06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

322. mál, vetrarsamgöngur á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. samgrh., að þessi fsp. frá mér snertir nokkuð þá fsp. sem áður hefur verið hér rædd frá Lárusi Jónssyni. Þessi fsp. var reyndar borin fram í lok jan. þegar ég var nýkominn úr öllum sjónum þar austan að og 1. liðurinn er því nú að nokkru óþarfur, nema þá vegna þeirrar reynslu sem við fengum af því ástandi sem þá ríkti og svo því kannske að það er farið að snjóa gráðugt aftur á Austurlandi nú

og sama ástand getur skapast. Ég hygg að það geti það auðveldlega, því að það mun ekki hafa verið neitt þar úr bætt í millitíðinni.

Ég ætla þó aðeins að rifja upp staðreyndir í sambandi við þetta, hverjar ástæður lágu fyrir þessu.

Það er í fyrsta lagi um samgöngur milli þeirra staða þar sem snjómokstri er þó haldið uppi nokkurn veginn reglulega, t. d. milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar, en reyðfirðingar eru með lækni sameiginlega með eskfirðingum. Þar var alveg lokað á milli í viku og þar er enginn snjóbíll heldur til að grípa til nema sá snjóbíll sem á að halda uppi samgöngum við Neskaupstað. Milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar, á þeim ágæta vegi Fagradalsbrautinni, var lokað í u. þ. b. hálfan mánuð, að vísu ekki fullkomlega því að menn réðust í að kaupa snjóbíl eftir svona viku til 10 daga algera lokun, svo að tíminn var ekki alveg svona langur. Fáskrúðsfjörður, Stöðvarfjörður og Breiðdalsvík voru sambandslaus á landi með öllu í rúmlega hálfan mánuð — ég hygg um 18 daga, og þar er heldur enginn snjóbíll til að grípa til í sambandi við samgöngur. Einnig fengum við þm. bréf frá þeim djúpavogsmönnum um sambandsleysi þeirra við umheiminn að ég held í kringum hálfan mánuð. Það má geta þess, að á þessum tíma voru tvær ferðir í hvora átt á vegum Skipaútgerðar ríkisins, önnur sem sagt norður og hin suður.

Fsp. var þess vegna ekki borin fram að ástæðulausu. Hún leiddi reyndar það í ljós fyrst og fremst, að hvað sem öllum veðrum og snjóþyngslum og óvenjulegum aðstæðum leið, þá kom það glögglega í ljós, sem ég hafði reyndar vakið athygli á hér á Alþ. áður, að Vegagerði ríkisins var gjörsamlega vanbúin að tækjakosti öllum, svo að í raun var ekkert hægt að aðhafast af þessum sökum einum. Ég held að þetta stafi m. a. af því, að Vegagerð ríkisins hefur í æ ríkari mæli tekið upp þá stefnu að leigja vinnuvélar í stað þess að eiga þær sjálf. Ég hygg m. a. að það hafi verið býsna óþægilegt að nokkru leyti. Ég veit t. d. um það, hvað Vegagerð ríkisins er orðin háð þessari leigustefnu sinni og háð þessum vinnuvélaeigendum, að hún neyddist til að samþ. nú um áramótin 50% álag á ríkistaxtann fyrrverandi fyrir snjóruðning og mokstur með jarðýtum og hjólaskóflum, og er það töluverð viðbót áreiðanlega. Aukinn og bættur tækjakostur hlýtur því að vera eitt þeirra frumatriða sem náið þarf að að hyggja, og mér heyrðist það á svörum hæstv. samgrh. áðan að þar mætti eiga von á einhverri úrbót. Þá eru það auðvitað sérstaklega snjóblásararnir sem við austfirðingar þyrftum svo sannarlega að fá í gagnið og það sem fyrst. Þar er einn blásari aðeins og auk þess ekki alltaf í góðu lagi.

Í öðru lagi kom í ljós í þessum snjóþyngslum eystra að venjulegar vinnuaðferðir dugðu hreinlega ekki og til annars hefði þurft að grípa. Því spurði ég um það í 2. lið, hvort áform séu uppi um nýjar vinnuaðferðir. Því hefur að nokkru verið svarað þegar. Ég benti m. a. á rekstur fullkominna snjóbíla í því sambandi og þá í samvinnu við t. d. þá aðila er annast flutninga á leiðum þar eystra. Það kann í fljótu bragði að virðast að hér sé í mikið ráðist varðandi stofn-

og rekstrarkostnað og er bent á framlög ríkis ár hvert til vetrarsamgagna, m. a. til rekstrarsnjóbíla hinna ýmsu sérleyfishafa. En þegar litið er til gagnslauss snjómoksturs í marga klukkutíma með úreltum tækjum dag eftir dag, þá hlýtur að vera að því komið að skoða þessi mál einfaldlega sem reikningsdæmi um hagkvæmasta skipan mála, og þá kæmi máske í ljós að einmitt í þessu formi væri hagstætt og gott fyrir Vegagerð ríkisins að gegna hlutverki sínu við að hjálpa til að halda uppi eðlilegum samgöngum í erfiðum tilfellum.

Í þriðja lagi og nátengt þessu spurðist ég fyrir um áætlanagerð á vegum Vegagerðarinnar, hvort við henni mætti búast í framtíðinni. Því var einnig að nokkru svarað af hæstv. samgrh. áðan, en þó vil ég minna á það, að í þá áætlun verða að fást skýrari línur, m. a. með tilliti til þess hvað Vegagerðin ætlar í raun að aðhafast og þá sérstaklega hvað snertir þann landshluta sem ég er hér með í huga, Austurland, sem hefur verið vanræktur — ég fullyrði: vanræktur varðandi tækjakost og er mjög illa settur að því leyti. Þar þarf áreiðanlega áætlun að gera svo að úr megi bæta.

Í fjórða lagi er fsp. til sjálfs rn. um það, hvort sú samgönguleið, sem vanrækt hefur verið að undanförnu, þ. e. sjóleiðin hafna á milli, hafi verið skoðuð nánar í ljósi þeirra staðreynda sem þessi vetur hefur fært okkur. Það þarf ekki að rekja ástand þeirra mála náið, þar er nánast um engar samgöngur að ræða sem hægt er að kalla því nafni. En þegar aðrar leiðir lokast, þá hlýtur að koma til álíta að kanna möguleikana í þessu skyni og nýta þá í framtíðinni þegar annað bregst eða hafa þessar samgöngur í heild þá í betra lagi en nú hefur verið um langt skeið. Austfirðingar spyrja ekki um þessi mál að ástæðulausu eftir þann langa og erfiða kafla sem þeir áttu við að búa í janúarmánuði. Það vita allir eða eiga a. m. k. að vita. Það er óþarfi einnig að minna á margháttaða erfiðleika á sviði vöruflutninga almennt, fólksflutninga, mjólkurflutninga bænda og kannske alveg sérstaklega olíuflutninga út um sveitir og svo auðvitað um öll samskipti staða og landshluta á milli sem þurfa og verða að vera sem greiðust og best. Ég verð þess vegna að trúa að viðbrögð opinberra aðila verði hér við jákvæð og skörp.