20.11.1974
Efri deild: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

11. mál, launajöfnunarbætur

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. 4. landsk., Eggert G. Þorsteinsson, lagði áherslu á að með þessum lögum væri gengið þvert á gerða kjarasamninga. Rétt er það að með þessum lögum eru rofin ákvæði kjarasamninga er gerðir voru í febrúarmánuði s.l. Ég skil það mætavel að launþegasamtökin og fulltrúar þeirra mótmæli því þegar breytt er ákvæðum í kjarasamningum slíkum sem þeim, sem þá voru gerðir, eða almennt þegar gerðar eru breytingar af löggjafarvaldsins hálfu á slíkum kjarasamningum. Ég tel að æskilegast væri að unnt væri að komast hjá því og tel að slíkt sé algert neyðarúrræði, að slíkar breytingar séu gerðar af löggjafarvaldsins hálfu á gerðum kjarasamningum. Það vil ég undirstrika. Um leið og ég segi þetta vil ég halda því fram að ekki einum einasta hv. þm. í þessum sal eða á Alþingi Íslendinga eða einum einasta skynsömum foringja eða forvígismanni launþegasamtaka hlýtur að blandast hugur um að það var ógerlegt að framfylgja ákvæðum þeirra kjarasamninga sem gerðir voru í febrúarmánuði s.l. Ég held því fram að allir þessir aðilar viðurkenni með sjálfum sér og meira og minna út á við einnig að í algert óefni væri komið ef kjarasamningarnir hefðu verið framkvæmdir skv. bókstaf sínum. Það sér hver heilvita maður, að ekkert efnahagskerfi getur borið 77% hækkun kauptaxta frá ársbyrjun til ársloka. Með slíkri þróun hefði aðeins atvinnuleysi blasað við. Því er ég þeirrar skoðunar að bæði þessari hv. þd., á Alþ. og meðal aðila vinnumarkaðarins og launþegasamtakanna sé ríkur skilningur á því að nauðsyn var ráðstafana. Ég held því einnig fram að enginn gat búist við því að ráðstafanirnar kæmu minna við allan almenning í landinu heldur en þær ráðstafanir sem til er stofnað með þessum lögum.

Hv. 4. landsk. þm., Eggert G. Þorsteinsson, sem er að vísu genginn úr salnum nú, spurði í hverju væri mest gengið á móti launþegasamtökunum með þessari lagasetningu. Mér finnst hér skjóta nokkuð skökku við. Mér finnst það ekki vera mitt hlutverk, berandi ábyrgð á þessari lagasetningu, að tíunda það í hverju ákvæði hennar sé gengið mest á móti launþegasamtökunum. Ég hygg að það sé frekar á verksviði fulltrúa launþegasamtakanna að gera grein fyrir því. Ég býst við því samt sem áður, hreinskilningslega sagt, að launþegasamtökin í landinu og fulltrúar þeirra telji það atriði, sem hv. 4. landsk. þm. nefndi hér, að gengið væri á gerða kjarasamninga, skipta mestu máli þrátt fyrir það að þeir geri sér grein fyrir nauðsyn þess að það þurfti að gera.

Hv. 7. landsk. þm., Helgi F. Seljan, sagði að þessi löggjöf væri yfirbót fyrir áður unnin spellvirki. Ég vil þá halda því fram að þeir, sem spellvirkin unnu, hafi verið flokksmenn þessa hv. þm., vegna þess að það er ekki verið að rjúfa tengslin milli verðlags og kaupgjalds, taka kaupgreiðsluvísitöluna úr sambandi fyrst með þessum lögum. Það var gert fyrst í tíð fyrrv. ríkisstj. Spellvirkin, ef nota á orðalag hv. þm., voru unnin í stjórnartíð flokksmanna hans.

Það er ástæða til að víkja nokkrum orðum að því er hann hélt fram um hækkanir á tryggingabótum. Með þessum l. er tekjutryggingarmark elli- og örorkulífeyristrygginga, þ.e. lágmarkstekjur, sem tryggðar eru með almennum lífeyri og uppbótarlífeyri til þeirra sem engar eða mjög litlar tekjur hafa auk lífeyris, hækkað jafnt og lægstu kauptaxtar eða um 10%. Almennar bætur lífeyristrygginga eru hins vegar hækkaðar um 6% eða líkt og ætlað er að launatekjur í heild hækki vegna launajöfnunarbóta. Ég tel að hv. þm. séu ekki að gagnrýna það að lágmarkstekjutryggingin hafi verið hækkuð um 10% og bætur til þeirra, er hennar njóta, hækkuð um þá upphæð, heldur sé hann að finna að því að almennar bætur lífeyristrygginga hafi ekki verið hækkaðar um meira en 6%. Með þessum hætti eru bætur til þeirra lífeyrisþega, sem lakast eru settir, hækkaðar jafnt og laun þeirra, sem lægst laun hafa. En tekjutryggingarmörk hjóna t.d. liggja nú nærri kauptöxtum verkamanna. Almennur lífeyrir hins vegar, sem greiddur er án tillits til annarra tekna bótaþega, hækkar, eins og ég nefndi áðan, líkt og meðallaun af völdum launajöfnunarbóta. Þó er sá munur á að allir bótaþegar njóta þessarar hækkunar, en stór hluti launþega, þ.e. þeir sem hafa hærri laun en 53 500 kr. á mánuði, fær eðli málsins skv. engar jöfnunarbætur.

Ég efast um að hv. þm. telji það eðlilegt að þeir lífeyrisþegar elli- og örorkulífeyris, sem hafa t.d. ellilífeyri úr verðtryggðum lífeyrissjóðum, eins og opinberir starfsmenn hafa, eða aðrar tekjur sem tryggja afkomu þeirra, fái jafnmikla hækkun á tryggingabótum og þeir sem hafa ekki við neitt annað að styðjast en elli- og örorkulífeyri. Í þeim tilvikum voru bætur hækkaðar um 10% eða eins og hæst gerist varðandi launþega almennt í landinu. Tilgangur þessara ráðstafana er auðvitað að nýta sem best það fjármagn, sem varið er til tryggingabóta, með hagsmuni þeirra, sem lakast eru settir, fyrst og fremst í huga. Ég vil aðeins láta það koma hér fram að hjón fá í ellilífeyri 448 740 kr. á ári eða sem svarar 37 395 kr. á mánuði. Til viðbótar, án þess að þessar bætur verði skertar, geta hjón haft í tekjur 74 340 kr. á ári, þannig að mörk elli- og örorkulífeyris, tekjutryggingaruppbótar og annarra tekna án skerðingar uppbóta eru 523 000 kr. á ári.

Hv. 1. landsk. þm. Jón Árm. Héðinsson, spurði hvort búvöruverð mundi haldast óbreytt gildistíma þessara laga. Þeirri fsp. vil ég svara þannig, að kaup bóndans í búvöruverði mun haldast óbreytt gildistíma þessara laga. Að öðru leyti fer um verðlagningu búvöru eins og lög gera ráð fyrir og hv. 6. þm. Norðurl. e. gerði grein fyrir í ræðu sinni áðan. Því eru ekki efni til þess af minni hálfu að lýsa yfir einu eða neinu umfram það sem ég þegar hef gert um þróun búvöruverðs á gildistíma laganna.

Þá spurði hv. þm. um hvort ekki væru uppi áform um endurskoðun vísitölukerfisins. Þeirri spurningu svara ég játandi, bæði með tilvísun til stefnuyfirlýsingar ríkisstj., stefnuræðu minnar og þeirra orða er ég flutti hér áðan í þessum umr. Hafnar eru viðræður við þau hagsmunasamtök, sem aðild eiga að, bæði möguleika á því að endurskoða vísitölukerfið, kaupgreiðsluvísitölukerfið, og hins vegar um það með hvaða hætti verðlagningu búvöru verði háttað. Það er nauðsynlegt að sú sjálfvirkni og hin skjóta sjálfvirkni, sem þarna er um að ræða, sé tekin úr sambandi þannig að stjórnvöld geti haft meiri og betri tök á stjórn efnahagsmála en verið hefur nú um langt skeið. Ég tel að skilningur á þessu sé til staðar hjá fulltrúum hagsmunasamtakanna þótt ég vilji að engu leyti fullyrða hvaða niðurstaða fæst af slíkri endurskoðun. Á það vil ég leggja áherslu að einmitt gildistími þessara laga er nauðsynlegur til þess að eitthvert ráðrúm skapist til þess að endurskoða það kerfi sem svo illa hefur reynst að þessu leyti efnahagsþróun okkar íslendinga. Ég hygg að sameiginlegir hagsmunir allrar þjóðarinnar séu í veði og ekki síst hagsmunir hinna lakar settu og launþeganna í landinu að ráðrúm gefist til slíkrar endurskoðunar svo að tryggja megi kjör þeirra betur í framtíðinni heldur en reynslan hefur sýnt að hið sjálfvirka vísitölukerfi hafi gert, en það hefur reynst næsta gagnslaust í þeim efnum.

Herra forseti.Ég held ekki að það hafi verið um að ræða fleiri spurningar, sem til mín hefur verið beint. (Gripið fram í.) Verðbólgan 15%. (Gripið fram í.) Þessari fsp. hv. þm. vil ég svara á þá leið: Ef Íslendingar hafa þá biðlund sem ráð er fyrir gert með þessari lagasetningu og tilgangi þessara laga verður þannig náð, þá tel ég það ekki of mikla bjartsýni að við getum náð okkur niður á það stig að verðbólguvöxturinn í lok næsta árs verði miðað við heilt ár, ekki meiri en 15%. Ég segi þetta með þeim fyrirvara að til þess að svo megi verða er nauðsyn skilnings hjá öllum stéttum þjóðfélagsins og þjóðinni í heild að sjálfsögðu.

Herra forseti. Ég vil þá aðeins draga saman í fjórum atriðum helstu gagnrýnisatriði sem hér hafa verið fram færð.

Það er í fyrsta lagi sagt að með efnahagsráðstöfunum núverandi ríkisstj. hafi verið færðir fjármunir til atvinnuveganna og fyrirtækjanna í landinu frá launþegunum, með gengisbreytingunni sérstaklega. Í þessu sambandi víl ég aðeins taka það fram að afkoma fyrirtækjanna og atvinnuveganna var slík að það var nauðsynlegt að breyta gengisskráningunni og horfast í augu við staðreyndir. Atvinnufyrirtækin voru ekki þess megnug að greiða óbreytt kaupgjald, hvað þá heldur hærra kaupgjald, nema þau fengju fleiri krónur fyrir þann gjaldeyri sem þau fengu fyrir framleiðslu sína. Þetta viðurkenndu allir stjórnmálaflokkar sem eiga fulltrúa í þessari deild. Í stjórnarmyndunarviðræðum á s.l. sumri voru allir flokkar, sem eiga fulltrúa í þessari hv. d., búnir að fallast á að það væri nauðsynlegt að lækka gengið um a.m.k. 15%.

Í öðru lagi hefur verið að því fundið að rofin væru tengsl milli verðlags og kaupgjalds og kaupgreiðsluvísitalan tekin úr sambandi. Ég hef áður minnst á það að þetta var gert fyrst í tíð fyrrv. ríkisstj., en ítreka það einnig að í stjórnarmyndunarviðræðunum í sumar voru allir flokkar, sem fulltrúa eiga í þessari deild, búnir að viðurkenna nauðsyn þess að taka kaupgreiðsluvísitöluna úr sambandi og þar með voru allir flokkar, sem fulltrúa eiga í þessari deild, búnir að viðurkenna það neyðarúrræði að ganga að þessu leyti á kjarasamninga eða breyta þeim.

Í þriðja lagi vil ég, þar sem talað er um að launajöfnunarbæturnar séu í lægsta lagi, taka fram, að þær eru þó hærri, — og það geri ég af sérstöku tilefni frá hv. 6, landsk, þm., — að þær eru þó hærri en fulltrúar hans eigin flokks gerðu kröfu um í stjórnarmyndunarviðræðum á s.l. sumri. Ég tel að þær séu ekki of háar og vildi svo sannarlega að unnt hefði verið að ákveða þær hærri. En að yfirveguðu mati var talið að hér væri jafnvel teflt á tæpasta vað að því er snertir afkomu atvinnuveganna svo og hvað ríkissjóður gæti borið að þessu leyti.

Í fjórða lagi vil ég leggja áherslu á það að þegar rætt var um gengisbreytingu eða um að taka kaupgreiðsluvísitöluna úr sambandi eða um upphæð launajöfnunarbóta í stjórnarmyndunarviðræðunum í sumar var öllum stjórnmálaflokkunum ljóst að fyrir dyrum stóðu miklar verðhækkanir, og áætlanir þar um hafa lítið breyst við þróun mála síðan, þannig að verðhækkunarþróunin, sem fyrir höndum var þá og er orðin sumpart að veruleika nú, mátti vera öllum mönnum ljós.

Þetta vildi ég að fram kæmi svo að þessar umr. væru á örlítið raunsærri grundvelli en sumir hv. þm. stuðluðu að með orðum sínum hér áðan.