04.03.1975
Sameinað þing: 46. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

135. mál, bifreiðatryggingar

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að fara að lengja þessar umr. mjög mikið.

Það er alveg ljóst, eins og flm. hefur tekið fram, að það sem aðallega vakir fyrir okkur er að reyna að fá fram athugun á því hvort það megi gera bifreiðatryggingar á Íslandi bæði ódýrari og hagkvæmari.

Það fer ekki fram hjá neinum manni að neytendur þessara trygginga, þ. e. a. s. bifreiðaeigendur, eru mjög óánægðir með tvennt: í fyrsta lagi upphæð iðgjaldanna sem hafa farið stöðugt hækkandi, og í öðru lagi eru þeir tortryggnir á þau uppgjör sem hafa átt sér stað á tjónum hjá tryggingafélögunum. Og mig langar til að segja hv. þm. örstutta sögu í því sambandi sem bar mjög á góma fyrir eins og tveimur árum. Þetta mál var gert að miklu blaðamáli á sínum tíma og menn rekur sjálfsagt minni til þess. Þá bar það við að tveir reykvíkingar lentu í árekstri á bifreiðum sínum, og eins og vani er féll það í hlut tryggingafélaganna að úrskurða tjón. Það var gert eftir venjulegum reglum. En þessir menn voru kunningjar þannig að þeir hittust og báru saman bækur sínar, og þá kom í ljós að hvor aðilinn um sig hafði verið úrskurðaður í 75% órétti. Samtals nam þetta mat tryggingafélaganna því, að tjónið var ekki 100% tjón, heldur 150%, hvor aðilinn um sig í 75% órétti, í stað þess að dæma annan í 75% órétti og hinn þá að sjálfsögðu í 25% órétti. Með þessu var gerð tilraun til þess að hafa töluvert mikið fé af þessum bifreiðaeigendum þar eð þeir voru dæmdir til þess að bera hvor um sig 75% af tjóni sínu sjálfir. Þessir tveir menn fengu leiðréttingu sinna mála. Þetta var gert að blaðamáli miklu á þessum tíma. Það fengust ákaflega lítil svör frá tryggingafélögunum um hver væri ástæðan og reyndu þau að eyða þessu máli við blöð og opinberar fréttastofnanir eins og þau framast gátu.

Hitt held ég að fari ekki fram hjá nokkrum manni, að það er talsverð tortryggni ríkjandi með það uppgjörsfyrirkomulag sem tryggingafélögin hafa á. Ég er ekki að segja með þessum orðum, að það kunni að vera algengt að svona sé farið að í sambandi við uppgjörsmál á bifreiðatryggingum, en dæmin höfum við fyrir okkur. Þetta er ástæða til að taka til athugunar og reyna að leiðrétta og það er megintilgangurinn sem fyrir okkur vakir með flutningi þessarar till.