06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

322. mál, vetrarsamgöngur á Austurlandi

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti, Út af fsp. hv. 7. landsk. þm. á þskj. 261, sem ég vék lauslega að áðan, er það rétt sem fram kom í hans ræðu, að það sem best er í þessu er að þessu sinni að forsjónin hefur hjálpað okkur. Í fyrsta lagi gat hann skilað sér á þing þrátt fyrir erfiðar samgöngur og var það okkur þm. mikill léttir að fá svo ágætan þm., og í öðru lagi hefur snjórinn minnkað þar eystra og hefur þá náttúrlega orðið okkur happadrýgst hvað viðvíkur snjómokstri og umferð á vegum þar eystra. En út af fsp. þá skal ég reyna að svara henni eins og til stendur og styðst þá eins og fyrr við grg. Vegagerðarinnar, en hún hefur í þessu sem öðru skilað hv. alþm. alltaf góðum og greiðum svörum við því sem hefur verið leitað eftir hjá þeirri ágætu stofnun.

„1) Hvernig hyggst Vegagerð ríkisins bæta úr því ástandi, sem nú ríkir í samgöngumálum austfirðinga?“ Var þá miðað við það ástand sem þá ríkti. Þar segir svo:

„Í lok des. s. l. voru snjóalög orðin með allra mesta móti á Austurlandi. Til þess að bæta úr því ástandi, sem þetta skapaði, sendi Vegagerðin í byrjun jan. til Austurlands stóran veghefil, sem kom til landsins í lok des., og einnig jarðýtu, sem tekin var á leigu hér í þessu skyni. Var þetta gert í samráði við starfsmenn Vegagerðarinnar á Austurlandi.“

„2) Hefur Vegagerð ríkisins uppi áform um nýjar vinnuaðferðir, þegar erfiðleikar eru mestir, um rekstur fullkominna snjóbíla?“

„Varðandi rekstur snjóbíla,“ segir í svarinu, „skal það tekið fram, að skv. gildandi l. er Vegagerðinni hvorki skylt né heimilt að taka að sér slíkan rekstur, enda vandséð hvar slíkt mundi enda. Rekstur snjóbíla og styrkir til þeirra hafa til þessa verið í höndum samgn. Alþ. og styrkir til kaupa á þeim og rekstur hafa verið veittir undir þeim lið í fjárl. sem fjalla um styrki til flóabáta.“

Þriðja atriðið í fsp: „Á hvern hátt hyggst Vegagerð ríkisins í framtíðinni mæta erfiðleikum, svo sem þeim er nú hafa skapast á Austurlandi og víðar? Er einhver áætlun þar að lútandi í gangi hjá stofnuninni?“

Svarið við þessu er þetta:

„Að áliti umdæmisverkfræðings Vegagerðarinnar á Austurlandi, Einars Þorvarðssonar, mundi einn snjóblásari til viðbótar leysa mikið af þeim vanda, sem upp kom í des. og jan. vegna óvenjulegra snjóalaga, og er þá miðað við óbreyttar snjómokstursreglur. Yrði snjómokstursreglum hins vegar breytt telur hann að bæta þyrfti þriðja snjóblásaranum við. Sú reynsla, sem fengist hefur í des. og jan. í sambandi við óvenjuleg snjóalög á Norður-, Norðaustur- og Austurlandi, bendir eindregið til þess að hentugustu tækin til snjóruðnings séu stórir snjóblásarar. Þetta eru hins vegar dýr tæki í innkaupum og rekstri og mun Vegagerð ríkisins ekki hafa bolmagn til þess að festa kaup á slíkum tækjum eins og æskilegt væri nema auknar fjárveitingar til tækjakaupa komi til.“

Í því, sem ég sagði hér áðan, gerði ég grein fyrir þessum liðum, svo að ég tel að því sé fullsvarað.

Í framhaldi af þessu, áður en ég lýk hér máli mínu, vil ég svo segja það um sjóleiðina, að það hafa ekki verið gerðar sérstakar athuganir á henni, en það er sérstök n. sem vinnur nú að því máli. Enn fremur hef ég beðið stjórn Ríkisskips að athuga þau mál dálítið nánar. Um þörfina, eins og fram hefur komið hjá þessum tveim hv. þm., þarf ekki orðum að eyða, að hún er mjög miklu brýnni en áður hefur verið. M. a. vegna læknaþjónustunnar og þeirrar skipulagsbreytingar, sem gerð var á henni með lögum frá síðasta Alþ., krefst hún þess að meira sé gert í því að halda vegum opnum en áður hefur verið. Sama er að segja um mjólkur- og olíuflutninga. Þeir eru orðnir svo snar þáttur í lífi fólksins, að það er ekki hægt að komast hjá því að halda vegum sæmilega opnum til að flytja vörur eins og mjólk, bæði vegna framleiðanda og eins vegna vinnslustöðvanna og neytendanna. Allt þetta eru verkefni sem nútíminn krefst af þjóðfélaginu en ekki voru til áður. Þriðja atriðið, sem ég vildi nefna, er flutningur á skólabörnum sem er orðinn verulegur hér á landi. Það er farið að flytja börn daglega til skóla út um dreifbýlið, en var algerlega óþekkt áður. Þetta krefst þess að vegir séu daglega færir, eins og þau atriði sem ég áður nefndi.

Í vegáætlun þeirri, sem nú er tilbúin til prentunar, er gert ráð fyrir breyttum reglum um snjómokstur. Ég hygg að það verði svo, þegar hv. þm. sjá þá vegáætlun, að þá muni mörgum þykja allmikil fjárhæð fara þar í moksturinn, því að hér er um stórkostlegar tölur að ræða og miklu hærri en við höfum getað látið okkur áður detta í hug. Það er hins vegar byggt á reynslunni og byggt á notkun þessara nýju tækja. Það, sem aftur skiptir máli í sambandi við þetta, er fyrst og fremst það, hvað hv. alþm. treysta sér til að láta Vegagerðinni í té til tækjakaupa í sambandi við þessi mál sem önnur.

Það er alveg rétt, að Vegagerðin hefur farið meira inn á það að leigja tæki og hefur m. a. stafað af því að hún hefur ekki haft fjármagn til að kaupa tæki og eiga sjálf. En það verða að sjálfsögðu að vera viss lágmörk sett fyrir því hvað Vegagerðin má eiga minnst af slíkum tækjum, því að hún verður alltaf að vera þannig sett, að hún geti keppt við aðra aðila og sé ekki hægt að setja henni stólinn fyrir dyrnar. Forstöðumönnum Vegagerðarinnar er þetta ljóst og þeir hafa áhuga á að bæta úr þessu og mun standa á fjármagninu frekar en öðru.

Eitt af því, sem mjög er stefnt að nú, eru snjóblásararnir sem hafa gefið sérstaklega góða raun á þessu ári, því að þessi vetur hefur verið til þess að sýna ágæti þeirra, og reynslan er sú að ýturnar bókstaflega gáfust upp, þær réðu ekki við moksturinn. Þess vegna verður horfið að því að reyna að láta snjóblásarana taka þeirra hlutverk, því að með þeim safnast ekki fyrir, eins og gerist með ýtunum, veggir meðfram veginum sem skefur svo alltaf f, þeir blása þessu það vel frá. Það, sem ég held að ráði um þetta eins og aðra þætti vegamálanna í landinu, verður fjármagnið. Ég efast ekkert um að þegar við förum að fást við vegáætlun, sem ég vona að sé ekki langt í, þá mun það brenna á okkur öllum að við viljum meiri peninga og meiri peninga og hvar við eigum að taka þá.