20.11.1974
Efri deild: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

11. mál, launajöfnunarbætur

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Vegna ummæla hv. 1. landsk. áðan um hækkanir á búvöruverði, langar mig til að segja örfá orð. Raunar fannst mér hv. þm. svara að mestu leyti sjálfur því sem hann talaði um sem hrollvekjandi hækkanir á landbúnaðarvöruverði á undanförnum mánuðum. Það er alveg rétt, á undanförnum mánuðum hafa orðið miklar hækkanir á búvöruverði. Það er einmitt vegna þess, eins og hann nefndi í ræðu sinni, að fjöldi vara hefur hækkað miskunnarlaust. Hækkanir á búvöruverði á undanförnum mánuðum hafa speglað þá almennu vöruverðshækkun sem orðið hefur, sérstaklega á mikilsverðum aðfluttum vörum, eins og t.d. fóðurbæti, raunar á áburði líka og yfirleitt flestum rekstrarvörum til búskapar.

Eins og ég geri ráð fyrir að allir hér viti fer verðlagning landbúnaðarvöru fram samkvæmt sérstökum lögum, lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins. Það er megininntak þessara laga að búvöruverð skuli við það miðað að þeir, sem landbúnað stunda, hafi sambærilegar tekjur við ákveðnar stéttir sem kallaðar hafa verið viðmiðunarstéttir. Þessar viðmiðunarstéttir eru verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn, þó ekki þeir, sem talað var um hér áðan, hvorki ákvæðisvinnumenn í hópi iðnaðarmanna né sjómenn sem taka laun sín sem aflahlut. Þetta er sem sagt grundvallaratriði í þessum lögum. Það er ekki heimilt að hækka búvöruverð umfram það sem nauðsynlegt er. Það má kannske telja að það sé nokkuð teygjanlegt orðalag. En mér er alls ekki ljóst hvernig hægt er að gera ráð fyrir því að vinnustétt, sem tekur laun samkvæmt ákveðnum lögum, býr við nokkurs konar gerðardóm sem lokaákvörðunarstig í verðlagningu,en það er hin svokallaða yfirnefnd í verðlagsmálum, sem ákveður verðlag, komi 6 manna nefnd sér ekki saman, — mér er ekki ljóst hvernig stétt, sem býr við slíkt opinbert eftirlit með verðlagningu framleiðslu sinnar, getur tekið á sig jafngífurlegar hækkanir í rekstrarkostnaði eins og hafa átt sér stað að undanförnu. Ég held að það þurfi ekki að skoða þessi mál lengi til þess að sjá að einmitt í þessu liggur ástæðan fyrir þeim hækkunum, sem orðið hafa á undanförnum árum.

Ég ætla ekki að tefja með langri ræðu um þetta að sinni. Það mætti vafalaust margt um þessi mál tala. Hækkun á búvöruverði á undanförnu verðlagsári varð mjög svipuð til bænda og t.d. almennar kauphækkanir í landinu. Hitt er svo annað mál að niðurgreiðslurnar hafa þau áhrif að það helst ekki endilega í hendur prósenthækkun á verði varanna til neytenda og prósenthækkunin til framleiðendanna. Vara, sem greidd er niður, eins og mjög tíðkast nú um landbúnaðarvöru og gert er til að halda niðri verðlagi í landinu og eru ákvarðanir stjórnvalda til að hafa áhrif á verðbólgu, —- þessar niðurgreiðslur valda því að það verða annars konar hlutfallshækkanir, prósentuhækkanir á verðinu til neytandans er framleiðsluverðinu til bóndans. Þetta er mjög auðskilið. Ef verð vöru sem t.d. er greidd niður, — ég hef þetta svo til að auðvelda dæmið, — greidd niður um 50%, hækkar til bóndans um 10% þá hækkar hún auðvitað um 20% til neytandans, ef ekki fylgja neinar aðgerðir í niðurgreiðslumálum verðhækkuninni.