03.03.1975
Efri deild: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

95. mál, vegalög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki vera langorður um þetta mál. Því miður er ég ekki með við höndina bréf sem mér hefur borist fyrir nokkru frá borgarverkfræðingi í Rvík, þar sem hann varar við þeirri skerðingu á framkvæmdafé, sem rennur til Reykjavíkurborgar til viðhalds og nýbyggingar á þjóðvegum í þéttbýli. Á ég þá við þær brautir sem eru innan marka Reykjavíkurborgar og njóta styrks — skulum við kalla þetta — úr þessum sameiginlega sjóði. Ég vil aðeins undirstrika það enn þá einu sinni að þetta íslenska skattríki þjóðarinnar, Reykjavíkurborg, kemur til með að verða af tekjum sem minnka úr 100 millj. rúmum, eftir útreikningum borgarverkfræðings sem hafði þá ekki séð till. Steingríms Hermannssonar, en hann reiknaði þá með að tekjumissir Reykjavíkurborgar yrði um 20 millj. Ef till. Steingríms Hermannssonar um 35% frádrátt verður samþykkt, færi framlag til Reykjavíkurborgar úr þessum sameiginlega sjóði, miðað við höfðatölu, niður í 72 millj. úr rúmum 100 millj. Ég vil enn benda á Reykjavík. Hún er enn þá á þessu sviði sem öðrum skattpínd af þjóðinni.