28.02.1975
Neðri deild: 50. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. þm. Magnús Kjartansson hafði áhyggjur af skoðanaskiptum sem ættu sér stað hjá mér. Ég get huggað hann með því, að það eiga sér ekki stað nein sérstök skoðanaskipti hjá mér fram yfir það sem eðlilegt er alltaf hjá hverjum manni, að menn verða náttúrlega alltaf að taka sínar skoðanir til endurskoðunar og laga sig eftir þeim rökum og gögnum sem fram koma í hverju máli. Það veit ég, að hann skilur, að það er ekki hægt að halda alltaf við sömu stefnu, hvernig sem aðstæðurnar breytast í kringum mann. Það verður auðvitað að laga stefnuna eftir þeim þörfum sem fyrir hendi eru. En í verðlagningarmálum get ég huggað hann með því, að stefna mín í þeim er alveg óbreytt og alveg sú sama í núv. ríkisstj. og í fyrrv. ríkisstj. Ég stóð í fyrrv. ríkisstj, alltaf öndverður, eftir því sem mögulegt var, gegn hvers konar verðhækkunum. Það hef ég líka gert og mun gera í núv. ríkisstj.

Það var hækkað afnotagjald fyrir Hitaveitu Reykjavíkur í tíð fyrrv. ríkisstj. Ég er ekki alveg viss um að skoðanir okkar, hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, hafi þá verið alveg á sömu lund. Það gæti verið, að ég hafi verið svolítið íhaldssamari þá heldur en hann var. (MK: Já, þá var kaupgjaldið ekki bundið.) En viðvíkjandi þessari ákvörðun um hækkun hitaveitugjalds nú, þá er auðvitað svo um það, að það eru mörg matsatriði sem koma þar til greina. Það er auðvitað grundvallaratriði, að Reykjavíkurborg hefur tekið að sér að annast framkvæmdir sem allir eru sammála um að þurfi að komast í framkvæmd, þ.e.a.s. hitaveituframkvæmdir í nágrannabæjunum. Hins vegar er það alltaf spursmál, að hve miklu leyti slíkar framkvæmdir eigi að byggjast upp af eigin fjármagni eða af lánsfjármagni, ef það er fáanlegt. Ég hygg,að með þeirri hækkunarkröfu sem Hitaveitan gerði, um 30% hækkun, þá hafi verið gert ráð fyrir því, að framkvæmdir Hitaveitunnar í ár væru byggðar upp sem svarar um 30% af eigin fjármagni, en að hinu leytinu fyrir lánsfé, þannig að það er auðvitað ekki um það að ræða að Hitaveitan byggi að öllu leyti upp fremur en áður fyrir eigið fjármagn, þó að það geti verið góð stefna þegar hún á víð. Ég taldi þetta óþarflega mikið eigið fjármagn og taldi, að til þessara framkvæmda, sem eru gjaldeyrissparandi, ætti að vera unnt að breyta óhagstæðum bráðabirgðalánum Hitaveitunnar í nokkur lengri lán og þess vegna þyrfti hún ekki á allri þessari hækkun að halda, 30%, eins og farið var fram á. Það hefur verið hafður sami háttur á í tíð núv. stjórnar og þeirrar fyrrv. að því leyti til. að það hafa sérstakir trúnaðarmenn verði látnir fara yfir beiðnir sem berast um gjaldskrárhækkanir sem heyra undir mismunandi rn. Það er óhætt að segja, að till. þessara trúnaðarmanna var um nokkru hærri hækkun en þá sem samþykkt var í morgun í ríkisstj.

Sú hækkun, sem samþ. var í ríkisstj. í morgun, var líka aðeins nokkru lægri en fulltrúi Alþb. í borgarstjórn Reykjavíkur hafði samþ. að fara fram á, þannig að enn er dálítið ósamræmi hjá Alþ.- mönnum, þegar um er að ræða fulltrúa á Alþ. og svo fulltrúa aftur í einstökum stofnunum, þar sem þeir hafa verið settir eða kosnir til þess að gæta tiltekinna hagsmuna.

Ég skal ekki fara út í það. En ég vil ráðleggja hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni að tala ekki sérstaklega mikið um skoðanaskipti, því að það gæti verið að það væri hægt að rifja upp, að hann hefði skipt býsna oft um skoðun frá því að hann yfirgaf stól sinn í rn. og þangað til nú. Það eru æðimörg tilfellin sem væri hægt að benda á. En ég skal ekki fara út í það nú, en tel að ég hafi með þessum orðum skýrt það fyrir honum, að ég hafi haldið fast við stefnu mína um að reyna að standa, eftir því sem hægt er og án þess að tefja þær framkvæmdir sem enginn vill tefja, gegn hækkunum eftir því sem nokkur kostur er á.

Ég skal svo ekki blanda mér inn í þær umr., sem hér hafa farið fram, því að í raun og veru eru menn að meginefni til sammála. Menn eru sammála um að það sé geysimikill munur hjá þeim, sem verða að búa við olíukyndingu, og hinum, sem njóta hitaveitu. Og það er augljóst, að sá munur er svo geysilega mikill að hann verður ekki brúaður á nokkurn hátt með því að hækka styrkinn úr 8 200 kr. í 10 þús. kr. Það má segja, að bilið minnki aðeins, en það er ekki nema hænufet, ef svo mætti segja. Hitt er svo allt annað mál, hvort menn vilja brúa þetta bil að fullu. En þá eiga menn að byrja á réttum enda og þá er fyrst að afla fjár til þess að jafna þennan mun, og að því leyti til er rökrétt hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni að benda á þá hækkun, sem hann gerir, verðjöfnunargjald á hitaveitur, sem dugar þó ekki til að jafna þennan mun. En ég tel, að það sé ekki hægt, eins og málum er komið, að fara að blanda því inn í þetta mál á þessu stigi. Þetta mál þarf að afgreiða nú. Hitt er svo allt annað mál, hvort menn vilja stíga stærra skref til þess að jafna þennan mikla mun, og þá er sjálfsagt, eins og hann gerir, að fara fyrst inn á það að gera ráðstafanir til að afla fjár til að jafna þennan mun. Ég fyrir mitt leyti vil alls ekki útiloka þann möguleika, að þar geti einhvers konar orkuskattur komið til greina. En það er mál, sem þarf að mínum dómi að vera alveg sérstakt og athuga þarf alveg út af fyrir sig. En það er ekki rétt að blanda því saman við þetta mál.

Auðvitað má segja að sú fjárhæð, sem fari í Orkusjóð samkv. þessu frv., geri ekki mikið í þá átt að fullnægja þeirri fjárþörf sem er fyrir hendi til þess að hægt sé að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum orkuframkvæmdum. En hún a.m.k. minnkar bilið að nokkru leyti og getur áreiðanlega orðið til góðs og komið að góðu gagni. Það á t.d. ekki síst við um rannsóknir. Það er skiljanlegt að þeir menn, sem búa við olíukyndingu eða jafnvel við rafmagnshitun, hafi mikinn hug á því að fá hitaveitu, ná í jarðvarma til þess að hita hús sín með þeim hætti. En þannig stendur á víða, að það skortir alveg rannsóknir til þess að skera úr því, hvort sá möguleiki sé fyrir hendi eða ekki. Þær rannsóknir eru æðikostnaðarsamar og í þær verður því miður oft að leggja í upphafi þannig, að það er alls ekkert um það vitað, hvort þær muni bera árangur eða ekki. Niðurstaðan getur orðið sú, því miður, að það sé ekki hægt að koma þar við hitaveitu, og ég álít að það sé ekki síst í slíkum tilfellum að þörf sé að hlaupa undir bagga með sveitarfélögum sem hafa áhuga á því að gera slíkar kostnaðarsamar rannsóknir, sem vafasamt er að geti borið þann árangur sem til er ætlast. En þetta framlag, sem þarna er um að ræða, miðar að sínu takmarkaða leyti að því að æ fleiri geti fengið hitaveitu. Og það held ég að öllum hljóti að vera ljóst, að þeim mun fleiri sem fá þá aðstöðu að geta notið hitaveitu, þeim mun auðveldara verður það verkefni að jafna metin á eftir, eftir því sem þeir verða þó færri sem búa við hinn dýra kost að þurfa að kynda hús sín með olíu. Þeim mun auðveldara verður t.d. að koma við verðjöfnun, ef menn skyldu vilja hverfa að því ráði. Ég held að þó að í litlu sé, þá sé með þessum hætti verið að vinna fyrir framtíðina og framtíðarlausn þessara mála, og menn ættu ekki að gera of lítið úr því, þó að þarna sé ekki um stórar fjárfúlgur að tefla. Mönnum hefur hætt hér við, finnst mér, að tala mikið um Vestfirði og Stór-Reykjavíkursvæðið, en ég vil minna á að sem betur fer eru ýmsir staðir úti á landi sem með fyrirhyggju og aðstöðu, sem hefur verið fyrir hendi, hafa komið sér upp hitaveitu og njóta hitaveitu og búa við ekki lakari kjör að því leyti til en reykvíkingar. Þessum stöðum þarf að fjölga. Og það eru vissulega margir staðirnir nú einmitt þessa dagana, sem hafa áhuga og hann ríkan í þessu efni, og það stórir staðir, sem mundu skipta mjög miklu máli, eins og t.d. Akureyri, og svo margir fleiri, t.d. Siglufjörður, þar sem svo stendur á að hitaveita er þar nú fullhönnuð og segja má að hægt sé að hefja útboð framkvæmda, ef fjárútvegun verður fyrir hendi. Það var á sínum tíma af miklum dugnaði komið upp hitaveitu í litlu kauptúni á Norðurlandi, Hvammstanga. Það er hitaveita á Sauðárkróki, það er hitaveita á Ólafsfirði, og þannig mætti lengi telja. Það eru nokkrir staðir, sem hafa haft þessa aðstöðu, sem hafa notað sér hana og njóta góðs af, og menn þar í nágrenni sjá líka hver munur er þar á orðinn. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að það sé áhugi í þeim kauptúnum og fjölbýlissvæðum öðrum, sem þar er um að ræða, að koma þessu á hjá sér, og það er undirbúið, t.d. eins og á Blönduósi.

Um hitt, hvort menn vilja heldur hita mennina, sem illa eru staddir, fá þetta hærri fjárhæð, 1800 kr. hærri, þá er ákaflega einfalt að leggja þeim mun minna í þessar framkvæmdir. Það er ákaflega einfalt atriði, finnst mér, að gera þetta upp við sig og menn ættu að geta gengið til atkv. um það einfalda atriði án þess að viðhafa ákaflega langar orðræður. Ég held, að allur metingur á milli staða og landshluta sé í þessu efni heldur til leiðinda.