28.02.1975
Neðri deild: 50. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hef ekki átt þess kost að hlusta nema lítillega á þær umr., sem hér hafa farið fram, og hafði ekki heldur ætlað mér að taka þátt í þeim. En einu sinni þegar ég gekk hér um heyrði ég að hv. 3. þm. Reykv. nefndi nafn mitt og var að velta því fyrir sér, vegna hvers ég hefði skrifað ákveðna grein í Tímann sem hefði fjallað um þessi mál. Ég get nú orðið við þeirri ósk hv. þm. að skýra honum frá því, vegna hvers ég skrifaði þessa grein, en til þess lágu tvær ástæður.

Fyrri ástæðan var sú, að ég vildi styrkja aðstöðu hæstv. viðskrh. í málinu, vegna þess að ég vissi að hann taldi sér ekki fært að fallast á þá beiðni sem hafði komið fram um hækkun frá Hitaveitunni, sem var 30% og hefur nú verið ákveðin 23%.

Hin ástæðan til þess að ég skrifaði þessa grein var sú, að ég taldi mig hafa mjög sterkan bandamann í þessu máli, bandamann sem mikið munaði um og bandamann sem hefði stærsta andstöðuflokkinn í borgarstjórn Reykjavíkur á bak við sig, og það munaði þess vegna ekki lítið um þegar slíkur maður og slíkur flokkur væri á sama máli. Það, sem ég hafði fyrir mér í þessu, var forustugrein sem birtist í Þjóðviljanum s.l. sunnudag og var að vísu undirrituð með litlum staf, m., en í þessari grein segir m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ljóst er að fyrirtæki Reykjavíkurborgar eru nú að koma á neyðarástandi til þess að knýja stjórnvöld og þá sérstaklega Ólaf Jóhannesson viðskrh. til þess að heimila hrikalegar nýjar verðhækkanir á rafmagni og heitu vatni. Báðar þessar lífsnauðsynjar hafa þó hækkað meira í tíð núv. ríkisstj. en nokkru sinni fyrr. Verði orðið við kröfum Hitaveitu Reykjavíkur mun láta nærri að gjald fyrir heitt vatn hafi tvöfaldast í tíð núv. ríkisstj. Kröfur Hitaveitunnar eru miðaðar við það að fyrirtækið hirði stórfelldan gróða af viðskiptavinum sínum og geti fjármagnað hinar nýju stórframkvæmdir að meiri hluta með gróðanum einum. Slík fjármögnun“ — nú skulu menn taka eftir — „slík fjármögnun er einsdæmi í íslensku þjóðfélagi og krafan um hana siðlaus árás á afkomu almennings í höfuðborginni. Lengi vel reyndu ráðamenn Hitaveitunnar að halda því fram að þessi gróðasöfnun væri skilyrði í sambandi við lán frá Alþjóðabankanum, en í tíð vinstri stjórnarinnar var farið ofan í þau mál og sannað að þessar staðhæfingar voru vísvitandi ósannindi.“

Var nú hægt annað en að treysta á fullan stuðning Alþb. í þessu máli, eftir að einn af aðalforingjum þess hafði kveðið upp þann dóm að krafan um þessa hækkun væri siðlaus árás á afkomu almennings í höfuðborginni? En hver varð svo reyndin? Tveimur dögum eftir að þessi grein birtist í Þjóðviljanum var haldinn fundur í borgarráði Reykjavíkur, og þar hefði mátt búast við harðri andstöðu fulltrúa Alþb. eftir þessi skrif í Þjóðviljanum. Þá hefði mátt treysta á að maður hefði öflugan bandamann þar sem var borgarfulltrúi Alþb. í borgarráði. Það var hægt að búast við því að borgarfulltrúi Alþb. mundi á þessum vettvangi fylgja fast fram því, sem Magnús Kjartansson var búinn að segja í Þjóðviljanum að væri siðlaus árás á afkomu almennings í höfuðborginni, að hækka hitaveitugjaldið. En niðurstaðan var nú samt sú, því að Sigurjón Pétursson, borgarfulltrúi Alþb. og fulltrúi hans í borgarráði Reykjavíkur, greiddi atkv. með því að hitaveitugjald yrði hækkað um 24%. Raunverulega var það þessi afstaða Alþb. sem réð úrslítum í málinu. Það var þessi afstaða þess sem réð endanlegum úrslitum í málinu að mínum dómi. Það var ekki hægt annað, þegar ekki aðeins stjórnarflokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur var búinn að bera fram þessa kröfu, að þetta yrði lagt á reykvíska borgara, heldur líka aðalstjórnarandstöðuflokkurinn, en að láta undan og verða við henni að einhverju leyti. Ég tel að það sé þessi afstaða Sigurjóns Péturssonar sem hefur haft megináhrif á hvernig fór, því að hér var borin fram krafa ekki aðeins af hálfu stjórnarflokksins í borgarstjórninni, heldur líka af hálfu stærsta stjórnarandstöðuflokksins í höfuðborginni, og ég tel að þessi afstaða hans og Alþb. þar með eigi meginþátt í því að nú hafi hitaveitugjöld reykvíkinga verið hækkuð um 23%.

Ég verð að játa að mér er það hálfgert harmsefni, að sá bandamaður, sem ég treysti svona mikið á og hef oft treyst á og hefur líka oft staðið við það sem hann hefur sagt, skyldi ekki reynast betur að þessu sinni en raun varð á. Og ég harma þá líka, að það hefur komið oftar fyrir að hann hefur ekki getað staðið við þá stefnu sem hann hefur haldið fram í blaði sínu eða hér á Alþ. Þess er skemmst að minnast hvernig farið hefur í málmblendiverksmiðjumálinu. Þar hefur hv. þm. ekki frekar getað staðið við þá stefnu, sem hann markaði, heldur en við þá stefnu sem hann hélt fram í sambandi við hitaveitumálin í forustugrein Þjóðviljans s.l. sunnudag.

Ég verð að játa það, að þegar ég skrifaði þessa grein, þá hef ég treyst helst til mikið á þann bandamann sem ég hélt að mundi standa ósleitilega að sömu stefnu og ég hafði og hafa flokk sinn á bak við sig. Því miður hef ég orðið fyrir vonbrigðum í þeim efnum. Og það er tvímælalaust — og það vil ég endurtaka — að ef borgarfulltrúi Alþb. hefði ekki tekið þessa afstöðu í borgarráði Reykjavíkur, þá hefði verið auðveldara að halda áfram baráttunni gegn því að hitaveitugjald yrði hækkað. Það er þessi raunverulega afstaða Alþb. — því að ég tel að í þessu sambandi komi raunveruleg afstaða Alþb. betur fram í borgarráðinu heldur en í Þjóðviljanum — það er hún sem hefur átt mestan þátt í því að þannig hefur nú farið, að hitaveitugjöldin á reykvíkingum hafa verið hækkuð um 23%, þó einu prósenti minna en borgarfulltrúi Alþb. lagði til í borgarráðinu.

Ég held að ég sé með þessu búinn að gefa fullar skýringar á því af hverju ég skrifaði umrædda grein. Ég vil aðeins segja það að lokum, að ég vænti þess að þegar ég treysti næst á hv. 3. þm. Reykv. sem bandamann, þá reynist hann mér öflugri bandamaður en hann hefur reynst í þessu máli.

Sigurlaug Bjarnadóttir: Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr., þær eru orðnar nógu langar. Því var stungið að mér þegar ég kom hér úr ræðustól áðan að vestfirðingar væru djarftækir til ræðutíma á Alþ. Ég get ekki tekið þetta til mín, það eru aðrir, sem frekar mega gera það.

En ég vil aðeins í örstuttu máli benda hv. 8. landsk. á að það, sem á milli ber í okkar tölum, er það, að ég gerði ráð fyrir þessari 20–24% hækkun þegar ég mótmælti að fimm- til sexfaldur mismunur, sem hann talaði um, væri réttur. Í samtali mínu við hitaveitustjóra í morgun gaf hann mér í skyn að þessi hækkun kæmi alveg á næstunni, svo að ég taldi mig ekki tala út í bláinn. Og hv. þm. Þórarinn Þórarinsson lýsti því yfir nú rétt áðan, að mér skildist, að hún væri komin til framkvæmda, þessi hækkun á hitaveitutaxta, og væri 23%. Ég tel mig því hafa farið rétt með tölur út frá þessari forsendu, að hitaveitugjaldið var að hækka.

Síðan langar mig aðeins að benda hv. 8. landsk. þm. á rangfærslu hans í sambandi við afgreiðslu fjárl. þótt ég ætli ekki að fara að pexa um það nú. Hann sagði einfaldlega að það, sem hann hefði meint í umræddri blaðagrein, væri að þeir Karvel Pálmason hefðu fengið samþykktar till. við afgreiðslu fjárl. sem við hinir, stjórnarliðarnir í hópi Vestfjarðaþm., vildum ekki fallast á. Sannleikurinn er sá og ég er nýbúin að fara í gegnum öll þessi þskj., að engin einasta af brtt. þeirra félaga, þótt bornar væru fram af góðum hug, fékk samþykki. Það var ein einasta brtt. frá einstökum þm. samþ. við þessa fjárlagaafgreiðslu, ég hygg að við munum það öll, það var 10 millj. kr. hækkun til sjúkrahúsbyggingar í Neskaupstað. Hinar voru allar með tölu felldar þannig að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson fór þarna beinlínis með rangt mál. Þar fyrir vil ég ekki neita því að slíkar tillögur stjórnarandstöðuþm. gera sitt gagn að vissu marki, þó að engin þeirra eða mjög fáar séu nokkurn tíma samþykktar af ástæðum sem ég fer ekki út í að skýra hér.

Sighvatur Björgvinsson hneykslaðist mikið á því að ég sagði: Þið skuluð spara. — Ég hika ekkert við að endurtaka það, enda meinti ég það ekki til vestfirðinga einna og þeirra sem olíu nota til húsakyndingar, heldur til reykvíkinga og allra annarra, og væri betur að fleiri tækju í alvöru viðvörun um að spara og hefðu gert fyrr.

Ég vil að lokum eindregið taka undir orð hæstv. viðskrh., þar sem hann benti á að sjálfsagt væri að kanna aðrar leiðir til þess að létta byrði fólks úti á landsbyggðinni sem þarf að notast við olíuhitun. Að sjálfsögðu ber okkur að gera það, og ég vona að okkur takist það eftir öðrum rökréttari og geðfelldari leiðum en þeim, sem stungið er upp á, að leggja 20% skatt á alla þá sem hitaveitu nota. Fyrir því hafa verið færð rök hér að það væri mjög hæpin og í mörgum tilfellum mjög ósanngjörn ráðstöfun.