05.03.1975
Neðri deild: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (1710)

140. mál, gatnagerðargjöld

Frsm. (Gunnlaugur Finnsson) :

Hæstv. forseti. Í skýrslu, sem hefur verið gefin út af Framkvæmdastofnun ríkisins, er fjallað um áætlanir sveitarfélaga varðandi gatnagerð í þéttbýli og þær hugmyndir sem uppi eru um fjármögnun þeirra framkvæmda. Skýrslu þessari hefur verið dreift og hafa hv. alþm. fengið hana í hendur. Þar getur að líta að um risavaxið verkefni er að ræða. Miðað við verðlag 1. jan. 1975 er áætlað að það kosti 5 milljarða 773 millj. að leggja varanlegt slitlag á götur þéttbýlisstaða utan Reykjavíkur og Reykjaness. Er þar með talinn kostnaður við lagnir allar og frekari undirbúning gatnanna. Landshlutasamtökin hafa þegar innt af hendi mikið starf til skipulagningar og verklegrar útfærslu framkvæmdanna. Þau hafa og sett fram ákveðnar stefnumarkandi till. um fjármögnun þessara framkvæmda. Framkvæmdastofnunin hefur einnig sett fram hugmyndir um fjármögnun þeirra þótt ekki sé hægt að líta á þær hugmyndir sem formlegar till. stofnunarinnar. En allmikið ber á milli í hugmyndum þessum, ekki síst varðandi bein framlög sveitarsjóðanna umfram gatnagerðargjöld á framkvæmdatímanum sjálfum sem er áætlað að verði 10 ár. Enda þótt æskilegt væri að ræða þessar hugmyndir í heild nú, mun ég þó ekki gera það að sinni. Það er að vísu ekki bjart fyrir augum um framkvæmdir á vegum hins opinbera á þessu ári, hvorki ríkis né sveitarfélaganna, en það haggar engu um þá staðreynd að sú þróun, sem fram undan er í þessum málum, verður ekki stöðvuð. Og ég tel knýjandi að þessar hugmyndir, sem um er rætt til fjármögnunar, verði fljótlega teknar til meðferðar hér á Alþ. og þar mörkuð stefna sem unnið verði svo eftir á næstu árum.

Frv. það, sem hér er flutt, snertir aðeins einn fjármögnunarþátt þessara framkvæmda. Það er sameiginlegt báðum hugmyndunum sem ég nefndi áðan, að þar er gert ráð fyrir gatnagerðargjöldum sem verulegum tekjustofni er varið verði til framkvæmdanna eða sem næst 25% af framkvæmdakostnaði. Og ég vil taka það fram að þegar ég nefni hér gatnagerðargjöld, þá er að vísu talað um sérstök gatnagerðargjöld í þeim l. sem lagt er til að verði breytt, þ. e. a. s. gatnagerðargjöld sem lögð eru á og innheimt um leið og lóðaúthlutun fer fram og þegar leyfð er bygging húsa, en ég á raunar líka við þetta sérstaka gjald sem ekki hefur fengið nafn að ég viti. En orðið er yfirleitt líka notað yfir gatnagerðargjöld þar sem ætlast er til að lagt verði á fasteignir við götur þar sem varanlegt slitlag er. Með l. um gatnagerðargjöld, nr. 51 frá 16. maí 1964, er opnuð leið fyrir sveitarstjórnir til að leggja slíkt gjald á vegna lagningar varanlegs slitlags, enda hafi ráðh. staðfest reglugerð þar að lútandi. Er óhætt að segja að fjölmargar sveitarstjórnir tókust ótrauðar á við gatnagerðarverkefnin, létu leggja varanlegt slitlag á götur meðan unnið var að samræmdum reglugerðum fyrir sveitarfélögin. Sveitarstjórnirnar lögðu þann skilning í l. að ekki skipti máli á hvaða stigi framkvæmdirnar stæðu þegar samþykktir yrðu staðfestar, m. ö. o. svo að dæmi sé tekið að engin hætta væri á að eigandi húss nr. 10 slyppi við gatnagerðargjaldið, en eigandi hússins nr. 12 við sömu götu yrði að greiða fullt gjald. Enn fremur var sá skilningur víða uppi að ekki skipti máli hvort verkið var framkvæmt árið 1973 eða 1974, svo fremi gatnagerðargjald hefði ekki áður verið lagt á viðkomandi fasteign. Má í þessu sambandi minna á það, að á Austfjörðum var unnið verulegt átak 1973, á Vestfjörðum t. d. 1974. Þar var byrjað seint á sumri eða nánast að hausti og þess vegna stöðvað á miðjum götum og beðið næsta vors. En þegar fyrstu samþykktirnar á grundvelli laga þessara bárust félmrn. til staðfestingar taldi rn. orka tvímælis hvort orðun 4. gr. laganna heimilaði innheimtu gjalda samkv. 3. gr. vegna framkvæmda við bundið slitlag á götur og gangstéttir sem þegar hafði verið lagt fyrir gildistöku laganna. Þetta frv. er þess vegna flutt til þess að taka af öll tvímæli í þessu efni. Og það er álit margra sveitarstjórna að heimild til álagningar sérstaks gjalds samkv. 3. gr. laganna komi ekki nema að takmörkuðu gagni nema unnt verði að leggja slík gjöld á fasteignir við götur þar sem búið er að setja bundið slitlag á.

Ég geri mér grein fyrir því að heimild sú, sem hér um ræðir, kann að leggja sumum sveitarstjórnum vanda á herðar. Á það einkum við um þau sveitarfélög sem um áratuga skeið hafa lagt götur með varanlegu slitlagi. En ég hef ástæðu til að ætla að viðkomandi sveitarfélög muni nota slíka heimild mjög með sanngirni eða alls ekki, enda hafa gatnagerðargjöld verið innheimt, t. d. hér í höfuðborginni, um langan tíma.

Það er félmn. sem flytur þetta frv. að beiðni stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að fylgja brtt. sem fram kunna að koma eða flytja brtt. Ég legg til, virðulegi forseti, að þessu máli verði aftur vísað til félmn. er taki frv. aftur til meðferðar í ljósi þeirra umr. sem hér kunna fram að fara um það.