04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (1688)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Fjmrh. (Matthías Á. Mathíesen) :

Herra forseti. Það var talað um það að það vantaði aðeins einn reyknesing í þann kór sem hér væri búinn að syngja, en sá væri lagvissastur. Hvort sem það er rétt eða ekki, vildi ég mjög gjarnan vera í þeim kór og ég er hissa á nafna mínum Bjarnasyni, þ. e. a. s. á hans orðum áðan og viðkvæmni, að í eitt skipti skyldu reyknesingar koma hér upp og tala, en það skyldu ekki vera vestfirðingar sem væru syngjandi hér alla daga vikunnar. Hann varð að mér fannst, afbrýðisamur og fór að fetta fingur út í þetta. En ég veit að umr. um þetta mál eru senn á enda, svo að þeir fara sjálfsagt að komast að, vestfirðingarnir. Hann vakti réttilega athygli á því hvað gerst hefur í sambandi við lánveitingar Byggðasjóðs á s. l. árum og vildi vekja athygli á því, að þeir þm., sem þá voru stjórnarþm., hefðu þá ekkert haft við þær lánveitingar að athuga. Ég vil gjarnan leiðrétta það og segja að við reyknesingar höfum alla tíð staðið saman í baráttunni um að fá þessum reglum breytt og ég er mjög ánægður að heyra að svo er nú komið. Þá vil ég líka láta í ljós þakkir mínar til þeirra þm. sem setið hafa í stjórn Byggðasjóðs og hafa þar ekki viljað lúta þeirri reglu sem sett var í upphafi árs 1973 varðandi lánveitingar til Reykjaneskjördæmis og Reykjavíkur, og er þar á meðal nafni minn, sjútvrh., enda þótt hann sé ekki mjög ánægður með það sem hefur fram komið í sambandi við þessar umr.

Að lokum vildi ég mega leiðrétta ummæli í sambandi við skattgjaldið sem Hafnarfjarðarkaupstaður hefur vegna álversins, 25%. Það er til að mæta öðrum skattstofnum sem ekki eru lagðir á það fyrirtæki í Hafnarfirði, fasteignagjöldum og aðstöðugjöldum. Ég held að ef sá útreikningur yrði gerður, færi Hafnarfjörður heldur verr út úr því með því gjaldi sem hann hefur í dag en ef hann eins og aðrir kaupstaðir fengi að leggja á fasteignagjöld og aðstöðugjöld.