28.02.1975
Neðri deild: 50. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna tilefnis sem gafst hér áðan við ræðu hv. 9. landsk. þm., þar sem ýmislegt, sem ég sagði í ræðu minni áðan, var mjög dregið í efa.

Ég hélt því m.a. fram í ræðu minni fyrr í dag, að varðandi þá, sem byggju annars vegar utan hitaveitusvæðis, eins og t.d. íbúa á Vestfjörðum, Austurlandi og Norðurl. v., og hins vegar þá, sem byggju á hitaveitusvæði hér .á suðvesturhorninu, væri ekki aðeins um verðmismun að ræða á kyndikostnaði, heldur einnig aðstöðumun varðandi húsnæði, þeir, sem byggju á olíusvæðunum, hefðu við að búa lakari húsakost en þeir, sem byggju hér á suðvesturhorninu, m.a. bæði eldri hús og verr einangruð. Hv. 9. landsk. þm. mótmælti þessu og sagði í ræðu sinni að vestfirðingar byggðu vel og væru ekki verri hús þar en hér. Ég vil benda hv. þm. á það, að ég er hér aðeins að vitna í skýrslur sem stjórn Fjórðungssambands vestfirðinga hefur látið gera, hefur látið fjölrita og hefur látið dreifa og hafa m.a. birst í öllum dagblöðum á Íslandi. Ég á báðar þessar skýrslur, og er sjálfsagt að ljá hv. 9. landsk. þm. þær báðar, það er ekki langt að fara að sækja þær. En ég ætla aðeins að fara örfáum orðum um þessar skýrslur tvær.

Í fyrsta lagi var á vegum Fjórðungssambands vestfirðinga gerð aldurskönnun á húsum í Vestfirðingafjórðungi. Þar kom m.a. í ljós, að hús í Vestfirðingafjórðungi voru bæði töluvert miklu eldri og töluvert verr einangruð og verr búin heldur en hús í flestöllum öðrum kjördæmum landsins. Þessi athugun var gerð fyrir ekki ýkjalöngu og var slegið töluvert upp í blöðum. Þetta var enn fremur fjölritað og dreift og ég trúi vart öðru en allir þm. Vestf. hafi þessar upplýsingar undir höndum.

Í annan stað sagði ég, að það var einnig vefengt að því er mér virtist, að það væri um það bil 18% dýrara að kynda hús með olíu á Vestfjörðum en hér á suðvesturhorninu. Mér heyrðist þetta einnig vera vefengt. Þetta eru einnig niðurstöður af rannsókn sem stjórn Fjórðungssambands vestfirðinga hefur gert. Ég sagði, hafi sá þáttur í ræðu minni verið vefengdur, að ástæðurnar væru tvær: í fyrsta lagi kaldara veðurfar og í öðru lagi verri húsakostur. Það var vefengt, að um verri húsakost væri að ræða. Ég vil aðeins taka það fram, að þetta er niðurstaða í skýrslu stjórnar Fjórðungssambands vestfirðinga, þar sem hún tiltekur tvær ástæður fyrir því, að það er 18% dýrara að kynda húsnæði þar en hér. Niðurstaða stjórnar Fjórðungssambandsins, sem er einnig til fjölrituð í skýrslu og hefur einnig verið birt í öllum dagblöðum í Reykjavík og ég hef einnig undir höndum og er sjálfsagt að ljá hv. 9. landsk. og öðrum þeim þm., sem kannske þyrftu á þeim upplýsingum að halda, niðurstaðan er sú, hjá stjórn Fjórðungssambandsins, að ástæðurnar fyrir þessu séu í fyrsta lagi sú, að þar sé kaldara veðurfar, og í öðru lagi að það sé lélegri húsakostur á Vestfjörðum heldur en á öðrum stöðum landsins. Þetta hefur einmitt valdið því, að vestfirðingar hafa nú eins og íbúar í öðrum landshlutum lagt mjög mikla áherslu á endurbætur á húsakosti sínum, einmitt vegna þess að það hefur komið fram í rannsóknum, sem gerðar hafa verið á vegum stjórnar Fjórðungssambands vestfirðinga, að húsakostur á Vestfjörðum er því miður lakari, eldri og verr einangraður en á öðrum stöðum á landinu.

Þá var einnig sagt af sama hv. þm., 9. landsk. þm., að ég hafi ranglega farið með kostnaðartölur um mismuninn á hitunarkostnaði hjá þeim, sem við olíukyndingu búa, og hjá hinum sem hitaveitu njóta. Ég vil enn fremur leiðrétta það, að hér sé nokkuð rangt með farið, og ætla að lesa þær tölur sem ég studdist við þegar ég nefndi þetta og ég hélt að öllum þm. væru kunnar, vegna þess að þær hafa birst prentaðar í þskj. Tölurnar eru þessar og byggðar á athugun frá Þjóðhagsstofnun:

„Eftir því sem næst verður komist munu notendur olíu til hitunar húsnæðis síns vera 95 þús. manns, og miðað við núgildandi verðlag yrði kostnaður á mann, reiknaður á 95 rúmmetra rými á hvern mann, samtals 23028 kr. Tilsvarandi kostnaður reiknaður á sama hátt fyrir þá, er njóta jarðvarma með verðlagi 32 kr. pr. tonn af heitu vatni, yrði 6 536 kr.“

Annars vegar eru 23 028 kr., hins vegar 6 536 kr. Ég held að hv. þm. eigi næsta auðvelt með að komast að raun um það, að önnur talan er tæplega fjórum sinnum hærri en hin, það þarf ekki mikla reikningskúnst til að komast að raun um það. Ég tók það einnig fram í máli mínu fyrr í dag, að ég efaðist mjög um að þessar upplýsingar Þjóðhagsstofnunarinnar væru réttar, einfaldlega vegna þess að ég hef aflað mér upplýsinga um það að kyndikostnaður væri talsvert miklu hærri hjá þeim, sem olíu nota, heldur en þarna væri ráð fyrir gert. Hv. 9. landsk. þm. dregur þær kostnaðartölur ekki í efa, að það geti kostað milli 15 og 20 þús. kr. á mánuði að híta meðalíbúð úti á landi. Dragi hana þær kostnaðartölur ekki í efa, þá er hann farinn að nálgast ansi mikið mínar hlutfallstölur, sem ég nefndi hér áðan, að það væri 5–6 sinnum dýrara að kynda hús með olíu úti á landsbyggðinni heldur en kynda hús með heitu vatni á suðvesturhorninu. Þetta liggur því alveg ljóst fyrir, ýmist prentað í gögnum Fjórðungssambands vestfirðinga eða prentað í þeim gögnum, sem hafa verið lögð fram í sölum hv. Alþingis.

Ég ætla ekki að ræða um það, sem hv. 9. landsk. þm. sagði um það, að ég hafi sagt að þm. stjórnarliðsins hefðu við afgreiðslu fjárl. unnið gegn hagsmunamálum vestfirðinga. Það hef ég aldrei sagt. Ég sagði í blaði mínus að hagsmunamál vestfirðinga hefðu fengið betri viðtökur í sölum Alþ. en á fundum Vestfjarðaþm. Þetta er rétt, það er staðreynd, einfaldlega vegna þess að hv. Alþ. samþykkti till. frá okkur hv. þm. Karvel Pálmasyni við afgreiðslu fjárl., sem ekki var hægt að fá alla þm. Vestf. til að fallast á. Ég held því, að ég hafi fullt leyfi til þess að segja að þessi hagsmunamál Vestfjarðakjördæmis hafi hlotið betri viðtökur í sölum Alþ. heldur en í fundarherbergi Vestfjarðaþm.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það, að vissulega má segja, þegar láglaunafólk stendur frammi fyrir því að þurfa áð verja um helmingi af dagvinnutekjum sínum til þess að greiða kyndikostnað fyrir íbúðir sínar, þá má náttúrlega segja við þá: Blessaðir verið þið, sparið þið það, slökkvið þið bara á katlinum hjá ykkur, hættið þið bara að kynda. — Það er alltaf hægt að svara á þessa lund. En tilgangurinn með flutningi þessa frv. og með þeim umr., sem hér hafa farið fram í dag, er einmitt að þannig þurfi þetta fólk ekki að fara að. Það er tilgangur okkar, að fólk þurfi ekki að svara stórhækkuðum kostnaði vegna olíuverðhækkunar með því að draga úr eðlilegri húshitun hjá sér. Mér finnst það nú ansi billegt, þegar við vitum, að það liggur fyrir fyrir framan okkur á borðum að það er fjór- til fimmfaldur mismunur á högum manna að þessu leyti til í landinn, að þá sé hægt að svara fólki þannig, sem við lökust kjörin býr: Ja, blessuð, sparið þið bara.