06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (1724)

321. mál, bættar vetrarsamgöngur

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir mjög ítarlegt og greinargott svar við þessari fsp. Það kom fram í máli hans, að það hefur þegar verið unnið að endurskoðun á reglum um snjóruðning og var ekki vanþörf á, því að þær reglur hafa gilt í meira en áratug og veru settar löngu áður en sú skipan var tekin upp að hafa heilsugæslumiðstöðvar í stórum héruðum á ákveðnum stöðum sem menn þyrftu að geta komist til og frá á landi á vetrum eins og yfir sumartímann. Á sama hátt voru þessar reglur settar áður en tekin var upp sú regla að aka börnum að og frá skóla í strjálbýlinu, þannig að það var ekki vanþörf á að endurskoða þessar reglur, auk þess sem þær voru víða á alfaraleiðum mjög ófullnægjandi. Það er því fagnaðarefni, þrátt fyrir að nú syrti í álinn í okkar þjóðarbúskap, að hér skuli þó vera stefnt að því að betrumbæta þá þjónustu sem menn hafa hingað til mátt búa við í þessu efni.

Ég vil einnig þakka hæstv. ráðh. fyrir hvað hann fór hér ítarlega yfir þann tækjakost, sem við höfum haft í sambandi við snjóruðning af vegum. Kom greinilega fram í hans máli eða í skýrslu Vegamálaskrifstofunnar, að það er nauðsynlegt að hyggja að því að fá í viðbót við það, sem við höfum núna, þau tæki sem best duga í þessu sambandi. Það má ekki horfa í beinan kostnað sem er við það að þessi tæki vinni, vegna þess að þessi nýju tæki, snjóblásararnir, eru það miklu afkastameiri en þau tæki sem við höfum notað nú um sinn, að það getur verið beinlínis sparnaður að því að afla þessara tækja og geta þá unnið þessi verk á miklu hagkvæmari hátt en verið hefur, en um leið stórlega bætt þjónustu við fólk sem býr úti í strjálbýli.

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þessi svör og vænti þess, að við gerð vegáætlunar verði stefnt í þá átt sem fram kom í hans máli.