04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

121. mál, útfærsla landhelginnar

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Um þessar mundir beinist öll athygli manna að efnahagsmálunum og þeim mikla vanda sem blasir þar við. Það er gömul saga og ný, að þegar miklir efnahagsörðugleikar steðja að, þá þokast önnur vandamál eða viðfangsefni til hliðar, hverfa í skugga verðbólgunnar eða eru jafnvel ekki lengur á dagskrá. Þetta er sorgleg staðreynd fyrir alla þá sem stjórnmálum sinna, því að vitaskuld eru hin stjórnmálalegu úrlausnarefni miklu fleiri en hin endalausa glíma við verðbólgudrauginn.

Eitt er þó það viðfangsefni sem ekki má hverfa í skuggann eða víkja til hliðar, hvað sem öllu öðru liður. Það er landhelgismálið. Ríkisstj. lýsti því yfir í stjórnarsamningi sínum, að hún hygðist færa út landhelgina í 200 mílur á þessu ári, og hæstv. forsrh. hefur síðar staðfest að frá því stefnuatriði verði ekki hvikað. Undir það taka allir stuðningsmenn þessarar ríkisstj. og raunar að ég hygg allir landsmenn. Öllum er ljóst, að útfærslan er meira en yfirlýsingin ein. Hún krefst þrotlauss undirbúnings, kynningar og sameiginlegs átaks. Þing og þjóð hefur áhuga á því og hefur rétt á því að fylgjast með öllum undirbúningi, kynnast rökum og gagnrökum og stíga sameiginlega það spor sem stigið verður á leið okkar til fullra yfirráða yfir 200 mílunum. Þess vegna er þessi fsp. fram borin, svo að hæstv. forsrh. fyrir hönd ríkisstj. gefist tækifæri til að kynna þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar eða væntanlegar eru í þessu máli.