04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég leyfði mér í sakleysi mínu áðan að draga athygli manna að kjarna þessarar umr., sem væri sem sagt sá, að hér væri verið að deila um það hvernig fjármagni Byggðasjóðs væri úthlutað og að því væri haldið fram að hér ætti sér stað mismunun. Ég sagðist engan dóm leggja á það hver hefði rétt fyrir sér í því, þannig að það er óþarfi hjá hv. 4. þm. Austf. að mótmæla einhverjum ímynduðum orðum mínum um það, að ég hefði fullyrt að hér væri um einhverja mismunun að ræða. Ég get staðið við það sem ég sagði áðan og ég held því fram og gerði það áðan að pólitísku valdi fylgi alltaf mismunun eða sá grunur liggi á að mismunun sé fyrir hendi, og við þessa skoðun mína mun ég standa. Hvort þessu fé hafi verið útdeilt með réttlátum hætti eða ekki legg ég engan dóm á, en því hefur verið haldið fram í þessum umr. af öðrum en mér að um mismunun sé að ræða

Hæstv. sjútvrh. gefur í skyn að ég og einhverjir aðrir hafi haft áhuga á því að setjast í stjórn þessarar stofnunar. (Gripið fram í.) Ég tek það ekki til mín. En hins vegar hefur þessi sami hæstv. ráðh. lagt svo mikið kapp á að komast í þá stjórn, að eftir að hann hefur tekið við embætti ráðh. hefur hann lagt áherslu á að fá að sitja áfram í stjórninni, og það er það óvanalega í þessu máli. Ég læt svo menn ráða í það hvers vegna hann sækir það svo fast. (Gripið fram í.) Það geta fleiri svarað fyrir sig.

Ég vil síðan segja það, að ég er feginn því ef það er komið svo gott samkomulag í stjórninni að öll úthlutun sé réttlát að allir hafi bara kvakað yfir því í stjórninni, og ekkert nema gott um það að segja. En ég er þeirrar skoðunar, að um leið og ég vil að þingkjörin stjórn sé yfir þessari stofnun meðan hún er til, — ég vona að hún verði lögð niður fljótlega, þá eigi sú stjórn ekki að vera að úthluta hverju einstöku láni. Hún á að hafa yfirstjórn og leggja meginlínurnar, en síðan eiga að vera embættismenn, ópólitískir framkvæmdastjórar, sem sjá um einstök afgreiðslumál og hefja þau yfir pólitískar deilur, þannig að það sé ekki eftirsóknarvert af þm. eða stjórnmálamönnum að taka þær stöður að sér til þess að úthluta þessu fé.