04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða það sem hefur áður skeð í Framkvæmdastofnuninni, það hafa aðrir gert. En hv. þm. Jón Árm. Héðinsson var að tala um að það væri óviðeigandi að setja skilyrði um að aðrir sjóðir láni einnig ef Framkvæmdastofnunin gerir það. Ég verð að segja það að það er undir ýmsu komið hvort það er réttmætt. Það getur verið mjög réttmætt varðandi fyrirtæki, sem þarf á mikilli fyrirgreiðslu að halda og stendur ekki allt of vel, að t. d. viðskiptabankinn hjálpi eitthvað til, að Atvinnuleysistryggingasjóður geri eitthvað og að Byggðasjóður og/eða Framkvæmdasjóður láni einnig eitthvað.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson sagði hér áðan, að ríkissjóður úthlutar Byggðasjóði miklum fjármunum. Alþ. á þess vegna rétt á því að fylgjast með hvernig þessu fé er varið. Þar á ekkert að vera á huldu. Og það á ekkert að gerast í því sambandi sem ekki þolir dagsins ljós.

Hv. þm. Ellert B. Schram sagði áðan að það mætti nærri geta hvernig slagurinn yrði á næsta þingi þegar rifist verður um hvernig þessum miklu fjármunum hefur verið úthlutað á þessu ári. Ég er ekkert hræddur um að það verði slagur um það, vegna þess að stjórn Framkvæmdastofnunarinnar, sem nú situr, — ég hef ekki orðið var við annað, það eru aðeins 3 fundir sem hafa verið haldnir núna — hún hefur verið sammála um allt sem hefur verið afgr. Mín skoðun er sú, að þegar menn sitja í kringum borðið og afgreiða lánin, þá séu menn sammála um að gera það á réttlátan hátt. Takist það verður ekkert rifrildi um það hvernig úthlutunin hefur farið fram á árinu 1975.