20.11.1974
Efri deild: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

11. mál, launajöfnunarbætur

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Meginatriði í minni gagnrýni hafa ekki verið hrakin hér. Þau hafa miklu fremur veríð staðfest, þ.e.a.s. að þrátt fyrir þessar láglaunabætur er kjaraskerðing láglaunafólksins staðreynd og þrátt fyrir hækkun á bótum almannatrygginga er um enn meiri lífskjaraskerðingu að ræða hjá tekjutryggingarþegum, sem best sæist á því ef borin væri saman kaupmáttur tekjutryggingarinnar 1. ágúst s.l. og svo aftur kaupmáttur tekjutryggingarinnar í dag. Þetta voru þau tvö meginatriði sem gagnrýni mín beindist að.

Um þau spellvirki, sem ég minntist á, veit hæstv. forsrh. auðvitað mætavel þó að hann vildi öðruvísi vera láta áðan, að það var ekki það atriði að taka kaupgreiðsluvísitöluna úr sambandi sem ég var að gagnrýna. Ég hélt þvert á móti uppi vissri gagnrýni á það vísitölukerfi, sem við búum við, og gagnrýni sem ég held að sé fyllilega réttmæt og menn séu almennt orðnir sammála um. Þau spellvirki, sem ég átti við, voru auðvitað fyrst og fremst þær efnahagsráðstafanir sem gerðar voru í haust, þær efnahagsráðstafanir sem núv. ríkisstj. ber vitanlega ein ábyrgð á.

Hæstv. forsrh. sagði að launajöfnunarbæturnar, sem minn flokkur hefði viljað rétta láglaunafólkinu, hefðu verið enn lægri. Ég vil ekki fara út í náinn samanburð við það, sem hefur gerst í dag undir stjórn núv. hæstv. ríkisstj., og þær till. sem voru á döfinni í vinstristjórnarviðræðunum, en bendi aðeins á það að till. Alþb. í þessum viðræðum miðuðust fyrst og fremst við það að kaupmáttur launa innan við 50 þús. kr. yrði óskertur og að vitanlega yrði kaupmáttur t.d. tekjutryggingarinnar fullkomlega óskertur einnig. Það verður líka að taka það með í reikninginn að allur samanburður um einstakar tölur varðandi launajöfnunarbætur er hér óraunhæfur vegna þess að við aðrar álögur var miðað og einnig við það miðað að verðstöðvun yrði framkvæmd í reynd. Það er sagt hér að afkoma atvinnuveganna hafi verið slík að þeir hefðu ekki þolað þær miklu kauphækkanir sem annars hefðu dunið yfir ef engar ráðstafanir hefðu verið gerðar. Spurningin er auðvitað um það hvort jafnvel þeir lægst launuðu, hvort þeir tekjuminnstu í þjóðfélaginu ættu að greiða þar sinn hlut eða ekki. Áttu þeir að standa utan við þetta, halda sínum kaupmætti óskertum, eða áttu þeir að taka þann ríkulega þátt í því sem þeir óneitanlega gera í dag? Um það stendur vitanlega spurningin.

Svo að lokum vék hæstv. forsrh. að tekjutryggingunni og fór nokkuð nákvæmlega í þann prósentureikning sem þar hafði verið reiknað með varðandi þetta frv. Ég tek það fram að ég var nákvæmlega búinn að sjá þessa ágætu prósentu, þessi 10%. Það er ekki þessi prósenta, sem þarna skiptir máli, heldur það hvort fólkið, sem nýtur þessara kjara frá tryggingunum og hefur þessar tekjur einar, býr við óskert kjör eða ekki. Prósentur skipta þetta fólk ekki máli, heldur er það kaupmáttur tekjutryggingarinnar sem skiptir öllu máli, og það var það atriði sem ég var að gagnrýna hér áðan og spurði m.a. um það hver hefði verið kaupmáttur tekjutryggingarinnar 1. ágúst s.l. og hver kaupmáttur tekjutryggingarinnar væri í dag. Ég sagði þá og svaraði sjálfum mér að nokkru leyti að sá kaupmáttarsamanburður yrði býsna hrikalegur fyrir það fólk sem við þessar tekjur einar býr, og ég er viss um að ef það væri athugað nákvæmlega, þá kæmi jafnvel út enn verri niðurstaða en menn hafa gert sér í hugarlund.