06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

317. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Í tíð fyrrv. ríkisstj. var sett á fót n. til að endurskoða og gera till. um breytta verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í samræmi við stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstj. og samkv. yfirlitsræðu þáv. hæstv. forsrh. í upphafi þings um haustið 1973 mátti vænta einhverrar niðurstöðu af störfum þeirrar n. á því þingi. Af því varð þó ekki. Núv. stjórnarflokkar hafa báðir lýst sig eindregið fylgjandi þeirri stefnu að breyta verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og auka sjálfsforræði sveitarfélaganna. Full ástæða er því til að ætla að einhverjar raunhæfar till. og framkvæmdir sjái dagsins ljós í valdatíð núv. ríkisstj.

Mín skoðun er sú, að hér sé um að ræða eitt allra stærsta viðfangsefni stjórnvalda. Ég hef verið talsmaður dreifingar valds í þjóðfélaginu, og ég tel að þetta sé ein árangursríkasta og áþreifanlegasta leiðin til slíkrar valddreifingar. Breytingar í þá átt að auka sjálfsforræði sveitarfélaga féllu sjálfsagt í góðan jarðveg hjá almenningi, og þær geta líka verið þáttur í þeirri viðleitni að draga úr umsvifum ríkisins og draga úr ríkisútgjöldum sem hvort tveggja getur haldist í hendur við skammtíma-efnahagsaðgerðir og frambúðar-markmið í stjórnarstefnunni. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur nýlega birt í tímariti sínu athyglisverðar till. um þetta sama efni. Af þessu tilefni hef ég lagt fram eftirfarandi fsp. til hæstv. félmrh.:

„Hvað líður endurskoðun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og hvaða ráðagerðir eru uppi í þeim efnum?“