04.03.1975
Sameinað þing: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2118 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

135. mál, bifreiðatryggingar

Heimir Hannesson:

Herra forseti. Í sambandi við þá þáltill., sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Benedikt Gröndal, Eggert G. Þorsteinssyni og Sighvati Björgvinssyni, og í framhaldi af þeirri ræðu, sem hv. fyrsti flm. hefur nú flutt, vil ég fyrst lýsa því yfir að ég held hún sé eðlileg og sé æskilegt að sú athugun fari fram, sem hv. þm. lagði til, og mun ég styðja hana þegar að því kemur. Hins vegar get ég ekki annað en látið í ljós nokkrar athugasemdir í sambandi við þessa þáltill. og þá grg. sem henni fylgir, vegna þess að mér finnst að í henni séu málin kannske fullmikið einfölduð og kannske fylgi ekki eins glöggar upplýsingar og æskilegt hefði verið.

Ég var nýlega kominn inn í þingið þegar þessi þáltill. kom fram, og hjó ég fljótlega eftir því að í grg. var tekið fram, eins og hv. þm. minntist á, að þetta kerfi hefði gefist mjög vel í Kanada. Svo vill til að ég hafði örlítið kynnt mér þetta mál þar og aflað mér frekari upplýsinga, og mér þykir leitt að þurfa að segja það hér að ég er hræddur um að þær upplýsingar, sem hv. þm. hefur lagt fram hér, séu mjög umdeildar. Ég held einmitt að þetta kerfi hafi að áliti margra alls ekki gefist vel og sé mjög umdeilanlegt. Það er síður en svo að það sé öruggt mál að íbúum Manitoba-fylkis hafi líkað það vel.

Ég fékk nýlega gögn í hendurnar sem lýstu því, að nú rétt fyrir s. l. mánaðamót áttu sér stað mjög miklar opinberar umræður í Kanada um þetta „Autopak“ og voru þær flestar í þá átt, að þetta tryggingakerfi hefði mistekist og því miður orðið til þess að auka hið opinbera bákn þar og iðgjöldin hefðu hækkað og hækkað. Til að byrja með var þessu mótmælt af forsvarsmönnum þessa ríkisfyrirtækis í Kanada, en síðan var viðurkennt að iðgjöldin hefðu hækkað miklu meira en búið var að gefa til kynna áður og hafði legið fyrir opinberlega. Þessar vikurnar er þetta mál því mjög til umr. og sýnist mönnum sitt hvað í þeim efnum.

Ég hygg að það sé ekki tilviljun, eins og hv. flm. minntist á, að þó að þetta tryggingakerfi hafi verið tekið upp í tveim mestu bílalöndum heimsins, þ. e. a. s. Bandaríkjunum og Kanada, þá taka menn eftir því að það hefur ekki verið tekið upp í Evrópulöndum þar sem er töluvert af bílum líka. Og það er sennilega ekki tilviljun að Norðurlöndin hafa ekki tekið þetta kerfi upp. Það mun m. a. stafa af því að það er annað réttarkerfi sem ríkir þar heldur en ríkir í Bandaríkjunum og Kanada. Ég vildi því minna á það, að því fer mjög fjarri að það liggi eitthvað fyrir um að kerfið hafi gefist mjög vel.

Í sambandi við þau ummæli hv. þm. að það sé alveg sjálfgefið að lögfræðingar séu andvígir kerfinu, þá vil ég nú mótmæla því. Ég held að lögfræðingar eins og aðrar stéttir séu ekkert sérstaklega fyrir það gefnir að vera að bæta við sínar miklu annir, þannig að ég held það sé ranglega ályktað hjá hv. flm. að það sé einhver sérstök árátta hjá þeirri stétt að auka störf sín, eins og gefið var til kynna, með því að efna til málaferla í þessu sambandi. Finnst mér það satt að segja heldur óviðkunnanleg ummæli í grg. hv. flm.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að efnisatriði þessara sérstöku trygginga í sambandi við þær upplýsingar sem ég hef tekið saman og aflað mér eftir að þessi þáltill. var lögð fram.

Í fyrsta lagi: Hvað er þessi „no aul“ vátrygging? Í fáum ríkjum Bandaríkjanna og nokkrum fylkjum Kanada hefur þessi trygging verið lögboðin. Hún greiðir bætur fyrir umferðartjón, en þó að takmörkuðu leyti. Nafn sitt dregur vátryggingin af því að hún greiðir bætur þó að orsök umferðartjóns verði ekki rakin til gáleysis eða mistaka eiganda eða stjórnanda bifreiðar sem hlut á að máli. Massachusetts er fyrsta ríkið í Bandaríkjunum þar sem þessi vátrygging var lögboðin vegna umferðartjóns og það nýmæli tók gildi, að því er mér skilst, í ársbyrjun 1971. „No fault“ vátrygging tekur ekki til tjóns á munum svo sem fyrr segir. „No fault“ vátryggingin í Massachussetts greiðir ekki meira en $2000 í bætur vegna hvers einstaklings sem slasast, og er þar bæði um að ræða bætur fyrir vinnutap og læknishjálp. Fari bætur fyrir læknishjálp fram yfir $2000 verður ekkert eftir handa tjónþola í bætur fyrir atvinnutjón. Bætur fyrir atvinnutjón eru einnig takmarkaðar að því leyti, að bótagreiðslur fyrir hverja viku, sem tjónþoli er óvinnufær, geta ekki orðið meiri en sem svarar til 75% af þeirri fjárhæð sem tjónþoli hefur haft í vikulaun á árinu fyrir slysið. Þetta litla dæmi sýnir að þetta er vissulega mjög takmarkað og á ekki að öllu leyti við í réttarkerfi okkar. M. ö. o. liggur það fyrir — ég skal ekki fara nákvæmar út í þetta atriði — að þessi svokallaða „no fault“ vátrygging leysir skaðabótakerfið alls ekki af hólmi nema að nokkru leyti. Af þessu leiðir m. a. að bifreiðaeigendum er nauðsynlegt að hafa ábyrgðartryggingu fyrir utan þessa „no fault“ vátryggingu.

Hins er að geta, að þessi sérstaka trygging greiðir bætur til mjög margra tjónþola sem ekki hefðu átt rétt á neinum bótum eftir venjulegum skaðabótareglum. Auk þess er það rétt, sem fram hefur komið, að það sparast geysimikill kostnaður við bótauppgjör vegna einföldunar á bótakerfinu. Iðgjöld af bifreiðatryggingum í Massachussetts hafa t. d. lækkað eftir að þessar reglur komu í lög. En það má ekki gleyma því, að verulegur hluti af iðgjaldalækkuninni stafar einfaldlega af því að bótaréttur tjónþola er á ýmsan hátt skertur frá því sem áður var. Og eins og ég sagði áðan í sambandi við reynsluna í Kanada, þá er síður en svo að iðgjöldin hafi lækkað, þau hafa mjög verulega hækkað. Og það er athyglisvert að ríkisstjórnin í Manitoba er nú þessar víkurnar að undirbúa löggjöf í sambandi við brunabætur þar sem gert er ráð fyrir frjálsri samkeppni tryggingafélaga á þessu sviði og að því leyti breytt algerlega um stefnu frá „Autopak“ kerfinu í sambandi við bílana.

Vissulega eru rök bæði með og móti í sambandi við þessa sérstöku tegund trygginga og mörg þessi rök eiga ekki við á Íslandi og í ýmsum löndum V-Evrópu, m. a. Norðurlöndum, sem hafa sambærilegt réttarkerfi og við höfum. Ég skal rökstyðja þetta með nokkrum orðum.

Í Bandaríkjunum t. d. er tiltölulega fátítt að bifreiðatryggingafélög greiði skaðabótakröfur fyrir líkamstjón með samkomulagi við tjónþola og/eða lögmann hans. Hér á landi lýkur flestum kröfum með frjálsum samningum. Aðeins lítið brot skaðabótamála fer fyrir dómstóla. Í 50 ríkjum Bandaríkjanna eru skaðabótareglur mjög mismunandi. Af þeim sökum verða einatt miklir erfiðleikar við meðferð bótakrafna. Í þriðja lagi: Á Íslandi eru skaðabótareglur vegna umferðartjóns miklu strangari en almennt gerist í Bandaríkjunum og Kanada og er réttur íslensks tjónþola að jafnaði meiri en þar gerist. í fjórða lagi: Í Bandaríkjunum gildir sú regla, að ef tjónþoli á einhverja sök á tjóninu sjálfur missir hann allan skaðabótarétt. Á Íslandi er reglan sú, eins og menn vita, að bætur eru lækkaðar þegar um eigin sök tjónþola er að ræða. Mjög sjaldgæft er hér að sök tjónþola sé talin svo mikil að hann fyrirgeri öllum skaðabótarétti.

Í Bandaríkjunum hafa gilt mjög mismunandi reglur um ábyrgðartryggingu bifreiða. Samræmdar reglur um gildissvið bifreiðatrygginga eru ekki til þar í landi. Auk þess er ábyrgðartrygging bifreiða ekki lögboðin í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Veldur það öryggisleysi fyrir þá sem tjón biða. Hér aftur á móti, sem og á Norðurlöndum, eru mjög fullkomnar lögboðnar ábyrgðartryggingar bifreiða. Á þéttbýlissvæðum Bandaríkjanna, eins og t. d. í Massachussetts, tekur meðferð dómsmála að jafnaði mun lengri tíma en hérna. Samræmi í dómum um bótafjárhæð er minni vestan hafs en hér, m. a. vegna þess að bandaríkjamenn hafa kviðdóma, eins og menn vita, og það veldur mun meiri óvissu um líklega niðurstöðu skaðabótamála. Þóknun lögfræðinga fyrir aðstoð við gerð skaðabótakrafna, samninga við bótaskylda aðila og meðferð dómsmála er gífurlega há miðað við íslenskar aðstæður. Eykur það mjög á allan kostnað við bifreiðatryggingar.

Í fáum löndum mun eins vel séð fyrir opinberum tryggingum, sem bæta kostnað við læknishjálp, sjúkrahúsvist o. s. frv., eins og gert er hér á landi, eins og hv. flm. vita mætavel. Vestan hafs hefur a. m. k. til skamms tíma verið algengt að margir þeirra, sem hafa slasast í umferðarslysum hafa ekki notið neinna almannatryggingabóta.

Ég vil að lokum ítreka það sem ég sagði hér áður að ég tel eðlilegt og æskilegt að sú till., sem hér liggur fyrir hv. d., verði afgr. og samþ., vegna þess að ég tel æskilegt að sú rannsókn sem hér er lögð til, fari fram. En ég vil jafnframt við þessa umr. koma því á framfæri að málið er engan veginn eins einfalt og látið er að liggja í grg. Eftir sem áður er sjálfsagt að þessi könnun fari fram í framhaldi af því, ef hv. þm. fallast á að sú þáltill., sem hér er til meðferðar, nái fram að ganga.

Herra forseti. Ég hef ekki þessi orð lengri að þessu sinni.