03.03.1975
Efri deild: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2061 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

95. mál, vegalög

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég get strax lýst stuðningi mínum við brtt. þær sem samgn. flytur. Ég held þær séu allar til bóta, og ég ætla að stytta mál mitt með því að láta það nægja um þær.

Ég vil hins vegar fjalla aðeins um brtt. þá sem ég flyt ásamt tveimur öðrum hv. þm., þar sem gert er ráð fyrir því að auka þann hluta af svonefndu þéttbýlisfé, sem ekki yrði ráðstafað skv. höfðatölu, úr 25% eins og ráð er fyrir gert í frv., í 35%. Ég harma það, að deilur um þennan hundraðshluta hafa orðið, að því að mér virðist, að einhverju leyti deilur á milli Reykjavíkur og mesta þéttbýlisins og dreifbýlisins. Ég held að hér sé um sameiginlegt hagsmunamál allra að ræða og verði að skoðast sem slíkt. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að höfðatölureglan sé ákaflega vafasöm í flestu tillíti. Höfðatölureglan t. d. sýnir ekki hverjir eiga flestar bifreiðar og hverjir nota þessa vegi mest. T. d. held ég að margir reykvíkingar yrðu nokkuð þungir við ef þeim yrði bönnuð umferð gegnum þéttbýlisstaði, eins og kom fram hér hjá einum hv. þm. að komið hefði til greina. (Gripið fram í.) Nú, jæja, hvernig sem það er gert að stöðva slíka umferð. En ég held sem sagt að höfðatölureglan sýni alls ekki í raun og veru hverjir nota þessa vegi mest. Hún skýrir alls ekki t. d. ferðir reykvíkinga um landið hringveginn, sem stórlega hafa aukist og við allir fögnum. Ég hygg því, að það þurfi að líta á það sem sameiginlegt nauðsynjamál að flýta þessari gerð vega og beri því að ráðstafa meira af þessu í járnmagni út um landið en orðið hefur með hinni svonefndu höfðatölureglu. Hækkun úr 25 í 35% er ekki mjög stór upphæð. Þetta skiptir ekki nema nokkrum millj. kr. á ári að vísu, en þó tel ég það vera í áttina og ekki síst viðurkenningu á þessari sameiginlegu þörf okkar íslendinga allra.

Ég hef hins vegar hlustað á ýmsar ábendingar í sambandi við þessa brtt. og vil taka þær til athugunar. Fellst ég á það, sem annar flm. till. sagði hér áðan, að hún verði dregin til baka til 3. umr. Ég fellst t. d. á að það er eðlilegra að þessu fé sé ráðstafað af Alþ., en ekki af vegamálastjóra, og sýnist mér þá eðlilegast að því sé ráðstafað á vegáætlun. Í raun og veru vaknar sú spurning: Af hverju á að vera að taka frá einhver prósent og ráðstafa eftir höfðatölu. Það er líka tekið úr höndum Alþ. Af hverju er þá ekki öllu ráðstafað á vegáætlun eftir þörfum? Það er vitanlega eina skynsamlega leiðin. En ég bara óttast að þeir, sem halda að hér sé verið að ráðast á þéttbýlið og Reykjavík o. s. frv., rísi öndverðir gegn slíku, en vitanlega er þetta eitt skynsamlegt. Það á ekki að vera sjálfkrafa regla eftir höfðatölu. Það á að vera eftir þörfum landsins í heild, og því væri, eins og ég segi, langsamlega skynsamlegast að öllu þessu fjármagni væri ráðstafað á vegáætlun og þá metið af fjvn, eins og verið hefur við gerð vegáætlunar, hver hundraðshlutinn á að vera til einstakra landshluta.

Það knýr einnig á í þessu sambandi, að meginatvinnuvegur landsmanna, sjávarútvegurinn, er víðast hvar með fiskvinnslustöðvar sínar við þú vegi sem hér um ræðir, þessa þéttbýlisvegi, og sú krafa er nú gerð til þess atvinnuvegar, að umhverfið sé rykbundið. Það eru hollustuhættir sem svo eru nefndir. Þarna er einnig sameiginlegt þjóðhagsmunamál okkar íslendinga, en ekki aðeins íbúanna sem þarna leggja sinn drjúga skerf í þjóðarbúið. Mér sýnist því allt benda til þess, að sem mestu af þessu fjármagni eigi að ráðstafa af Alþ. eftir mati á hinum ýmsu þörfum þjóðfélagsins í heild.

Ég þarf svo ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta út af fyrir sig. Ég vil taka það fram að við drögum till. okkar til baka og erum fegnir hverjum ábendingum sem fram koma um skynsamlegri meðferð þessa fjármagns. En ég vil þó biðja hv. þm. að hugleiða það, hvort í raun og veru sé ekki ástæða til að endurskoða þetta allt saman með tilliti til þess, að fjármagninu verði í heild ráðstafað á vegáætlun, en engin föst regla ráði þar um.

Að lokum vil ég vekja athygli þm. á skýrslu, sem Framkvæmdastofnun ríkisins hefur gefið út um gatnagerð í þéttbýli og hefur verið dreift á borð þm. Þar kemur fram, að fyrir utan Reykjavík og Reykjaneskjördæmi er framkvæmdaþörfin áætluð 5 773 millj. kr., og þar er áætlað að það skorti um 3 000 millj. til þess að fullnægja þessari fjármagnsþörf. Hér er gert ráð fyrir að þessu verði fullnægt á 10 árum. Nú veit ég mætavel að þessi 10%, sem við viljum fá hér við bætt, gera ekki nema dropa þarna í hafið, en þó munar um allt. Hins vegar er ljóst að leita þarf fleiri leiða til þess að fjármagna þessar miklu framkvæmdir. Sumum kann að virðast, að hér sé boginn nokkuð hátt spenntur, að ætla að ljúka þessu á 10 árum. En því er til að svara, að þetta er í raun og veru ekki þessum sveitarfélögum að öllu leyti frjálst, auk þess sem fólkið eðlilega knýr á og vill losna við þann aur sem það víðast hvað veður upp að hnjám í minnstu rigningum. Þarna er einnig um kröfu sjávarútvegsins — hollustuháttakröfu — að ræða. Þetta er því ekki eingöngu málefni þessara byggðarlaga, á það vil ég leggja enn einu sinni áherslu. Þetta er málefni þjóðarinnar allrar og því eigum við að hafa þessa hundraðstölu sem hæsta.