06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

322. mál, vetrarsamgöngur á Austurlandi

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 2. þm. Reykn. fyrir þau orð sem hann sagði hér. Ég held það sé okkur alltaf meiri nauðsyn að líta á málin í heild en að metast hvort við annað. Að vísu getur fennt á Reykjanesinu. Ég hef lent þar í einum mesta byl sem ég hef lent í á mínum vetrarferðum. Það var á sunnanverðum Hvalfirði og til Reykjavíkur. Það á því til að fenna þar líka. En það er rétt hjá hv. þm., að vera innilokaður, eins og hann vitnaði til, það er meira en það eitt að geta ekki ferðast um nágrennið. Það er viss innilokunarkennd sem hefur andleg áhrif. Hins vegar hefur Vegagerðin fylgt alveg settum reglum sem hafa verið samþ. af stjórnvöldum og ekki treyst sér út fyrir það, vegna þess að hún hefur ekki talið að hún vissi hvaða endi það hefði. En þær nýju reglur, sem nú er gert ráð fyrir í sambandi við ný vegalög og nýja vegáætlun, breyta þessu mikið, og þessi orð hv. þm. sanna það, að fsp. eins og þessar og þessi mál eru ekki borin fram af því að menn séu með neitt nöldur, heldur venjuleg nauðsynjamál sem hv. Alþ. þarf að láta sig varða.