03.03.1975
Neðri deild: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég átti þess ekki kost, þegar 2. umr. um þetta frv. hófst í þessari hv. þd., að vera við þær umr. vegna þess að ég var bundinn við umr. um frv. í Ed. um ráðstafanir í sjávarútvegi og talsmenn stjórnarandstöðunnar þar í d. töldu ekki fært að sjútvrh. víki frá þeim umr., en ég hef ekki komist lengra en það, að ég hef ekki getað skipt mér í tvo hluta, svo að ég valdi á milli og lét ráðstafanir í sjávarútvegi ganga fyrir. Hér munu hafa talað nokkrir þm. í þessari hv. þd. og sérstaklega látið í ljós andstöðu við þetta frv., að undanskildum form. sjútvn. d., sem mælti ákveðið með því ásamt 4 öðrum nm., eða 5 nm. af 7, með tiltekinni breyt., sem ég fyrir mitt leyti get mjög vel fellt mig við og tel vera mjög til bóta.

Þessi mál hafa verið mjög til umr., ekki svo mjög á Alþ., heldur öllu meira í blöðum og öðrum fjölmiðlum, og hafa verið mjög kærkomið fréttaefni um nokkurra mánaða skeið. Þar hafa komið fram fjölmargir aðilar, sem hafa skrifað bæði með og móti að taka upp slíka samræmingu eins og lagt er til með þessu frv.

Ég hygg að mér sé óhætt að segja, að þeir vinnslustaðir eða þau kauptún við Húnaflóa, þar sem vinnsla á rækju hefur átt sér stað, séu einróma með því að þetta frv. verði lögfest. En hins vegar hefur gætt andstöðu frá Blönduósi og sérstaklega frá aðstandendum þess félags sem Særún heitir, og þar hafa gengið fram fyrir skjöldu aðallega tveir lögfræðingar, búsettir hér í Reykjavík, sem, að því er þeir segja sjálfir, hafa fengið mikinn áhuga á því að styrkja og efla atvinnulíf úti á landsbyggðinni. Það út af fyrir sig er mjög góðra gjalda vert. Hins vegar hefur það komið mjög fram hjá þessum mönnum, að þeir telja sig hafa fremur lítilla hagsmuna að gæta og séu tiltölulega litlir hluthafar í þessu fyrirtæki. Ég ætla ekki að leiða inn í þessar umr. hversu stór hlutdeild þessara athafnamanna er í þessu fyrirtæki, en við erum nú með til meðferðar málmblendiverksmiðjuna og þar er Union Carbide minni hl. hluthafa, eins og þeir lögfræðingarnir tveir sem ég nefndi áðan, en ég hygg að eitt eigi þeir sameiginlegt, Union Carbide og þeir, að þeir vilja hafa söluumboð báðir fyrir framleiðslu þessara tveggja verksmiðja. Ég hygg að það ráði langmestu um afstöðu Union Carbide til málmblendiverksmiðjunnar hér á Íslandi. Og það væri ekki fjarstæðukennt að láta sér detta í hug, þó að ég dragi ekki í efa hinn mikla áhuga þessara ágætu manna á málefnum landsbyggðarinnar, að þá komi nokkuð til með að ráða sú afstaða þeirra að fá að selja framleiðsluvöru umræddrar verksmiðju.

Nokkrum hv. alþm. hefur orðið á nokkuð í messunni í sambandi við málflutning í þessu máli, að blanda saman almennri skipulagningu eða takmörkun á vinnslu þess sjávarafla, sem ekki er háður neinum takmörkunum eða veiðiheimildum og vinnslu á sjávarafla eins og þessum, sem er háður mjög ströngum ákvörðunum sem lög um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni gera ráð fyrir. Segir í þessum l. um rækjuveiðar: „Ráðherra getur veitt undanþágu til þess að stunda rækjuveiðar á tilteknum svæðum. Skal binda leyfin þeim skilyrðum sem nauðsynleg þykja. Einnig er heimilt að miða leyfisveitingar við ákveðnar stærðir báta.“ Á þessu er auðvitað reginmunur, hvort löggjafinn er að ganga inn á það svið að takmarka tölu hraðfrystihúsa og annarra fiskverkunarstöðva í landinu, sem taka við afla sem hver og einn má veiða hvar sem er á Íslandsmiðum, eða reyna að hafa einhvern skynsamlegan hemil á veiðum sem eru háðar svo ströngum takmörkunum sem þessar tvær greinar sjávarafla, rækjaveiðar og hörpudisksveiðar. Þessar veiðar hafa frá fyrstu tíð verið háðar leyfi sjútvrn. og eru enn lögum skv. Jafnframt setur sjútvrn. tiltekin skilyrði og þessum skilyrðum hefur ekki verið breytt á einn eða annan hátt, að öðru leyti en einu sem ég skal koma inn á hér á eftir.

Þessi veiðileyfi öll eru bundin við ákveðin svæði og við báta frá ákveðnum svæðum, þannig, að veiðileyfi til báta, sem veiða á Arnarfirði, eru aðeins veitt bátum, sem eiga heima við þann fjörð. En þó að bátur frá næsta firði, Tálknafirði, sæki um veiðileyfi, þá hefur hann ekki fengið það frá því að ákvæðið um þessi veiðileyfi voru sett. Sama er að segja um Ísafjarðardjúp. Veiðarnar þar eru háðar því að bátar og þeir menn, sem veiðileyfi fá, séu búsettir við Ísafjarðardjúp, ef þeir eiga heima á Súgandafirði, aðeins sunnan við Djúpið, hefur þeim verið synjað afdráttarlaust um þessi leyfi. Sama hefur gilt um Húnaflóa hvað þetta varðar. Á þessu hefur engin breyt. verið gerð frá því að þessar veiðiheimildir og veiðitakmarkanir voru settar, og ég hygg að 4 sjútvrh hafi farið með mál á þennan hátt.

Þá kem ég að því, sem var að gerast við Húnaflóa á s.l. hausti og s.l. vetri. Þar hefur þróun mála orðið sú, að fyrst byrjar rækjuvinnsla á Hólmavík og þar með fá hólmvíkingar og síðar drangsesingar eða íbúar Kaldrananeshrepps alla veiði við Húnaflóa, að undanskildu því að einn bátur var einnig gerður út á rækjuveiðar frá Ingólfsfirði í Arneshreppi, nyrsta byggða hreppi á landinu, og síðar, eftir að hann hætti veiðum, annar bátur sem þá fékk veiðileyfi og gerður hefur verið út fá Djúpuvík í sama hreppi. Sá bátur hefur fengið þessi veiðileyfi æ síðan. Þar var um nokkurra ára skeið vinnsla rækjuafla með þeim hætti, sem þá var víðast hvar að leggjast niður, að rækjan var handpilluð á ýmsum stöðum í hreppnum. Það samrýmdist ekki heilbrigðiseftirliti og þess vegna var þessi vinnsla bönnuð á þeim tíma og sömuleiðis var handpillun almennt hætt með tilkomu rækjupillingarvélanna, en íbúar þessa hrepps hafa haft í huga að kaupa vél til vélflettingar á rækju. Ég verð að segja það, að þó að ég sé þm. fyrir þetta byggðarlag, þá leist mér engan veginn á þá miklu framkvæmd, sem þetta fámenna hreppsfélag ætlaði út í. Forustumenn þessa máls breyttu þeirri afstöðu með því að kaupa litla rækjupillingarvél og setja þar upp rækjuvinnslu sem er í samræmi við afkastagetu þessarar litlu byggðar. Á það lít ég allt öðrum augum. Þeir hafa átt þennan rétt allt frá því að veiðar hófust við Húnaflóa.

Litlu eftir að ég kom í sjútvrn. komu fulltrúar frá stöðum, þar sem rækjuvinnsla hefur verið stunduð, og báru fram mjög ákveðnar kröfur og óskir um að ekki yrði fjölgað rækjuvinnslustöðvum við Húnaflóa, því að það mundi draga mjög úr vinnslu annars staðar og stytta verulega veiðitímabilið og þá um leið vinnslutíma verksmiðjanna og vinnu fólksins sem vann við þessa atvinnugrein á undanförnum árum. Þessir aðilar höfðu komið sér saman um skiptingu á þeim afla, sem um var að ræða, og lögðu eindregið til við sjútvrn. að þessi skipting yrði látin gilda. Til þess að gefa hv. þd. sem gleggstar upplýsingar ætla ég að lesa upp þetta samkomulag, sem dags. er 5. sept. og staðsett í Staðarskála. Þar segir:

Á sameiginlegum fundi forráðamanna rækjuverksmiðja og útgerðarmanna á Drangsnesi, Hólmavík, Hvammstanga og Skagaströnd var samkomulag um eftirfarandi varðandi rækjuveiðar á komandi vetri í Húnaflóa:

1. Skipting á leyfum rækjuafla verði þannig: Hólmavík og Drangsnes 50%, Skagaströnd og Hvammstangi 50%. Samkomulag þetta er byggt á þeirri forsendu og í trausti þess að ekki komi upp rækjuverksmiðja á Blönduósi.

2. Fram kom á fundinum að líklegur bátafjöldi á næstu vertíð verði þannig: Hólmavík og Drangsnes 13 bátar, Djúpavík 1 bátur, Hvammstangi og Skagaströnd 12 bátar. Þar sem ekki eru líkur á að leyfð verði meiri veiði en á síðustu vertíð telur fundurinn varhugavert að gefa út veiðileyfi til fleiri báta á komandi vertíð þar sem það mundi skerða mjög rekstrargrundvöll þeirra báta sem fyrir eru.

3. Það eru eindregin tilmæli fundarins að rn. framfylgi ítarlega settum reglum um raunverulega búsetu og önnur skilyrði hjá þeim aðilum sem um rækjuveiði sækja hverju sinni.“

N. frá þessum aðilum kom til fundar í sjútvrn. til þess að framfylgja þessari samþykkt sinni og þessari kröfu. Jafnhliða bárust bréf frá þessum sveitarfélögum, símskeyti og áskoranir, þar sem lýst var áhyggjum manna að fjölga verksmiðjum við Húnaflóann og jafnframt að fjölga veiðileyfum til bátanna. Fyrir mér vakti að takmarka ekki fyrirvaralaust bátafjöldann, sem um þessar veiðar sótti, vegna þess að menn voru bæði á þessu svæði og öðrum búnir að festa kaup á bátum í trausti þess að leyfi fengjust, og þegar komið var að því að átti að fara að gefa út leyfin, eða svo að segja, þá taldi ég mér ekki fært fyrirvaralaust að segja við þá aðila alla, sem hér áttu hlut að máli, að ég mundi ekki fjölga veiðileyfum á þessum stöðum öllum og mig varðaði ekkert um það, þótt bátar hafi verið keyptir í þessu augnamiði og þeir sætu þess vegna uppi. Hitt er svo annað mál — og það hef ég hug á að gera nú innan skamms — að vara menn alvarlega við því að kaupa báta til þess að stunda rækjuveiðar á öllum þessum tilteknu svæðum vegna þess að aflinn hefur farið minnkandi, svo að það horfir mjög geigvænlega fyrir þessari atvinnugrein, útgerð þeirra báta, sem hér eiga hlut að máli, og þar með vinnslunni. Einnig bætist við, sem maður vonar að verði stundarfyrirbrigði, en það er verðfallið sem hefur orðið á þessum afurðum nú á þessu ári og er enn þá, samhliða því að innflutningstollar til þess lands, sem rækjan er aðallega seld til, fara stórhækkandi á meðan bókun nr. 6 kemur ekki til framkvæmda við Efnahagsbandalagið. Þessir tollar hafa hækkað úr 4% í 8%, úr 8% í 12% á þessu ári. Ef ekkert samkomulag verður þá hækka þessir tollar upp í 16% og á þar næsta ári upp í 20%. Samhliða því að þessir innflutningstollar hækka svona gífurlega, þá held ég að það sé ekkert glæsilegt fram undan í þessari atvinnugrein, þegar við bætist að Hafrannsóknastofnunin, sem er ráðunautur sjútvrn. í þessum efnum og gerir till. um hvað mikið skal veiða á hverjum stað eða hverju svæði á hverri vertíð fyrir sig, hefur dregið úr þessu veiðimagni nú ár frá ári. Til þess að skýra fyrir hv. þm. hvað gerst hefur t. d. á Húnaflóasvæðinu, sem enn þá er þó skárra en Arnarfjarðarsvæðið og Ísafjarðardjúpið vegna þess að þar er búið að veiða of mikið um lengri tíma og á allt of marga báta, þá leyfði Hafrannsóknastofnunin á síðustu vertíð samtals að veiða 2 300 tonn á Húnaflóa, en í fyrstu till. hennar til rn. í haust leyfir hún 1 500 tonn og hækkar svo það magn úr 1 500 tonnum um 300 tonn eða samtals 1 8110 tonn. Á sama tíma og veiðar dragast saman um 500 tonn er talað um að í fjölga bátum og fjölga vinnslustöðvum til þess að vinna úr þessum afla.

Sumir menn segja, að þetta sé skerðing á frelsi, og þeir sem eru frjálsræðismenn miklir, það er að sumu leyti skiljanlegt að þeir telji að aldrei eigi að skerða frelsi einstaklingsins til athafna og aðgerða. En á sama tíma verða þessir frjálsræðispostular að viðurkenna að það verður að setja hömlur á veiðar og þar með er sett skerðing á frelsi einstaklingsins um að veiða tiltekinn afla. Það hefur verið í gildi og er enn sú skerðing á frelsi einstaklingsins að hann verður að vera bundinn við ákveðin skilyrði, m. a. búsettur við ákveðin svæði, til þess að fá að veiða þessar afurðir. Ég hef heyrt í reykvíkingum, sem eiga nokkra litla báta og eftir að Faxaflóa var lokað, segja: Hvers vegna megum við ekki veiða rækju á Húnaflóa, við Ísafjarðardjúp eða á Arnarfirði? Af hverju er okkur bannað það? Hvers vegna eru settir þessir átthagafjötrar á menn?

Um þetta eru engar deilur. Þessi ákvæði hafa farið í gegnum þessa hv. d. og hv. Ed. og ég hef ekki heyrt einn einasta frjálsræðismann kvarta undan því. En svo þegar á að koma á einhverju skipulagi á milli veiða og vinnslu með vaxandi áhyggjum manna af því að þessar veiðar séu að draga saman seglin, þá koma hér sumir og hafa mjög hátt, ekki eingöngu þeir sem eru kenndir við frjálst einkaframtak, heldur menn sem hafa verið að láta menn draga þá ályktum, að þeir væru sósíalistar, og hafa haldið sér innan sósíalistískra flokka og það í alllangan tíma. Hugsjónamennirnir, lögfræðingarnir, hafa gert t. d. slíkan mann að miklu átrúnaðargoði og talið hann vera einn mesta boðbera frelsis og réttlætis sem til er. Ég óska þessum ágæta manni, einkaframtaksmanni sem er í sósíalistískum flokki, hjartanlega til hamingju með þessa afstöðu þessara ágætu lögfræðinga og þeim líka með hans afstöðu, svo að þar getur hver étið sitt.

En við skulum líta á hvernig ástandið í þessum efnum var og er og hvernig þessi byggðarlög lýsa sjálf ástandinu. Hvammstangahreppur segir í bréfi 16. sept., með leyfi hæstv. forseta: „Vegna fyrirhugaðrar uppsetningar á rækjuvinnslustöð á Blönduósi vill hreppsnefnd Hvammstangahrepps benda á eftirfarandi:

Á komandi rækjuvertíð er Hafrannsóknastofnunin búin að gefa heimild til veiða 1 500 tonn af rækju á Húnaflóasvæðinu“ — hún var síðar hækkuð eins og ég sagði áðan um 300 tonn.“ — Samanlögð afkastageta þeirra verksmiðja, sem á svæðinu eru, er líklega um þrisvar sinnum meiri en leyfður hámarksafli. Augljóst er því að nýting vinnslustöðvanna er í, algjöru lágmarki og því enginn grundvöllur til að skipta aflanum á enn fleiri staði. Væri hins vegar síðar möguleiki á að auka leyfðan hámarksafla væri eðlilegast að beina þeirri aukningu til þeirra vinnslustöðva sem þegar eru fyrir hendi og nú eru ekki nýttar nema að takmörkuðu leyti.

Með tilkomu rækjuvinnslunnar á Hvammstanga hefur atvinnuástand hér batnað til muna. Atvinna var hér ónóg og stopul yfir vetrarmánuðina og tekjur fólks lágar. Nú hefur þetta lagast og fólk sér fram á miklu betri afkomumöguleika en áður og tekjurnar eru orðnar sambærilegri við það sem annars staðar gerist. Fólk er bjartsýnt á framtíðina og hefur meiri áhuga á að setjast hér að en áður var. Þessa breytingu þökkum við hvað mest rækjuveiðunum og rækjuvinnslunni, sem við höfum bundið vonir við að yrði viðvarandi þáttur í atvinnulífi staðarins og reynt að byggja hana upp sem slíka. Verði rýrður rekstrarmöguleiki rækjuvinnslunnar og bátanna, sem rækjuveiðarnar stunda, og þar með afkomumöguleiki þess fólks, sem unnið hefur að þessari atvinnugrein, með því að deila aflanum niður á enn fleiri staði en nú er óttumst við að allt sæki í sama horf og áður með atvinnuástand á staðnum.

Hins vegar skal bent á að á Blönduósi hefur um árabil verið mun betra atvinnuástand en hér. Atvinnurekendur þar hafa gefið yfirlýsingar um að þar hafi verið tilfinnanlegur vinnuaflsskortur á s.l. vetri. Þar eru í byggingu iðngarðar yfir smærri iðnfyrirtæki sem þar hafa risið upp, en blöndósingar hafa verið ötulir við að koma upp slíkum fyrirtækjum og er það vel. Það er ekki af slæmum hug til blöndósinga sem við vildum koma í veg fyrir að rækjuvinnsla verði sett upp þar, heldur óttumst við að grundvellinum verði kippt undan þeirri fjárfestingu sem búið er að leggja í rækjuvinnslustöðvar og báta og skiptir milljónatugum eða hundruðum á þeim 4 stöðum við Flóann, þar sem rækja er unnin í dag, og líka því fjármagni sem búið er að leggja í margs konar iðnfyrirtæki á Blönduósi.

Það, sem við leggjum til að gert verði, er að gefin verði út reglugerð eða lög sem gefi sjútvrh. eða sjútvrn. í samráði við Hafrannsóknastofnunina heimild til að takmarka fjölda rækjuvinnslustöðva á afmörkuðum svæðum eða á landinu í heild. Með því væri auðvelt að koma í veg fyrir hluti eins og nú eiga sér stað á Blönduósi, að fjársterkir aðilar úr Reykjavík geti flutt vélar og tæki til rækjuvinnslu, sett niður í leiguhúsnæði með lágmarkstilkostnaði, unnið aflann meðan hagnaður er, en síðan flutt burtu auðveldlega alla aðstöðu ef eitthvað ber út af með rekstrargrundvöll. Við aðstæður eins og hér eru við Húnaflóann eyðileggur það möguleika heimaaðila, sem búið hafa sig undir að stunda þessa atvinnugrein til langframa, á að halda þeim atvinnurekstri áfram.

Þá viljum við ítreka það að fast verði fylgt eftir ákvæðunum um búsetu skipstjórnarmanna og í öðrum atriðum í sambandi við leyfi til að stunda rækjuveiðarnar og að ekki verði hægt að fara á bak við þær reglur með gervibúsetu, heldur verði hver slík leyfisumsókn athuguð gaumgæfilega.“

„Sameiginlegur fundur Sjómanna- og verkalýðsfélags Skagastrandar Rækjuvinnslunnar hf. og hreppsnefndar Höfðahrepps, sem haldinn var 27. sept. 1974, mótmælir eindregið að grundvelli stórs hluta atvinnulífs staðarins verði kollvarpað með útgáfu leyfa til handa bátum sem leggja yrðu upp rækjuafla á Blönduósi. Með útgáfu slíkra leyfa skerðist hlutur þeirra staða, er stundað hafa rækjuveiðar í Húnaflóa, verulega, en sumir þessara staða byggja tilveru sína að stærstum hluta á rækjuveiðum, og má telja að ekki sé lengur grundvöllur fyrir áframhaldandi veiðum, einkum þar sem nú hefur verið ákveðið að minnka leyfilegan rækjuafla í Húnaflóa, þar sem fiskifræðingar telja nauðsynlegt að hlífa rækjustofninum næstu árin og aukin sókn sé mjög skaðleg áframhaldandi veiðum og þá um leið afkomu margra byggðarlaga.“

Hreppsnefnd Höfðahrepps sendi einnig áskorun, bæði í bréfum og skeytum, sem mjög fer saman við þetta álit hins sameiginlega fundar.

Kaldrananeshreppur sendi líka frá sér kveðju á þessum tíma, 13. sept. Þar segir m. a.: „Lífsafkoma fólksins í kauptúnum við Steingrímsfjörð er að langmestu leyti háð rækjuveiðum og rækjuvinnslu. Sterkar líkur benda til að rækjustofninn við Húnaflóa beri ekki öllu meiri veiðiflota og rækjuvinnslustöðvar en nú eru þegar fyrir hendi, til þess að rekstrarafkoma megi teljast örugg og afkoma kauptúnanna þar með. Því er það álit sveitarstjórnar Kaldrananeshrepps að stjórnvöldum landsins beri að hafa vakandi auga með þessum byggðamálum við Húnaflóann og Steingrímsfjörðinn og beita öllum tiltækum ráðum til að vernda og varðveita þann lífsafkomugrundvöll er að framan getur, og þá fyrst og fremst með því að gera viðeigandi ráðstafanir til varnar því að rækjuvertíð Steingrímsfjarðarbáta og tilheyrandi rækjuvinnsla við Steingrímsfjörð dragist saman eða spanni skemmra tímabil en verið hefur, þ. e. 5–6 mánuði á ári. Yrði hins vegar um verulega röskun á margnefndum atvinnuvegi að ræða, á meðan Drangsnes og Hólmavík hafa ekki komið sér betur fyrir í atvinnumálum en raun ber vitni, mundi það hafa í för með sér hættuástand í atvinnu- og byggðamálum téðra kauptúna. En þetta er svo augljóst og óumdeilanlegt, að sveitarstjórn Kaldrananeshrepps treystir því og trúir að málsvarar byggðarinnar á Alþ. og í stjórnarráði geri þær ráðstafanir er dugi til að tryggja framhald þeirrar jákvæðu byggðaþróunar sem nú er rétt í þann veginn að halda innreið sína í Steingrímsfjörðinn, eftir langvarandi hnignun og afturför, jafnframt því að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu annarra byggðarlaga við Húnaflóa þótt lengra séu á veg komin í atvinnuuppbyggingu.“

Þetta bréf var sent til mín og allra annarra þm. Vestfjarðakjördæmis. Sama má segja um umsagnir hólmvíkinga. Þær eru nákvæmlega á sömu lund og þetta bréf sem ég var að lesa.

Frá Blönduósi barst svo aftur bréf frá hreppsnefndinni, þar sem skorað er á ríkisstj. Íslands að veita nú þegar bátum frá Blönduósi rækjuveiðileyfi. 4 bátum er nú veitt rækjuveiðileyfi, en 3 bátum skrásettum á Blönduósi, sem ætla að leggja þar upp, hefur enn ekki verið veitt leyfi þótt þeir uppfylli öll skilyrði. Á Blönduósi er allt tilbúið til rækjumóttöku, búið að ráða fólk og leggja millj. í undirbúning. Hreppsnefndin skorar því á ríkisstj. að mismuna ekki íbúum við Húnaflóa á þennan hátt og veita bátum frá Blönduósi nú þegar umbeðið veiðileyfi.“

Þannig voru sjónarmiðin í haust, þannig var litið á málin og illt að skera þarna úr. Samkomulag var ekki hægt að fá, Það var svo einörð og ákveðin afstaða gegn rækjuvinnslu á Blönduósi af þeirri ástæðu að aflinn fór minnkandi, og það sem meira var um vert, að með minnkandi afla minnkaði einnig vinnslan og vinnslutímabilið dregst verulega saman og aftur er hætta á að atvinnuleysi eigi sér stað í víðtækara mæli en verið hefur á þessum stöðum á undanförnum árum. Fleiri rækjuvinnslustöðvar leysa ekki vandræði þeirra sem ekki hafa rækjuvinnslu nú. Áfram verðum kannske haldið ef engar hömlur eru settar og næsta haust geta einhverjir farið af stað og viljað fá rækjuvinnslu á Borðeyri. Það er líka til staður í Óspakseyrarhreppi sem heitir Óspakseyri, og gæti einhver hugsjónamaður komið sem vildi leggja strjálbýlinu lið, ætti leigðar vélar, vildi koma þar upp rækjuvinnslu og nyti stuðnings frjálsræðispostulanna, og þá gætu vandamálin haldið áfram að aukast. Það væri ekkert óhugsanlegt að það fengist pláss á Skagaströnd fyrir aðra verksmiðju. Það gæti líka hugsast að þriðja verksmiðjan yrði byggð á Bíldudal og ein enn við Ísafjarðardjúp, og allt yrði þetta gert í nafni frjálsræðis.

Ég tel mig ekki sósíalista, alls ekki. Ég tel mig vera málsvara einkaframtaks. En ég er einnig félagshyggjumaður. Ég tel að frelsið eigi ekki að vera til allra hluta. Ef þarf að setja á takmarkanir, þá verður að gera það. Annað er helber vitleysa, annað er að halda sér í einhverjar gamlar kennisetningar. Það er alveg eins og ef sósíalistískur flokkur kemst í stjórn, þá megi hann alls ekki heyra það að nokkur einstaklingur fari með nokkurn atvinnurekstur, heldur verði að leggja hann niður á stundinni og ríkið yfirtaki allan slíkan rekstur. Þetta eru kennisetningar, sem sumir hafa ekki enn þá komist yfir.

Það var skýrt í þessum umr. m. a. frá tveimur álitum. Annað álitið er frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og hún mælir gegn því að þetta frv. nái fram að ganga og vísar til fyrri afstöðu til hliðstæðs frv. sem flutt var í Ed. Alþ. á árinu 1973. Ég skil afstöðu stjórnar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna mjög vel. Þetta eru einkaframtaksmenn, þetta eru menn hins frjálsa boðskapar. En það er aðeins eitt sem ég hef ekki skilið enn þá í sambandi við umsögn þeirra, að þeir hafa talið mikla þýðingu að hafa skipulag á sölu á hraðfrystum fiski úr landi og hafa talið að það færi mjög vel á því og væri skynsamlegt að hafa það í höndum ekki fleiri en tveggja aðila. Þetta hefur verið mjög skýr og skorinorð afstaða þessara ágætu manna í mörg undanfarin ár. Ég hef verið þessarar skoðunar og hún er í fullu samræmi við það skipulag sem ég vil taka upp í sambandi við þetta. En ég verð að líta á umsögn þessara frjálsræðisherra í Sölumiðstöðinni á þann veg, að þeir telji ekki lengur æskilegt að hafa þennan hátt á, heldur eigi hver og einn að fá að selja hraðfrystan fisk úr landi, alveg eins og hver og einn eigi að fá að setja upp rækjuvinnslu, þrátt fyrir það að aflinn sé sífellt að færast saman og strangar takmarkanir séu settar.

En svo er önnur umsögn sem ég hef átt mun bágar með að skilja og skýra. Það er umsögn Landssamband ísl. útvegsmanna. Stjórnin telur að frv. gangi of langt í því að takmarka atvinnufrelsi og ákvörðunartöku einstaklinga í sjávarútvegi og lýsir sig því mótfallna frv. í þeirri mynd sem það er nú í. Ég var í stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna í fjöldamörg ár og það var alltaf höfuðbaráttumálið þar að reyna að fá sem mest verð fyrir fiskinn, þannig að útgerðin gæti borið sig. Þar sem veiðar eru háðar ströngum skilyrðum og aflamagni, þá hlýtur meðalaflinn á bát að lækka eftir því sem bátarnir verða fleiri. Það hlýtur hver og einn að skilja, að það hefur í för með sér versnandi afkomu hjá hverri útgerð fyrir sig. Ef vinnslustöðvarnar verða fleiri, þá verður fastakostnaðurinn við vinnslu þessa afla meiri, og eftir því sem þessi takmarkaði afli verður minni, þá verður fastakostnaðurinn hærri, og það verður samkv. lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins að taka tillit til þessa, og það verður að taka tillit til þess verðlags sem er á afurðum okkar á erlendum mörkuðum. Þetta finnst mér því vera mjög torskilið, þessi afstaða L. Í. Ú., nema það sé önnur skýring sem ég veit ekki um, að þeir bátar, sem þessar veiðar stunda, eru allflestir utan þessara samtaka og því nái hjartagæskan ekki lengra. Það er eina skýringin sem mér hefur dottið í hug. (Gripið fram í: Svo er álit frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna, er það ekki líka?) Já, ég þakka hv. þm. fyrir þessa framítekt, en hún er hérna á blaðinu hjá mér. Ég er alveg að koma að henni. Ég ætla að biðja hann að hafa pínulitla biðlund.

Í veiðileyfunum, sem veitt voru í haust, er Hvammstangi með 5 veiðileyfi eða 5 báta, þar af eitt nýtt veiðileyfi, Hólmavík og Drangsnes samanlagt með 15, þar af eitt nýtt veiðileyfi. Það veiðileyfi var þó ekki notað fyrr en á seinni hluta vertíðarinnar. Á Skagaströnd voru gefin út 7 veiðileyfi, þar af 2 ný. Og á Blönduósi voru gefin út 2 veiðileyfi. Ég treysti mér ekki til að ganga fram hjá bátum sem voru tilbúnir til þessara veiða, og vegna þess að það er komið að vertíðarbyrjun, þá tók ég þá ákvörðun. Af þeim 4 umsóknum, sem komu af bátum frá Blönduósi, voru 3 sem uppfylltu skilyrði um búsetu og stærð, en einn ekki, svo að hann gekk strax úr og við því var ekkert að segja. Það var alveg sama og var með bát, að ég held á Hvammstanga, hann uppfyllti ekki skilyrðin og fékk þar af leiðandi synjun. Varðandi þriðja bátinn á Blönduósi, sem uppfyllti skilyrðin, þá lést á tímabilinu maðurinn sem sótt hafði um veiðileyfið. Ég óskaði eftir því við rn. að það yrði látið liggja milli hluta ef einhver annar sækti um fyrir þennan bát og þá mundum við veita það leyfi. Það varð aldrei, svo að raunin varð sú að tveimur bátum frá Blönduósi var veitt leyfi til veiða, en sett það skilyrði að þeir lönduðu afla sínum í viðurkenndri rækjuvinnslustöð. Þegar þessi veiðileyfi voru gefin út var engin viðurkennd rækjuvinnslustöð á Blönduósi og því lögðu þessir aðilar upp afla sinn á Hvammstanga og Skagaströnd. Þá er litið á að þessari deilu sé í raun og veru lokið. Það er litið svo á að með þessari ákvörðun þessa vonda sjútvrh, hafi hann komið í veg fyrir að rækjuvinnsla gæti hafist á Blönduósi. Þá bregður Særún hf. við mjög fljótt og sendir bréf til sjútvrn., sem er dagsett 25. okt., og það hljóðar svo:

„Þar sem sjútvrn. hefur nú bannað rækjuvinnslu Særúnar hf. á Blönduósi mun fyrirtækið bíða verulegt fjárhagslegt tjón. Fer hér á eftir skaðabótakrafa um lágmarkstjón fyrirtækisins vegna bannsins:

1. Fastaleiga fyrir 2 rækjuvinnsluvélar og tilheyrandi í 6 mánuði 712 þús. kr.

2. Flutningskostnaður á vélum til Íslands 370 þús. kr.

3. Flutningskostnaður innanlands, tryggingar o. fl. 175 þús. kr.

4. 16% ársvextir í eitt ár af útlögðum fjármunum 720 þús. kr.

5. Stofnkostnaður Særúnar hf. 120 þús. kr.“ — Ekki virðist hann hafa verið mjög hár.

„6. Laun verkstjóra, vélamanns og framkvæmdastjóra í 3 mánuði 855 þús. kr.

7. Rýrnun við endursölu á tækjum og búnaði sem keypt hefur verið til rekstrarins 380 þús. kr.

8. Kostnaður við tilraunir til að fá veiðileyfi 200 þús.“ — Aldrei töluðu þeir við mig blessaðir.

9. Sem er rúsínan í pylsuendanum. — „Misstur hagnaður af rekstri. Forsendur: vinnsla afla þriggja báta af 30“ — meira að segja þeir sem aldrei sóttu um leyfi — „miðað við 2 300 lesta heildarafla“ — hann er nú 1800 — „og jafna skiptingu á báta, þ. e. 230 lestir á vertíð, og miðað við 5 ára leigusamninga á vinnsluvélum, 11 millj. kr.

Samtals 14 millj. 532 þús. kr.

Í framangreindri bótakröfu er gert ráð fyrir því, að 5 ára leigusamningur um vinnsluvélar fáist felldur niður og vélarnar yfirteknar af öðrum fyrirtækjum á kostnaðarverði, söluskattur o. fl., enn fremur að það takist að selja allan búnað fyrirtækisins með tiltölulega lítilli rýrnun, ekki verði innheimt leiga af húsakynnum og að með samningum takist að firra ýmsu öðru tjóni sem yfir vofir. Bregðist framangreindar forsendur er áskilinn réttur til að hækka og fjölga bótakröfum og sami áskilnaður er gerður þurfi til málaferla að koma. Svar ráðuneytisins um bótakröfuna óskast eigi síðar en mánudaginn 28. okt. n. k.

Virðingarfyllst,

f. h. Særúnar h. f.

Óttar Yngvason hdl.“

Þetta bréf kemur inn rétt fyrir lokun á föstudegi. Ráðuneytið á að svara því á mánudegi, hvort það ætli að borga 14.5 millj. í skaðabætur þar sem það hafi verið harðlega bannað að þetta fyrirtæki gæti hafið vinnslu á Blönduósi. Ég sagði í rn. að við skyldum ekkert svara þessu bréfi, það væri ekki svaravert, og ég stend við það. Það getur vel verið að það heiti ókurteisi. En er það kurteisi að leggja 14.5 millj. kr. bótakröfu inn þegar starfsfólk er að fara út á föstudagskvöldi og segja: Gjörið svo vel og svarið þessu á mánudegi? Það má hver segja fyrir mér að það sé kurteisi, En ég tel það ekki vera kurteisi.

Í framhaldi af þessu mætti ég á fundi hér niðri í framsóknarherbergi í nóv., eða nokkru eftir þetta, og þar var auk mín hæstv. forsrh. og viðskrh., sem er 1. þm. Norðurl. v. Þar voru einnig mættir flestir eða allir þm. Norðurl. v. og forsvarsmenn hreppsfélagsins og jafnvel aðrir framámenn í hreppnum. Ég þori ekki að fullyrða hvort þeir eru allir í hreppsnefnd sem þar voru, en allir voru þeir forsvarsmenn sveitarfélagsins eða atvinnurekstrarins á staðnum. Þar leggja þeir fram till. um atvinnuuppbyggingu á Blönduósi og m. a. gera miklar og margvíslegar kröfur. Það kom mér ekkert á óvart, það gera svo margir miklar kröfur. Það er ekki endilega þetta eina sveitarfélag frekar en flest önnur, einstaklingar og félög, því að það eru allir í kröfugöngu í þessu þjóðfélagi og hafa verið í mörg ár. Ég vil taka fram að út af fyrir sig hneykslaði það mig ekki, það sem þarna var farið fram á.

Það var yfirlýsing stjórnvalda og Framkvæmdastofnunar ríkisins um að atvinnufyrirtæki á Blönduósi fái hliðstæða fyrirgreiðslu og fyrirtæki þau sem vinna að sjávarafla á þeim stöðum þar sem útvegur er, og benda þá sérstaklega á Skagaströnd, Siglufjörð, Sauðárkrók o.s.frv.

Nægilegt fjármagn verði veitt til þess að hægt verði að ljúka við iðngarðana, klæða húsið og einangra og skipta niður í einingar. Fjárhæð ekki tilgreind nú vegna verðbólgunnar, en eins og dæmið stendur í dag þarf um 15 millj. kr. til þess að gera húsið fokhelt og steypa gólf í það.

Þar sem Blönduós verður að byggja tilveru sína á iðnaði verði þeim fyrirtækjum, sem vinna að iðnaði sem seldur er um allt land, gert mögulegt að starfa: Pólarprjón, því hefur verið veitt mjög góð fyrirgreiðsla, Trefjaplast, Ósplast og Krútt, sem er bakarí eða brauðgerðarhús.

Í framhaldi af þessum fundi voru veitt tvö lán til tveggja þessara fyrirtækja og það með svo miklum hraða að það var ekki beðið eftir næsta stjórnarfundi í Framkvæmdastofnuninni, heldur var það gert utan fundar. Og ég, þessi vondi maður, var einn af þeim sem samþ. að veita þessi lán.

En svo furðaði mig aftur á öðru sem þessir ágætu menn komu með. Það er það sem þeir kölluðu miskabætur vegna neitunar á vinnslu rækju, og það er aðeins það, sem ég furða mig á, en ekki hitt sem á eftir kemur.

Það er nú fyrst, að þjóðvegurinn gegnum kauptúnið verði lagður varanlegu slitlagi. Vegarkafli frá brúnni og upp að grindarhliði í Ámundakinn er svo til tilbúinn undir slitlag, aðeins eftir að jafna hann og setja niðurföll eða koma regnvatni burt. Vegurinn vestan árinnar verði gerður varanlegur og lagður slitlagi frá Háubrekku að Brautarholti. Kaflinn frá Brautarholti að brúnni verði lagður slitlagi til bráðabirgða. Þetta verði gert á næsta sumri.

Flugvöllurinn : a. Leitt verði nú þegar rafmagn að flugskýlinu. b. 600 m þverbraut verði gerð á næsta sumri og flugvallarvegur fullgerður.

Bryggjan: Óskalisti um framkvæmdir næstu ár verði samþ. og sérstaklega verði varnargarður styrktur.

Blönduósi verði greitt nú úr Jöfnunarsjóði 10 millj. sem skaðabætur fyrir neitun á vinnslu sjávarafurða og sem uppbót vegna greiðslna er gengið hafa undanfarin ár til Skagastrandar, Siglufjarðar og Sauðárkróks.

Hitaveita: Byggðasjóður láni nú þegar fyrir öllum kostnaði við hitaveiturannsóknir og leit að heitu vatni, þar með talinn kostnaður við kaup hitaréttinda sem ekki hefur fengist að láni annars staðar frá (Orkusjóður og Átvinnuleysistryggingasjóður).

Menningar- og heilbrigðismál er snerta allt héraðið: Á næstu fjárl. verði veitt framlag til bókhlöðunnar á Blönduósi, sama upphæð að verðgildi og veitt var Sauðárkróki og verði um eingreiðslu að ræða. Fé verði veitt á fjárl. 1975 til byggingar ellideildar eða vistheimilis fyrir aldrað fólk við Héraðshælið. Áformað er að byggja 5 íbúðir, tveggja herbergja, fyrir öldruð hjón. Framlagi ríkisins verði deilt niður á 3 ár. Veittar verði 20 millj. kr. til heilsugæslustöðvar á Blönduósi. Fyrsta framlag var veitt 1973, af mestu náð fékk það að standa á fjárl. 1974. Þá gerum við kröfu til þess að heimamenn sjái um bygginguna í samráði við heilbrrn. án allrar milligöngu undirnefnda eða skrifstofa embættismanna ríkisins. Loforð stjórnvalda fáist fyrir áframhaldandi tilveru hins nær 100 ára Kvennaskóla Húnvetninga. — Og þar með er þessum óskalista lokið, en margar skýringar fylgja.

Nú ætla ég að segja það líka um þetta sem ég las hér síðast: Margar af þessum óskum eru ekki nema sjálfsagðar og eðlilegar, að gert verði sama fyrir þennan stað og aðra staði, og að mörgu leyti tel ég og öllu leyti, að það hafi verið mjög eðlilegt að veita meira fé til uppbyggingar iðnaðar á Blönduósi en gert hefur verið, vegna þess að sjávaraflinn í Húnaflóa gerir ekki kleift að fjölga slíkum vinnslustöðvum. Því hef ég ánægður viljað standa að og stuðla að, eins og ég gerði, þeim lántökum sem þessi fyrirtæki hafa fengið frá Framkvæmdastofnun á undanförnum árum. Ég tek það fram, að Blönduóshreppur hefur ekki fengið neitt áberandi meira fé eða áberandi minna en fjölmargir aðrir staðir þegar sjávarútvegur er undanskilinn. En einu furða ég mig á. Það eru þetta sem þeir kalla miskabætur vegna neitunar á vinnslu rækju. Ég verð að segja eins og er, að ég tel það furðulegt — fyrst bréf lögfræðingsins og síðan þetta — hvað þeir hafa haldið að rækja þessara tveggja báta hefði orðið dýr. Ekki hefði ég viljað kaupa hana á því verði og ekki vilja bretar kaupa hana á því verði, það fullyrði ég, og þeir sem eru aðalinnflytjendur á rækju.

Hv. 3. þm. Reykv. minnti mig á ályktun frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Ég hafði ætlað mér að koma lítillega inn á hana þótt ég hefði ekki verið minntur á hana. En hann er einn af þeim sem eru með þessa ályktun í höndunum og ég hef séð ýmsa þm. úr öllum flokkum vera að lesa þessa ályktun SUS. Ég hefði nú t. d. haldið að ungir sjálfstæðismenn mundu ekki snúa Magnúsi Kjartanssyni með einni ályktun þó að þeir eyddu í hann frímerki og ekki heldur Ólafi Jóhannessyni. Hann sýndi mér hana líka, hæstv. viðskrh., og ég fékk þessa ályktun eins og aðrir, sennilega til eftirbreytni að þeirra dómi. En hún birtist líka í því ágæta blaði, Morgunblaðinu, sem hefur verið opnast allra blaða í þessu rækjumáli, en blaðið sjálft enga skoðun haft. Ég ætla að segja það, að ég hef orðið var við marga sem höfðu enga skoðun á þessu máli fyrr en þeir lásu ályktun SUS, árangurinn af ályktun sambandsins er sá og ég er afskaplega ánægður með þann árangur. Ég kann stjórn SUS miklar þakkir fyrir að hafa sent þessa ályktun frá sér. Það er eins og augu margra hafi opnast fyrir að hér sé um gamlar kennisetningar að ræða, sem voru lifandi á 19. öldinni, en eru núna löngu dauðar. Ég læt svo útrætt um þátttöku Sambands ungra sjálfstæðismanna í þessu máli.

Mig langar líka að koma hér að einu atriði. Það er ungur þm. sem bauð sig fram á Vestfjörðum og er 8. landsk., og hann er í þeim flokki sem ákvað að fara í endurhæfingu í haust og eina endurhæfingin er þessi þm. Við höfum heyrt nokkrum sinnum í honum í vetur og með þeim árangri að ég tel að endurhæfing Alþfl. hafi algerlega mislánast. Mér þykir vænt um að þm. er kominn í salinn, því að ég ætlaði að tala til hans nokkur orð.

Sjútvrn. sendi sýslumanni Húnavatnssýslu óskaplega flókið mál til aðgerðar með símskeyti 13. des. 1974 og þar segir: „Rn. óskar þess, að þér, herra sýslumaður, kannið eftirfarandi með tilliti til meints brots m/b Aðalbjargar HU 25:

1. Landaði báturinn rækjuafla í gærkvöldi?

2. Ef svo, hve miklum?

3. Hver var skipstjóri?

4. Aðrir skipverjar?

5. Ef skipstjóri var Kári Snorrason, kannast hann þá við samtal í síma við Þórð Ásgeirsson skrifstofustjóra, þar sem honum var tilkynnt að veiðileyfi hans hefði fallið úr gildi við útgáfu leyfis til Snorra Kárasonar?

Sjávarútvegsráðuneytið.“

Þetta var auðvitað óskaplegt mál og mikið lagt á sýslumanninn. Hér kemur nú hin langa skýrsla sýslumannsins og þm. geta dæmt um hvað maðurinn hefur lagt hart að sér og átt óskaplega erfitt að svara þessu flókna skeyti, — hún er svona:

„Sjávarútvegsráðuneytið

Þórður Ásgeirsson

Arnarhvoli, Reykjavík.

Skv. upplýsingum hafnarstjórans á Blönduósi kom Aðalbjörg HU 25 til Blönduóss fimmtudagskvöldið 12. þ. m. og landaði um 70 kílóum af rækju. Skipstjóri var Kári Snorrason.

Virðingarfyllst,

Jón Ísberg.“

En ekki fannst öllum þetta lítil vinna eða þessi skýrsla stutt, því að þessi þm. Alþfl., sem stjórnar endurhæfingunni, skrifar, að ég tel, undir skammstöfuninni SB í Alþýðublaðið litlu eftir þetta og hann segir þar um þetta mál. Þá geta menn séð hvað háar kröfur hann gerir til vinnu manna:

„Hvað sagði hver við hvern? Afskipti sjútvrn. af rækjustríðinu á Húnaflóa taka á sig stöðugt skoplegri myndir. Nú er rn. komið í hár saman við sýslumann þeirra húnvetninga, þar eð rn. telur að hann hafi ekki gefið nógu greinargóða skýrslu um málið,“ — þ. e. skýrslan sem ég las áðan, af því að það var óskað frekari skýringa. — „Sýslumaður segist hafa skýrt rn. frá því sem það hafi beðið um, en rn. er á öðru máli og segir að sýslumaður hafi m. a. vanrækt að taka fram í skýrslu sinni hvað einhver sagði við einhvern í síma. Það er því ekki með öllu vandalaust að vera sýslumaður húnvetninga,“ segir þm. „Nú er til þess ætlast að ofan á embættisstörfin gefi hann skýrslur um hvert húnvetningar hringi, við hverja þeir tali og hvað sagt sé.“ (Gripið fram í.) Það er gengið nærri sýslumanninum. Ég er alveg hissa að hann hafi haldið út að vera í starfi. — „Sjálfsagt biður rn. sýslumanninn næst um að kíkja ofan í potta húsmæðra við Húnaflóa, til þess að gá hvort vera kynni, að röng rækja hafi slæðst ofan í rangan pott. Hér áður og fyrr meir stóðu sýslumenn húnvetninga oft í ströngu, eins og sögur herma.“ — Þar á hann sennilega við dauðadómana, sem þeir urðu að kveða upp. — „En sjálfsagt hafa þeir gömlu sýslumenn aldrei þurft að verða þátttakendur í jafnskoplegum málatilbúnaði og Húnaflóabardagi hinn nýi virðist ætla að verða. Spurning hvort ekki sé að opnast þar norður frá vettvangur fyrir pípulagningamennina hans Nixons, en svo voru þeir kallaðir sem stunduðu laumulegar rannsóknir á hugrenningum og símtölum manna í Watergate-byggingunni frægu.“

Minna mátti nú ekki gagn gera út af þessu eina símskeyti. Þetta er endurhæfing Alþfl. í sannri og réttri mynd.

Hæstv. forseti. Ég hef nú verið nokkuð langorður, en mér hefur kannske verið mál að komast að því að 2. umr. átti sér stað hér í desembermánuði og hefur þetta mál verið á dagskrá hér hvað eftir annað, en alltaf verið tekið út af dagskrá eftir beiðni einhverra þm. hverju sinni. Ég hef ekki spurt hæstv. forseta hverjir það hafa verið. Ég hef aldrei óskað eftir því að málið hafi verið tekið út af dagskrá. En loksins heldur þó þessi 2. umr. áfram, og ég vona að það verði ekki gert nú álíka hlé og gert var fyrir jólin á þessari 2. umr.

Þetta mál í heild hefur ekki verið neitt skemmtimál eða neitt skemmtiatriði fyrir mig og því siður fyrir þá starfsmenn sjútvrn. sem þurfa að standa í þessu máli. Það hefur fyrst og fremst mætt á skrifstofustjóra rn. sem hefur ekki fengið annað en kaldar kveðjur á báða bóga. Þetta mál er viðkvæmt deilumál, sérstaklega í Húnavatnssýslu. Það er líka viðkvæmt í Strandasýslu, en ég held það sé enn þá viðkvæmara í Húnavatnssýslu. Það er ákaflega erfitt bil að brúa þarna á milli þessara staða. Þetta mál er því ekki gamanmál. Þetta mál er orðið að miklu tilfinningamáli á báða bóga og ég held að fjölmiðlar, bæði blöð, útvarp og sjónvarp, eigi sinn stóra þátt í því hvað þetta mál fór út í mikla hörku. Og ég hef fengið ýmislegt á baukinn, sérstaklega í ýmsum greinum í Morgunblaðinu.

En þó að ég sé talinn skapmaður, þá hef ég stillt mig um að svara öllum þeim ásökunum og hnýfilyrðum sem þar hafa komið fram undanfarna mánuði. En ég er ekki tilfinningalaus frekar en aðrir menn, og manni þykir þetta fullmikið þegar menn, sem eiga að heita menntaðir menn, háskólagengnir, eru farnir að brigsla mönnum um að nota sömu aðferðir gagnvart Blönduósi og nasistar viðhöfðu. Í næstu grein var sagt að þetta væri mjög svipað og innrás rússa í Tékkóslóvakíu. Þó var greinarhöfundur það sanngjarn, að hann sagði að innrás rússa væri þó sýnu verri, og maður verður alltaf að láta það koma fram þegar menn sýna slíka hófsemi í málflutningi.

Ég ætla ekki að þylja þetta allt saman upp. En það verður hver maður að vita, sem gegnir ráðherrastarfi, að hann verður að skera á hluti og þá verður hann að gera það sem hann álítur réttast og sannest hverju sinni. Ég hef gert það á þann veg, að ég treysti mér ekki til þess að ganga fram hjá leyfisveitingu þeirra báta sem uppfylltu skilyrðin, en ég gerði það á þennan hátt. Þeir hófu innlagningu á hráefni til viðurkenndra verksmiðja sem voru á staðnum.

Þessi Blönduósverksmiðja hefur verið íkveikja við Húnaflóa, og ég taldi að málið væri til lykta leitt með hótunarbréfi lögfræðinganna og bréfi hreppsnefndarinnar á Blönduósi. En það virðist ekki hafa verið. Það er tekið til upp á ný. Verksmiðjan fer af stað og hún heldur áfram. Þetta stríð hefur staðið allan tímann. Annar af þessum tveimur bátum er horfinn af sjónarsviðinu. hann varð fyrir áfalli um áramót, fór suður í slipp og á hann hefur ekki verið minnst síðan. Það er því um einn einasta bát að ræða og samt öll þessi viðkvæmni og öll þessi læti sem búin eru að vera.

Það voru skemmtileg skeyti sem ég var að fá og vissi hvaðan voru ættuð, og ég get ekki stillt mig um að segja frá einu, sem ég fékk rétt áður en ég fór heim til mín að borða á gamlárskvöld :

„Við húsmæður, sem vinnum hjá rækjuverksmiðjunni Særúnu hf. á Blönduósi, krefjumst þess að þér látið af ofbeldisaðgerðum gegn rækjuverksmiðjunni og sjáið um að við fáum vinnu, því að öðrum kosti verðum við atvinnulausar.“

Forsrh. fékk skeyti sama dag um að reka mig úr rn. Þannig var haldið á málum. Það var reynt að gera viðkvæmt mál eins erfitt og hægt var. Öll þessi blaðaskrif voru til skammar í þessu máli, þó að ekkert blaðanna hafi sjálft tekið afstöðu í þessu máli nema ef vera skyldi þessi Watergate-grein ritstjórans sem á sæti hér í Nd. Eins og ég sagði áðan, Morgunblaðið hafði enga skoðun á málinu og hefur ekki skoðun enn. Stundum hefur þó Morgunblaðið haft skoðun.

Eftir að báturinn Nökkvi brýtur með því að fara á veiðar eftir að hann er sviptur veiðileyfi, kærir sjútvrn. bátinn og dómsmrn. tekur auðvitað við þeirri kæru og kærir hann fyrir ólöglegar veiðar þar sem hann hafi verið sviptur veiðileyfi. Málið er varið af því kappi og látum. Í fyrsta lagi er þess krafist að sjútvrh. verði kallaður fyrir rétt. Það yrði skemmtilegt í framtíðinni þegar landhelgisbrjótar væru teknir, hvaða sótraftur sem er, hvort sem hann er breskur eða af öðru þjóðerni, að verjendur þeirra geti sagt:Við heimtum dómsmrh. fyrir rétt. — Það verður gaman að vera dómsmrh. þá og mæta sem vitni við hvert landhelgisbrot. Þegar dómendur úrskurða að sjútvrh. skuli ekki kallaður fyrir rétt, þá er þess krafist að dómendur víki og því áfrýjað til Hæstaréttar. En samt geri ég eða sjútvrn. samkomulag í málinu þegar séð er algerlega hvernig málið fer. Báturinn eða réttara sagt skipstjóri bátsins verður auðvitað dæmdur í sekt, hann er brotlegur. Hitt er svo annað mál, að menn geta farið í einkamál út af því ef þeir telja sig hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna banns á rækjuvinnslu sem þeir kalla svo.

Samkomulagið, sem við gerum, er það að sjútvrn, og skipstjórinn á bátnum eru sammála um að leggja til við ríkissaksóknara að hann heimili réttarsátt í sakadómsmáli Húnavatnssýslu, sem sagt ákæruvaldið gegn þessum skipstjóra, á þann veg, að skipstjórinn greiði að mati dómenda sekt í ríkissjóð. Að réttarsáttinni gerðri mun sjútvrn. gefa út nýtt rækjuveiðileyfi á Húnaflóa til þessa sama manns er heimili honum rækjuveiðar á yfirstandandi vertíð með sömu veiðiskilyrðum og aðrir bátar eru háðir á þessu svæði, þó verði Nökkva ekki heimilt að veiða meira en 30 tonn. Ég geri þetta með tilliti til þess að ég vil fyrst og fremst reyna sættir. Þetta er gert í fullkominni óþökk forsvarsmanna hinna fjögurra byggðarlaganna, en ég hafði fyrir nokkru beðið aðstoðarmann minn, Einar Ingvarsson, að biðja oddvita allra þessara fimm byggðarlaga að koma til fundar í Rvík um þessi mál til þess að reyna að gera enn tilraun til að ná samkomulagi í þessu máli. Þá er auðvitað fyrst og fremst verið að hugsa um framtíðina, hugsa um það sem kemur eftir þennan vetur, og það var samkomulag á þeim fundi, að greina ekki frá neinu efnislega. Blöðin hafa haft úr nógu að spila í þessu máli þó að þau fái það ekki til viðbótar og það verður ekki gert. Hins vegar munu þessir menn eða aðrir fulltrúar hreppsfélaganna koma til næsta fundar, 20. mars n. k., til þess að halda þessum viðræðum áfram.

Ég ætla þá ekki að hafa þessa ræðu lengri, en ég vil benda á það, að þetta er viðkvæmt mál og erfitt. Skrif og ályktanir þeirra, sem lítið þekkja til og lítt hafa sett sig inn í þessa viðkæmu deilu, hafa ekki orðið til þess að flýta neitt fyrir lausn hennar.