05.03.1975
Neðri deild: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2134 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Guðmundur H. Garðarsson:

Virðulegur forseti. Ég hafði vænst þess, að sjútvrh. sýndi þeim, sem eru á mælendaskrá, þá kurteisi að vera viðstaddur í sal þegar talað er um það mál sem hér er til umr. og mun ég hafa sama hátt á og 3. þm. Reykv. hefur haft að bíða þar til ráðh. gengur í salinn. — Ég sé að hæstv. sjútvrh. er genginn í salinn og mun þá flytja mitt mál.

Ræða hæstv. ráðh. s. l. mánudag vakti mikla furðu mína, svo að ekki sé meira sagt. Ég átti satt að segja ekki von á því að ráðh. fjallaði með þeim hætti um þetta mál sem hann gerði, og ég hafði ekki hugsað mér að taka aftur til máls um þetta mál sem hér er til umr., samræmda vinnslu á sjávarafla. Ég hafði þegar lýst yfir andstöðu minni við þetta frv. fyrir jól. En orð hæstv. ráðh. um frelsishugtakið og hjal okkar þm. Sjálfstfl. úr Reykjavík og annarra á þessu svæði um þetta — eins og hann orðaði það — úrelt hugtak í stefnuskrá Sambands ungra sjálfstæðismanna réð því að ég tek aftur til máls.

Ég vil í upphafi segja það, að það virðist vera afleitt að þetta „fjárans“ frelsi skuli vera að flækjast fyrir fótum valdamanna. En hvað skyldi frelsi koma víða fyrir í stefnuyfirlýsingu Sjálfstfl.? Hvað skyldu frambjóðendur Sjálfstfl. hafa notað þetta orð oft í ræðum sínum fyrir kosningar og milli kosninga? Ég mun víkja nokkuð að því hér á eftir og vil undirstrika það, að enn eru til þeir menn í Sjálfstfl. sem bera virðingu fyrir orðinu frelsi og því sem felst á bak við það hugtak. En ég verð hreinlega og hreinskilnislega að segja það og viðurkenna að ég skildi ekki þennan kafla í ræðu sjútvrh., þar sem hann fjallaði um þetta hugtak með jafnmikilli lítilsvirðingu sem hann gerði. 1. þm. Sjálfstfl. á Vestfjörðum, Matthías Bjarnason, sem hefur verið viðurkenndur einn skeleggasti málsvari einkaframtaks og athafnafrelsis, fór mjög óviðeigandi orðum um athafnafrelsið og þá menn sem vilja halda því í heiðri. Og ég vil segja það hér, að að óreyndu hefði ég ekki trúað því að ráðherrastóll gæti leikið jafngóðan dreng jafnilla og raun ber vitni um.

Ég vil lýsa því yfir að ég tel þetta frv. hafið yfir þá þröngu deilu sem kölluð er Blönduósdeila, því að þótt sú deila snerti að s;álfsögðu það „prinsip“-spursmál sem hér er til umr., sem er um hversu viðtækt athafnafrelsi skuli vera, þá er hún í sjálfu sér ómerkilegt mál, allt of ómerkilegt til þess að koma með frv. á Alþ. sem beinlínis gengur gegn þeirri meginstefnu Sjálfstfl. sem er fullt athafnafrelsi. Því, að lýsa yfir í sölum Alþ. að stefnuyfirlýsing eða samþykkt Sambands ungra sjálfstæðismanna varðandi athafnafrelsi tilheyri 19. öldinni og sé 19. aldar fyrirbrigði, er ekki hægt að láta ómótmælt af sjálfstæðismönnum hér á þingi, og ég harma þessi ummæli hæstv. ráðh. vegna þess að meginmarkmið í stefnu Sjálfstfl. er og hefur verið athafnafrelsi. Ég hefði satt að segja ekki átt von á því að maður þyrfti að rifja hér upp hver er meginstefna Sjálfstfl., en ég hlýt að gera það vegna þess sem á undan er gengið. Og með leyfi hæstv. forseta ætla ég að rifja hér nokkuð upp hvað segir um athafnafrelsi í stjórnmálayfirlýsingum og ræðum forustumanna Sjálfstfl. á liðnum árum.

Í stjórnmálayfirlýsingu landsfundar 1965 segir m. a.:

„Landsfundurinn ítrekar þessi meginmarkmið flokksins: ...3. Vinna að viðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og athafnafrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.“

Í sömu stefnuyfirlýsingu segir síðar: „Landsfundurinn felur miðstjórn flokksins, þingflokki og ráðh. á þeim tíma að vinna að: ... 7. Að einkaframtak verði örvað til forustuhlutverks í framfarasókninni og sem flestum þjóðfélagsborgurum veitt aðstaða til aðildar að atvinnurekstri.“

Í landsfundarályktun og stjórnmálayfirlýsingu landsfundar 1971 segir enn fremur: „Stefna Sjálfstfl. er grundvölluð á þeirri lýðræðishugsjón að einstaklingar og samtök þeirra hafi svigrúm til orða og athafna svo að frjáls hugsun og persónulegt framtak fái notið sín til heilla fyrir hvern einstakan þjóðfélagsborgara og heildina í senn.“

Í ræðu, sem einn mætasti forustumaður Sjálfstfl., Bjarni Benediktsson, flutti á landsfundi 1963, segir m. a.: „Undirrót alls, sem á hefur unnist, er að fólkið hefur fengið frelsi til að njóta manndáðar sinnar. Þrek þjóðarinnar, áræði, vinnusemi og vaxandi þekking hefur skipt sköpum fyrir Ísland. Án frjálsræðis, framtaks og þekkingar er Ísland lítt byggilegt.“

Ég læt nægja þessar tilvitnanir og vísa því til föðurhúsa að halda því fram að stefna Sjálfstfl. eða ungra sjálfstæðismanna tilheyri 19. öldinni.

Ég efast ekki um að það má margt lagfæra og betrumbæta í okkar athafnalífi. En eitt er víst, að þar eru ekki of margir einstaklingar sem hafa þor og áræði til þess að takast á við þann vanda sem er að sjá um atvinnureksturinn og vera í forustu á því sviði á Íslandi, og situr síst á okkur stjórnmálamönnunum að tala með lítilsvirðingu um slíka menn eða stefna að því að svigrúm fyrir einstaklinga verði sem allra minnst og í framtíðinni verði öll atvinnustarfsemi utan Stór-Reykjavíkursvæðisins annaðhvort í höndum sveitarfélaga eða samvinnuhreyfingarinnar með e. t. v. stuðningi og styrk ýmissa sjóða sem hv. Alþ. kann að hafa sett á laggirnar á hverjum tíma og ýmsir stjórnmálamenn fjalla um.

Að öðru leyti vísa ég til afstöðu minnar í ræðu 19. des. s. l. varðandi þetta mál, en þar lýsti ég mjög rækilega andstöðu minni við frv. En út af ummælum hæstv. ráðh. þar sem hann vék að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og talaði með hálfgerðu háði um afstöðu þeirra samtaka, vil ég aðeins segja þetta: Það vill svo til að þessi samtök eru stofnuð af frjálsum og óháðum einkaframtaksmönnum á sínum tíma. Þau eru frjáls og óháð, þau eru sérhverjum opin og getur sérhver gengið úr samtökunum. Þessi samtök voru fyrst og fremst stofnuð til þess að samræma sölustarfsemi fiskframleiðenda á erlendum mörkuðum á sínum tíma og þau voru stofnuð árið 1942, á styrjaldartímunum. Það hefur aldrei verið og er ekki stefnumarkmið þessara samtaka að koma í veg fyrir eða útiloka að aðrir geti hafið framleiðslu á hraðfrystum sjávarafurðum hér innanlands. (Sjútvrh.: En að selja þær?) Ég mun víkja að því. Ég geri ráð fyrir því að þótt ráðh. viti mikið um þessi mál, þá geti ég eitthvað upplýst hann nánar um þau. (Gripið fram í: Þetta verður fróðleg ræða hjá þér?) Er ráðh. ógeðfellt að flokksbróðir hans ræði þau? (Gripið fram í: Nei, nei, nei, nei.)

Það er mikill eðlismunur á því að skipuleggja sölu íslenskra afurða á erlendum mörkuðum í harðri samkeppni við stórfyrirtæki í erlendri eign eða stefna að því með frv. hér á Alþ. að útiloka að einstaklingar geti sett á laggirnar fyrirtæki, hvort sem er í sjávarútvegi eða fiskiðnaði, eftir því hvar þau eru staðsett. Það er eðlismunur á því að keppa á erlendum mörkuðum við stórfyrirtæki, sem hafa mikið fjármagn og sterkt skipulag og selja í sameinuðu átaki, en í opnu og frjálsu fyrirtæki, eða stefna að því að láta ríki eða ráðh. ákveða líf og örlög fyrirtækja eða manna hérlendis. Það er þess vegna útúrsnúningur hjá ráðh. að blanda samtökunum inn í þetta mál með þeim hætti sem hann gerði í ræðu sinni s. l. mánudag. Ég vil vekja athygli á því að það er ekki rétt hjá ráðh. að Sölumiðstöðin eða Sjávarafurðadeild SÍS hafi haft einhverja einkasöluaðstöðu í sambandi við sölu hraðfrystra sjávarafurða frá Íslandi allt frá 1961. Það er ekki við þessi fyrirtæki að sakast ef þau hafa staðið sig betur en aðrir aðilar sem hafa selt frystan fisk eða sjávarafurðir á sama tíma. Það hafa margir aðilar selt hraðfrystar sjávarafurðir á erlendum mörkuðum síðan 1961 og ég get talið þessa aðila upp nú.

Það var á sínum tíma fyrirtæki stofnað hér sem hét Atlantor hf. Kannast hv. þm. við það fyrirtæki? (SvH: Hvað?) Atlantor hf., Sverrir Hermannsson. Það var hér einkaútflytjandi sem flutti út frystar sjávarafurðir og hét Friðrik Jörgensen. Það var hér útflytjandi sem hét Árni Ólafsson. Og það er hér aðili sem enn flytur út frystar sjávarafurðir, sem heitir Bjarni Magnússon. Þessir aðilar hafa haft frelsi og höfðu frelsi til þess að selja frystar sjávarafurðir við hliðina á þessum samtökum, þannig að það er ekki rétt að segja að þau búi við eitthvert einokunar- eða einkasölukerfi. Ef menn þola ekki að þessi frjálsu samtök hafi staðið sig betur, í þessu tilfelli Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, þá er það slæmt. Hversu mörg fyrirtæki hafa flutt út hraðfrysta rækju? Þau eru mjög mörg eftir því sem ég veit best. Þannig mætti halda áfram og vekja athygli á því að það eru margir aðilar sem flytja út aðrar tegundir sjávarafurða, t. d. skreið, fiskimjöl, lýsi o. s. frv. Nei, ég held að við verðum að þola það ef aðilar, sem hafa myndað frjáls samtök, eru beðnir um að gefa umsögn um frv. hér á Alþ. Þótt umsögnin sé ekki alveg eins og við höfðum óskað eftir henni, þá verðum við að þola skoðanir þeirra án þess að sé verið að hæðast að starfsemi þeirra, hvort sem það eru sölusamtök eða einstök fyrirtæki.

Að lokum vil ég ítreka fyrri skoðun mína og álit varðandi það frv. sem hér er til umr. Ég tel að frv. þrengi athafnafrelsi enn meir í sjávarútvegi og fiskiðnaði. Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að ef það verður að lögum, þá geti það skapað óæskilegt fordæmi og orðið hættulegt í höndum óvandaðra manna. Í þriðja lagi, verði takmörkunarstefna þessi útfærð enn meir og færð inn á önnur svið sjávarútvegs og fiskiðnaðar, mun það hafa afar óæskileg áhrif fyrir íslensku þjóðina. Það mun draga úr athafnafrelsi, framförum og viðleitni einstaklinga til stórra sjálfstæðra átaka hvar sem er á landinu. Þessari stefnu mun fylgja samdráttur á því mikilvæga sviði sem sjávarútvegur og fiskiðnaður er, og mun gersamlega taka fyrir það að einstakir athafnamenn, sjómenn, skipstjórar og útgerðarmenn, hafi þrek eða þor til að ráðast í að stofna einkafyrirtæki á þessu sviði. Í fjórða lagi er það mín skoðun að frv. veiti rn. og viðkomandi ráðh. of mikið vald til þess að ákveða líf og örlög manna í sambandi við fiskvinnslu í landinu.

Ég var kjörinn á þing sem frambjóðandi fyrir flokk sem hefur athafnafrelsi sem grundvallar- og meginstefnuskráratriði. Ég tel að þetta frv. gangi gegn þessari meginstefnu. Með framangreint í huga og það sem ég hef áður sagt, lýsi ég enn yfir andstöðu minni við frv. Ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. gegn því og ég vænti þess að aðrir hv. alþm. geri hið sama og virði það meginsjónarmið sem hefur ríkt ekki aðeins í Sjálfstæðisfl., heldur einnig í öðrum flokkum til þessa, að athafnafrelsið verði haft í heiðri og það verði ekki sett hér lög sem skerða það meir en orðið er.