04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Gils Guðmundsson:

Sverrir Hermannsson, hv. alþm. og „kommissar“ með meiru, skýrði frá því að hinum frægu reglum um það að ekki megi lána til skipakaupa í Reykjaneskjördæmi, hefði verið breytt. Þetta er að sjálfsögðu þakkarvert. Hins vegar bætti hann því við, að sitt álit væri það að þetta ætti í rauninni engu að breyta, þó að reglunum hefði verið breytt, það ætti alls ekki að lána til Reykjaneskjördæmis. Það þótti mér heldur miður, ef ég hef skilið hann rétt, að þetta eigi ekki að breyta neinu um gang mála.

Hæstv. sjútvrh. fór nánast háðulegum orðum um það að við bæði Reykjanesþm. og mér skildist útgerðarmenn af Reykjanesi værum að kveina og kvarta í sambandi við lán úr Byggðasjóði og jafnvel öðrum fjárfestingarsjóðum. En ég vil aðeins spyrja hann einnar spurningar: Telur hæstv, ráðh. eðlilegt, að endurnýjun skipastóls í þessu kjördæmi hefur að mjög óverulegu leyti átt sér stað, og er hann ekki tilbúinn að stuðla að því að reyknesingar geti endurnýjað skipastól sinn, þar sem ljóst er að hann er nú eldri og að mörgu leyti úreltari en víðast hvar, jafnvel alls staðar annars staðar á landinu?