04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2102 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

320. mál, staðarval ríkisstofnana

Forsrh, (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Í tilefni þessarar fsp. sneri forsrn. sér til Ólafs Ragnars Grímssonar, sem er formaður n. þeirrar sem hefur þetta verkefni með höndum, og hefur hann ritað rn. eftirfarandi bréf sem svar við fsp., sem ég leyfi mér að lesa hér upp:

„Nefndin hefur lokið gagnasöfnun og mótað till. sínar í meginatriðum. N. hefur kynnt sér rúmlega 200 opinberar stofnanir og tekið 140 þeirra til sérstakrar athugunar. Síðustu mánuði hefur verið unnið að samningu nál. sem verður í tveimur meginhlutum. Í fyrri hluta álitsins verður fjallað um þróun stjórnkerfisins, gerð grein fyrir viðhorfum til ýmissa meginatriða, sem snerta flutning ríkisstofnana, og lýst till. n. í höfuðatriðum með tilliti til a) heildarflutnings, útibúaflutnings og deildaflutnings ríkisstofnana, b) tegunda starfsemi og landshlutaaðseturs. Í síðari hluta álitsins verða grg. um einstakar stofnanir og önnur fskj.

Þessa dagana er verið að vélrita álitið og mun n. taka það innan tíðar til lokaumfjöllunar. Áformað er að n. ljúki störfum í næsta mánuði“ — segir hér, en bréfið er skrifað 3. febr. s. l. svo að hún mun ljúka störfum í þessum mánuði, en fsp. er, eins og kunnugt er, orðin allgömul. Síðan heldur bréfið áfram: „Fulltrúar n. munu, áður en lokaumfjöllun um álitið fer fram, ræða við fáeina aðila, m. a. forustumenn þriggja landshlutasamtaka til að kanna frekar viðhorf þeirra til nokkurra efnisatriða.

F. h. nefndarinnar,

Ólafur Ragnar Grímsson, formaður.“