20.11.1974
Efri deild: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

11. mál, launajöfnunarbætur

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm. segir að það hafi ekki borið á góma í þingflokki Alþfl. að nauðsyn bæri til að lækka gengið um 15% eða rjúfa tengsl verðlags og kaupgjalds, taka kaupgreiðsluvísitöluna úr sambandi, eins og sagt er, hvað þá heldur að Alþfl. hafi verið í raun búinn að samþ. þetta Ég vil nú biðja þennan hv. þm. að lesa sitt eigið málgagn og skýrslugerð um samningaviðræðurnar bæði í því málgagni sem og í málgögnum Alþb., og Framsfl. og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, en í öllum þessum málgögnum kom það fram, að um þessi efni voru allir þessir flokkar sammála. Ég get bent hv. þm. á orð í þessum blöðum, sem sanna mitt mál, og tef ekki aðra hv. þdm. frekar vegna þessa.

Varðandi ummæli hv. 7. landsk. þm. og fyrirspurnar hans um hver kaupmáttur bótaþega, sem njóta lágmarkstryggingarbóta, væru fyrir og eftir þessar ráðstafanir, þá vil ég geta um það að Þjóðhagsstofnunin hefur gert yfirlit um hvernig ætla megi að fari um kaupmátt kauptaxta verkamanna. Með því að lágmarkstekjutryggingarbætur hjóna, sem njóta ellilífeyris, eru nálægt því, sem er um verkamenn, eða þeim tekjum sem verkamannataxtar gefa hinum ýmsu í lægsta flokki, býst ég við, þá tel ég rétt að svara fyrirspurninni með því að geta um þessa áætlun Þjóðhagsstofnunar. Það er miðað við kaupmátt kauptaxta 100 árið 1973 á mælikvarða vísitölu framfærslukostnaðar. Þá er ársmeðaltal kaupmáttar kauptaxta verkamanna 1972 99.6. Ársmeðaltalið 1973 er 100, eins og áður segir. Talið er að ef hvort tveggja er tekið með í reikninginn, 4% söluskattsaukinn frá því í mars s.l. sem og áhrif skattkerfisbreytingar beinna skatta, þá megi telja kaupmátt kauptaxta verkamanna 1. ágúst s.l. 105.6. Ef við lítum á áhrif þeirrar lagasetningar, sem við erum hér um að ræða, þá verkar hækkun kauptaxta 10%, hækkun fjölskyldubóta og fyrirheit um skattaumbætur 11/2 – 2%, sem er að vísu vafamál hvort nýtist ellilífeyrisþega, en örorkulífeyrisþega með fjölskyldu geta nýst. Í þriðja lagi verkar lækkun niðurgreiðslna í sept. neikvætt 1.4%. Þá er grunnkaupshækkun 1. des. 1974 3%. Samtals er þetta aukning um 13.4%. Á móti kemur svo verðhækkun frá 1. ágúst 1974 til 1. febr. 1975 20.2%, þannig að áætlaður kaupmáttur kauptaxta verkamanna 1. febr. 1975 er 100 eða sá sami og ársmeðaltal 1973.

Það er rétt að það komi hér skýrt fram að því miður er ekki hægt að stefna hærra en svo að halda þeim kaupmætti sem var á s.l. ári. Það er því miður ekki hægt að stefna á 20–25% aukningu kaupmáttar á yfirstandandi ári þegar gert er ráð fyrir því að þjóðartekjur á mann lækki. Undir þeim kringumstæðum þegar viðskiptakjör landsmanna fara versnandi er ekki unnt að stefna á hærra mið en að vernda kaupmátt hinna lægst launuðu í þjóðfélaginn. Ef við teljum að tekjuskiptingin í þjóðfélaginu sé slík að unnt sé að færa frá hinum tekjuhærri til hinna tekjulægstu umfram það, sem gert er og tilgangurinn er með þessari löggjöf, þ.e.a.s. launahækkun fá ekki aðrir en þeir sem hafa í dagvinnukaup 53 500 kr. eða lægra á mánuði, þá þurfum við áreiðanlega töluverðan tíma til að kanna möguleikana á því. Það rennir enn stoðum undir þau rök að nauðsynlegt sé að vinna sér tíma með þessum lögum og verja gildistíma þeirra til þess að koma á varanlegum umbótum í efnahagsmálum og jafnari og réttlátari tekjuskiptingu í þjóðfélaginu heldur en hömlulaus verðbólguþróun hefur leitt yfir þjóðina á undanförnum árum.