05.03.1975
Neðri deild: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2146 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Hæstv. forseti. Ég hygg að það séu þrír sjútvrh., sem sitja á þingi, tveir fyrrv. og einn núv., og ég býst við að þótt þeir geti ekki verið sammála, þessir þrír menn, um marga hluti, þá eru þeir örugglega sammála um það að margt af því sem á þá er lagt í löggjöf vildu þeir gjarnan hafa verið lausir við til þess að hafa heldur náðugri daga. En það er þannig að löggjöfin leggur framkvæmdavaldinu á herðar ýmis ákvörðunaratriði sem kölluð eru nú á máli sumra manna skerðing á frelsi. Þessi skerðing á frelsi er með margvíslegum hætti. Ég held að löggjöfin, sem enn er í gildi um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi, hafi verið samþ. af þm. úr öllum flokkum, bæði Sjálfstfl. og Alþb., sem sagt flokki einkaframtaksins og flokki sósíalismans .og öðrum flokkum. Í þessari löggjöf er verið að gefa ráðh. svo fjölmargar heimildir til takmarkana á hinum ýmsu sviðum, heimild til takmarkana sem enginn ráðh. hefur neina sérstaka ánægju að hafa, en einhver verður að hafa hana. Það er sagt að ráðh. sé heimilt að takmarka togveiðiheimildir þær, sem veittar eru í þessum lögum, á tilteknum svæðum með auglýsingum um sérstök veiðisvæði fyrir línu eða net sem gilda skuli um takmarkaðan tíma. Það er sagt að ef seiða- eða smáfiskadráp eigi sér stað í ríkum mæli og sé varhugavert eða hættulegt, þá skal sjútvrn. að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar gera nauðsynlegar ráðstafanir til að sporna við því. Þá er rn. heimilt með tilkynningu að loka afmörkuðum veiðisvæðum um lengri eða skemmri tíma fyrir öllum togveiðum. Er það ekki skerðing á frelsi togveiðiskipanna svo og öðrum veiðum ef nauðsynlegt þykir?

Það eru ákvæði um að leyfi til síldveiða með botnvörpu og flotvörpu skuli bundið því skilyrði að hlutaðeigandi veiðiskip sé gert út til síldveiða, auk þess getur ráðh. bundið leyfið öðrum þeim skilyrðum sem hann telur nauðsynleg. Nú er bann við öllum síldveiðum. Er þetta ekki skerðing á frelsi? Menn vita að það er til síld. Það er til síldarstofn sem nú er að vaxa upp. Hvers vegna ekki að hleypa öllum bátum í hann? Er þetta ekki skerðing á frelsi?

Leyfi til loðnuveiða með botnvörpu og flotvörpu getur ráðh. bundið skilyrðum sem hann telur nauðsynleg.

Leyfi til spærlings- og kolmunnaveiða með botnvörpu og flotvörpu getur ráðh, bundið þeim skilyrðum sem hann telur nauðsynleg, og hefur algerlega óbundnar hendur.

Það er yfirleitt á öllum sviðum með dragnótaveiðarnar, að leyfi til dragnótaveiða skv. slíkri ákvörðun má veita íslenskum fiskiskipum sem eru 45 rúmlestir brúttó eða minna. Hvers á skipið, sem er 46 rúmlestir, að gjalda? Af hverju er verið að svipta það þessu frelsi, eða 47, 48 eða 49 rúmlesta skipin? Hvað segja frjálsræðismenn um þessa ofboðslegu skerðingu á frelsinu?

Hvað er að ske hjá þessum mönnum? Vita þeir ekki að það eru margvíslegar takmarkanir gerðar á frelsi einstaklingsins? Ef maður á peninga sem hann vill lána út, hvers vegna má hann ekki lána þá með þeim vöxtum sem hann getur fengið fyrir þá? Það er skerðing á hámarksvöxtum, annað er kallað okur. Ætla svo þessir menn að halda því fram að þessi skerðing öll sé gagnstætt því sem Sjálfstfl. hafi markað og fyrrv. forustumenn flokksins hafa staðið að og einnig þeir ræðumenn, sem hafa verið hér í pontunni, í sumum tilfellum?

Það er skerðing á loðnuveiðunum núna. Það er hart að það er n., opinber n., það er miðstjórnarvald sem segir til um, hvar skipin eiga að landa, og skipuleggur veiðarnar. Það væri dálaglegt ef þeir keyrðu allir af kappi, eins og olíuverðið er núna, til einhvers tiltekins staðar þar sem tiltekin verksmiðja er og þar yrði allt yfirfullt, en aðrar verksmiðjur stæðu tómar. Allir aðilar hafa fallist á að taka slíkt skipulag upp, en það fær ekki hver og einn að ráða alveg eins og hann vill.

Ég endurtek það sem ég sagði hér siðast, ég er einstaklingshyggjumaður, en ég er jafnframt félagshyggjumaður. Ég er ekki sammála því að það eigi allir að hafa fullt frelsi til allra þeirra hluta sem þeir óska og vilja. Og þar skilur kannske á milli feigs og ófeigs í þessum umr.

Hv. 6. landsk. þm. las hér upp úr landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. Ég tel að það, sem við erum að gera, og það, sem ég hef verið að vitna hér til, sé ekkert brot á þeim landsfundarsamþykktum sem Sjálfstfl. hefur gert bæði fyrr og siðar. Ætlar þessi hv. þm. að leyfa sér að kalla Ólaf Thors sósíalista eða svikara við einkaframtakið þegar hann gaf út lög um bann við sölu á saltfiski og veitti einum aðila einkaleyfi til útflutnings, vegna þess að þá ríkti svo ofboðslegt skipulagsleysi í þessum efnum að landið var hreinlega að fara á höfuðið? Þá var saltfiskurinn eina útflutningsatvinnugrein okkar íslendinga og það varð að grípa til þessa ráðs. Þar var ekki um neinar deilur að ræða á milli sjálfstæðismanna og sósíalista, það varð að grípa til þessa ráðs.

Þetta mál, sem hér er til umr., virðist hafa farið í hinar fínu taugar örfárra manna og að ég skyldi leyfa mér að flytja ræðu við 2. umr. málsins eftir að búið var að messa hér fyrir jólin yfir mér fjarstöddum, þar sem ég var bundinn við umr. í Ed., sennilega á þriðja klukkutíma, og ég hafði ekki talað orð um málið frá því að ég lagði það fram við 1. umr. þess hér í hv. þd. Hv. 11. þm. Reykv. lét að því liggja að ég mætti ekki láta þetta fara í skapið á mér og ég yrði eiginlega bara að þegja, svona allt að því.

Ég tók það þannig, að það væri á þennan hátt verið að benda mér á að ég ætti ekkert að vera að tala í þessu máli. Ég hugsa að þó að þessi hv. þm. sé mikið skapstillingarljós og eigi ljúfa og létta lund og eigi ákaflega bágt með að þegja þegar á hann er ráðist, þá efast ég um að meira að segja hann hefði getað staðið af sér undanfarna mánuði öll þau skrif, nart og níð sem er búið að viðhafa, bæði um mig persónulega og þá starfsmenn sem með mér vinna í sjútvrn. En ég hef staðið þessi ósköp öll af mér og það eina, sem ég hef látið til mín heyra, var þessi ræða, sem ég held ég hafi flutt á mánudaginn og gaf tilefni til ókyrrðar hjá þessum yndislegu og elskulegu flokksbræðrum mínum.

Ég ætla að leyfa mér að segja bæði þeim og öðrum, að ef mér er trúað fyrir einhverjum málum, að reyna að stjórna þeim, þá reyni ég eftir bestu getu að stjórna þeim á þann hátt sem ég tel að sé sanngjarnt að gera. Það hefur verið illt og erfitt og sennilega ómögulegt að koma á fullkomnum sáttum á þessu svæði, því miður. Þar er harka mikil, en ég bjóst ekki við mörgum þeim orðum sem hv. 2. þm. Norðurl. v. lét falla í minn garð í þeim efnum, eftir þá svokölluðu sáttargerð, sem ég tók á mig í óþökk margra að gera við bát sem gerður var út frá Blönduósi og hafði verið sviptur rækjuveiðileyfi. Þá blossar upp eldurinn á öðrum stöðum. Nú er hótað að nú skuli vera virt að vettugi þó að veiðikvóti báta á þessum stöðum sé búinn, því að þeir ætla að halda áfram, fyrst sjútvrn. hafi samið um eða sæst á að leyfa þessum bát að fiska 30 tonn af rækju. Ég sé í Þjóðviljanum í morgun — og ég vil nú ætla að það sé alveg satt og rétt — að skagstrendingar hafi nú í hótunum um að halda veiðum áfram þegar þeir hafa lokið við að veiða í sinn kvóta af því að Nökkvi, þessi margumtalaði, eigi eftir að veiða eitthvað af þessum 30 tonnum. Mér var sagt frá Hólmavík að svipað væri þar uppi. Þetta er afskaplega skemmtilegt mál og mjög létt viðureignar, og því er ég afskaplega þakklátur þeirri gagnrýni sem fram hefur komið frá þessum elskulegu og góðu flokksbræðrum mínum hér áðan.

Ég treysti mér ekki til, þegar komið var fram að þeim tíma að veita rækjuveiðileyfi almennt, þegar menn höfðu keypt báta í trausti þess að fá þessi leyfi, og þá átti ég ekki við Húnaflóasvæðið eitt, heldur önnur rækjuveiðisvæði einnig, að neita öllum þeim bátum um rækjuveiðileyfi. Þegar þeir höfðu engan fyrirvara og bjuggust við að það mundi gilda sama og áður, að veiðileyfin yrðu ekki takmörkuð neitt að ráði, þá treysti ég mér ekki til að segja: Það skulu ekki aðrir fá leyfi en þeir sem höfðu leyfi vertíðina á undan. — Þetta tók ég fram í ræðu minni, en þessi hv. þm. kom samt á ný með gagnrýni á mig fyrir það, að ef ég hefði ætlað að gera eitthvað skynsamlegt, þá hefði ég átt að neita öllum nýjum umsóknum.

Ég hef í hyggju, ef ég verð áfram sjútvrh., að auglýsa það að rn. muni ekki fjölga veiðileyfum á tilteknum rækjuveiðisvæðum. Þá á ég við Arnarfjörð, Ísafjarðardjúp og Húnaflóa. Ástæðan fyrir því er sú, að það er samdráttur í þeim veiðikvóta sem Hafrannsóknastofnunin leggur til og sjútvrn. fer eftir — ekki undantekningalaust, því að ég gerði undantekningu nú um daginn hvað snertir 30 tonn og það er ég sem er einn sekur um það, því að Hafrannsóknastofnunin hafði heimilað fyrst veiðar í Húnaflóa 1500 tonn og jók svo þessa veiðiheimild í till. til rn. um 300 tonn, þannig að hún lagði til að það yrðu veidd 1800 tonn af rækju á Húnaflóasvæðinu. Það hafði náðst fullt samkomulag á milli þeirra fjögurra staða, sem áður höfðu veitt rækju, um skiptingu á þessum afla, þannig að 50% fóru til strandamanna og 50% til húnvetninga á þær tvær rækjuverksmiðjur sem fyrir voru þegar leyfin voru fyrst gefin út í haust, þ. e. á Hvammstanga og Skagaströnd. Þessum ákvæðum vildi ég á engan hátt breyta og ekki eiga neitt á hættu að menn færu að gera úlfalda úr því, og þegar þessi réttarsátt var gerð í Nökkva-málinu, þá hvarflaði ekki að mér að draga 1–2 tonn af öllum öðrum bátum við Húnaflóa, en óskaði eftir því við Hafrannsóknastofnunina að hún léti átölulaust eða mælti með að auka þennan kvóta um 30 tonn, sem stofnunin eða viðkomandi maður í stofnuninni varð ekki við. Það var annaðhvort um það að ræða að afgr. þetta mál þá eða ekki og ég tók þá ákvörðun, og það er þá mín sök ef menn vilja saka einhvern um þessi 30 tonn umfram. En vísindamenn geta ekki sannfært mig um það að stofninn í Húnaflóa sé í hættu þótt það hafi verið bætt um 11/2 % við þann kvóta á þessum vetri sem þeir sjálfir lögðu til.

Hv. 6. landsk. þm. sagði að líf og örlög manna í fiskvinnslu og sjávarútvegi lægju við í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Það er ekkert lítið tekið upp í sig. Þetta eru engir smámunir. Ég kalla það gott ef hann getur kyngt þessum orðum, en þau standi ekki föst í honum. Hver er að tala um að takmarka nokkurn skapaðan hlut í sambandi við fiskvinnslu að öðru leyti en snertir þessar tvær sjávarafurðir, rækju og hörpudisk? Ekki nokkur maður. Þetta litla frv. skapar ekki minnsta fordæmi, það er alger vitleysa að telja að það skapi fordæmi gagnvart almennum fiskveiðum.

Mig langar að koma inn á eitt sem 11. þm. Reykv. nefndi, sem ég held að hann misskilji algerlega. Hann segir að ég hafi sett ákvæði í reglugerð í þessum efnum. Ég hef engri reglugerð breytt. Það, sem ég gerði, er að ég fór eftir lögum sem ég vitnaði hér í áðan, þar sem ráðh. hefur svona óskorað vald og þar segir:

„Ráðh. getur veitt undanþágu til að stunda rækjuveiðar á tilteknum svæðum. Skal binda leyfið þeim skilyrðum sem nauðsynleg þykja. Einnig er heimilt að miða leyfisveitingar við ákveðnar stærðir báta.“

Þetta er eins rúmt og það getur verið. Það, sem ég gerði, er að ég veitti rækjuveiðileyfi eða sjútvrn., nákvæmlega eins og fyrirrennarar mínir í ráðherrastól hafa gert, að öðru leyti en því að í rækjuveiðileyfin við Húnaflóa var bætt inn í: „enda landi þeir á viðurkenndri vinnslustöð“. Það er alveg rétt, að á bak við það var að vinnslustöðvum væri ekki fjölgað frá því sem nú er. Ef við tölum um frelsi einstaklingsins til athafna og dáða, þá held ég að hver og einn, sem vill hugsa í alvöru um þessi mál, hvaða stjórnmálaskoðun sem hann hefur, geti ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri, að þegar veiðar eru takmarkaðar á jafnstrangan veg og gert er um þessar veiðar, þegar veiðimagnið er minnkað af faglegum ráðgjafa rn. ár frá ári, þá hlýtur það að hafa í för með sér, ef vinnslustöðvum er fjölgað, ef bátum er fjölgað við þessar veiðar, að þá verði meðalafli hvers báts mun minni en ella, þá verður það magn, sem hver vinnslustöð fær til vinnslu, minna. Það gerir það að verkum að vinnan á tilteknum svæðum og kauptúnum styttist, atvinnuleysið gerir fyrr vart við sig á þessum stöðum sem byggja að verulegu leyti afkomu sína á þessari vinnslu á þessum tíma árs. Þá sjáum við aftur fram á það sem var hér fyrir allmörgum árum við Húnaflóann, á Hólmavík og Drangsnesi og á Skagaströnd og einnig á Hvammstanga. Það er alveg rétt sem fram hefur komið, að það er ekki næg atvinna á Blönduósi. En þar sem skortir á að auka atvinnu, eins og á Blönduósi, verður það ekki gert á þann veg að minnka atvinnuna hjá nágrannabyggðarlögunum. Það er röng stefna. Það er ekki hin rétta frjálsræðisstefna sem þar er að verki. Við erum meiri frjálsræðismenn ef við stuðlum að óbreyttri atvinnu á hinum stöðunum sem byggja lífsafkomu sina á þessum atvinnuvegi, en tökum aftur mannlega og skynsamlega á málefnum og vandamálum þess staðar sem ekki hefur þessa vinnslu.

Sjútvrh., hver sem hann er, hefur í hendi sér að takmarka þessar veiðar eins og ég hef þegar lýst og margoft lýst yfir. Þær eru takmarkaðar, hafa kannske ekki verið nógu takmarkaðar, en þar er ég ekki að ásaka fyrirrennara mína í ráðherrastóli, þeir hafa farið í öllum tilfellum eftir Hafrannsóknastofnuninni. Hún hefur kannske ekki haft nógu fullkomna yfirsýn, því að hún hefur verið að þreifa sig áfram, hvað er skynsamlegt að gera á hverjum tíma, og því er ég ekki heldur að ásaka hana. En það, sem liggur núna fyrir, er að nú er dregið úr möguleikunum að veiða þennan margumdeilda skelfisk. Það er verið að minnka þetta aflamagn, og í kjölfar þess væri rangt að fjölga bátum og fjölga vinnslustöðvum að mínum dómi. Ég vil taka hér upp, eins og er í gildandi lögum, skipulag með veiðum, að samræma vinnslu sjávarafla þessara tveggja tegunda veiðunum, og ég tel það engan kommúnisma eða sósíalisma eða nokkurs konar isma að samþ. þetta frv.

Það er rétt, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði, að frv. taka oft breyt. í Alþ., stjfrv. einnig, og þá semja yfirleitt þm. um þær breyt. sem þeir telja nauðsynlegt að gera á frv. sem lögð ern fram. En þegar þm. eða ráðh. leggur fram í sínum þingfl. mál. þá er til þess ætlast að þeir, sem eru á móti málinu eða hafa einhverjar aths. fram að færa, láti það koma fram strax. Í haust, þegar ég bar þetta frv. upp í þingfl. Sjálfstfl. áður en það var lagt inn til prentunar, þá var aðeins einn þm. sem sagðist vilja hafa fyrirvara varðandi afgreiðslu þessa máls. Sá þm. talaði við umr. fyrir jólin, 3. þm. Sunnl. Aðrir þm. höfðu engar aths. fram að færa. Ég hef litið svo á — þetta er 13. árið mitt á þingi — að þegar ég hef samþ. með þögninni flutning á frv. í mínum flokki, hvort sem það hafa flutt ráðh. eða þm., þá hef ég litið á það sem skyldu mína að styðja það frv. stefnulega séð í öllum höfuðdráttum. Hitt er svo annað mál að það má alltaf gera einhverjar breyt. á frv., og þær litlu brtt. sem sjútvn. Nd. leggur hér fram, meiri hl. hennar, eru ekki nema sjálfsagðar og eðlilegar.

En ég vil líka segja þessum elskulegu, góðu flokksbræðrum mínum það, að það hefur ekki verið keyrt á mikilli ferð, þetta frv., og menn hafa haft góðan tíma að hugsa og skoða málið, því að þetta er 33. mál sem lagt var fram á Alþ., en ég held að það séu komin fram nálægt 180 mál og frv. er enn í 2. umr. í fyrri d. En ég ætla nú að segja það, að ég er orðinn leiður á hvað gengur seint með afgreiðslu þessa máls og ég ætla ekki að enda ræðu mína á sama hátt og hv. 6. landsk. þm. sem flutti mikla hvatningu til alþm. allra, fyrst sjálfstæðismanna og síðan til allra hinna, að gera það nú fyrir sig og frelsið að fella þetta frv. Þetta var mikil og ógleymanleg kennslustund sem hv. þm. hafði hér í dag. Það er leitt þegar skoðanir manna eru í marga mánuði að breytast. En hinu eiga menn ekki að blanda saman, að túlka málefni einhverra fyrirtækja eða stofnana, sem þeir vinna hjá, og þingmennsku. Ég leyfi mér að hafa mínar skoðanir á ályktun Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, hvaða skoðun sem Guðmundur H. Garðarsson hefur, og hann má hafa hvaða skoðun sem hann vill á málefnum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. En þótt ég hafi verið og sé stuðningsmaður bæði SH og sjávarafurðadeildar SÍS í sambandi við útflutning á freðfiski, þá tel ég hvoruga þessa stofnun vera heilaga kú, sem ekki má minnast á, og engin sölusamtök. Ég tel að það megi margt betur fara hjá öllum, bæði hjá sjálfum mér og öðrum, að það sé enginn það fullkominn að það megi ekki aðeins minna á, en þetta er í fullu ósamræmi við það sem þessir sölumenn eru að fara fram á þegar þeir senda þessa umsögn frá sér.

Ég spyr þennan hv. þm. — að vísu er hann nú búinn að tala út í málinu — hvað á það að þýða að takmarka fjölda leigubifreiða í þéttbýli? Er það ekki takmörkun á athafnafrelsi þeirra annarra sem hafa ökuleyfisréttindi? Eru ekki þessar takmarkanir alls staðar? Eiga ekki þessar frelsishugmyndir sín takmörk? Ég frábið mig því að mínir þingbræður og flokksbræður séu að láta liggja að því að ég sé einhver óvinur einkaframtaks þó að ég vilji hafa skipulag á milli vinnslu og veiða í afla sem er jafntakmörkuð veiði á og raun ber vitni um og ég hef margoft sagt frá. Ætli það hefði ekki verið skynsemi í því að takmarka eitthvað rækjuverksmiðjustofnanir hér á Suðurnesjum sem ruku upp á örskömmum tíma og síðan vorn rækjuveiðarnar bannaðar og grundvöllur þeirra hrundi algerlega jafnfljótt og þær voru byggðar. Ég held að þar hafi bæði gagnvart einstaklingum og lánasjóðum verið veitt of mikið fjármagn. Það er oft betra að fara hægara í sakirnar og byggja á einhverju raunhæfu bæði í sambandi við veiðar og vinnslu. Það er þetta sem ég vil koma í veg fyrir. Hver, sem verður sjútvrh., þá trúi ég því ekki, þó að ég sé slæmur að dómi þessara ágætu manna, þegar næsti sjútvrh. kemur, að hann verði svo slæmur að hann muni misbeita þessu valdi. Ég held að það verði ekki sagt um þá menn sem hafa gegnt embætti sjútvrh. og hafa fengið þetta mikla vald í hendur í lögunum sem ég var að vitna í áðan, að þeir hafi misbeitt þessu valdi. Hins vegar hafa þeir oft orðið fyrir ákúrum og mótmælum frá hinum ýmsu hagsmunahópum, þegar hagsmunir hafa rekist á, og hjá því verður aldrei komist.