04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. sagðist vera því sammála að það væri þingkjörin stjórn í Framkvæmdastofnun ríkisins, eins og verið hefur frá byrjun, en væri því ekki sammála að það væru „kommissarar“ sem veittu lánin. Þingkjörin stjórn hefur afgr. hvert einasta lán. „Kommissararnir“ hafa enga heimild til þess að afgr. lán. Hann sagðist skilja núna, þessi hv. þm., hvers vegna menn sæktust svo eftir því að komast í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar. En ég held að ég sé líka farinn að skilja hvers vegna menn sem ekki komast í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar eru orðnir svona reiðir.

Hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundsson, spurði mig sem sjútvrh. hvort ég vildi ekki stuðla að endurnýjun bátaflotans á Suðurnesjum. Vitaskuld vil ég stuðla að endurnýjun bátaflotans á Suðurnesjum. Og ef þessi hv. þm. Reykn. hefur ekki vitað það, þá hef ég greitt atkv. í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar með lánum til bátasmíða á Suðurnesjum og m. a. til tveggja togara sem fengu nákvæmlega sömu fyrirgreiðslu og aðrir togarar í landinu. Ég vona, að þetta megi verða til þess að hugga hinn hnuggna Suðurnesjakór sem hér hefur sungið í dag.

Ég vil að síðustu benda á það í sambandi við samþ. lána úr Byggðasjóði 1972–1974 að þá voru lán í Reykjaneskjördæmi 44 fyrsta árið eða 35.8 millj. kr. En næsta ár á eftir, 1973, færðust þau niður í 3 lán og 1974 3 lán. Hverjir réðu Byggðasjóði þá? Hverjir höfðu meiri hl. í Byggðasjóði þá? Það voru fulltrúar vinstri flokkanna. Hvað sagði þá hluti af þessum Reykjaneskór?

Ekkert einasta orð, nema Jón Árm. Héðinsson og Jón Skaftason hafa minnst á þetta einu sinni á ári, rétt eftir að ársskýrslan hefur verið gefin út.