að telja að hann væri að bæta úr orkuvandræðum austfirðinga í vetur með því að samþykkja frv. um Bessastaðaárvirkjun, sem vonandi kemst í gagnið upp úr því að þessum áratug lýkur.

Um ásakanir hæstv. ráðh. á míg skal ég ekki mikið segja. Það kemur vonandi í ljós á sínum tíma, að hæstv. iðnrh. geti staðið jafnsæmilega ánægður upp úr sínum stól og ég taldi mig gera. Það var þannig í sambandi við virkjunarmál, að það var aðeins ein virkjun sem vinstri stjórnin tók í arf, hin margfræga Laxárvirkjun, og um þann arf þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Ef hæstv. iðnrh. endist hins vegar pólitískur aldur til þess að sitja í ríkisstj. í svo sem tvö ár í viðbót, þá mun honum áskotnast Lagarfossvirkjun, Sigölduvirkjun, Mjólkárvirkjun og Kröfluvirkjun, og ég vona að hann skili þeim, sem við tekur af honum, ekki minni arfi en þetta, þetta eru virkjanir sem nema á 3. hundrað megawöttum.

Ég vil vekja athygli á því, að ég bar upp við hæstv. ráðh. beinar fsp. sem hann svaraði ekki. Ég spurði hann um það, hvort ætti aftur að svíkja fyrirheitið um að leggja tengilínu milli Suðurlands og Norðurlands. Hann svaraði því engu orði. Hann svaraði ekki heldur neinu um það, hvað gert yrði til þess að leggja tengilínur frá Kröfluvirkjun til Norðurlandssvæðisins og til Austfjarðasvæðisins. En þar sem þessi hæstv. ráðh. er nú farinn héðan af fundi, þá skal ég ekki fara fleiri orðum um þennan hluta úr ræðu hans. En ég vil ítreka þá ósk mína við hæstv. viðskrh., að hann geri grein fyrir því hvers vegna hann hefur skipt um afstöðu í þessu máli miðað við það sem Tíminn skýrði frá fyrir nokkrum dögum hvers vegna hann hefur nú fallist á stórfellda hækkun á hitaveitugjöldum í Reykjavík, gagnstætt því sem lýst hefur verið til skamms tíma að afstaða hans væri.