06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

323. mál, sjónvarpsmál á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 261 fsp. til hæstv. menntmrh. um sjónvarpsmál á Austurlandi. Fsp. mín er í þremur töluliðum:

„1. Hvað hugsar ráðh. sér að gera til að ráða bót á því ófremdarástandi, sem ríkjandi er í sjónvarpsmálum á Austurlandi?

2. Verða ekki gerðar ráðstafanir til að auka öryggi í rekstri endurvarpsstöðvarinnar á Gagnheiði? Hvenær má búast við slíkum umbótum?

3. Hvað er ráðgert að gera til þess að auka myndgæði í útsendingu á Austurlandi og hvenær verða slíkar framkvæmdir gerðar?“

Ég veit að það er alveg óþarfi fyrir mig að fara um þessar fsp. mörgum orðum. Sérstaklega er óþarfi fyrir mig að lýsa fyrir hæstv. menntmrh., sem jafnframt er þm. á Austurlandi, ástandinu þar í þessum efnum og reyndar er óþarfi að lýsa þessu fyrir hv. þm. almennt, því að ég hygg að þeir viti um það í aðalatriðum. En það er ekki ofsagt að það hafi ríkt og ríki jafnan í sjónvarpsmálum á Austurlandi ófremdarástand. Þar á ég ekki við það, þó að það komi fyrir í hamfaraveðráttu, að útsendingar falli niður eða eitthvað bili. Við á Austurlandi eru vanir slíku og fáumst satt að segja ekki ýkjamikið um það. En þessar bilanir, sem þarna hafa átt sér stað, eru miklu víðtækari og ástandið í þessum efnum virðist vera svo bágborið, að þarna þurfi á talsvert verulegum framkvæmdum að ræða til að koma þessu í viðunandi ástand. Það er alkunna, að við á Austurlandi þurftum að bíða í full 30 ár eftir því að geta hlustað á hljóðvarpsdagskrána nokkurn veginn óbrenglaða og er þó ekki lagið allt of gott enn í dag á öllum stöðunum. Það vantaði ekki að á þessu tímabili var oft kvartað og það voru n. settar og það var leitað til þeirra sem höfðu með þessi mál að gera, en það var alltaf verið að athuga eða alltaf var einhverju borið við. Nú tel ég fyrir mitt leyti að það þurfi engu að bera við, af því að við austfirðingar erum svo heppnir að yfirmaður þessara mála er þm. okkar hæstv, menntmrh. og ég ætla að vona í þessu tilfelli að hann fari ekki að skipa neina n., heldur segi hann ákveðnum mönnum að gera ákveðna hluti. Því vil ég vænta þess að hann treysti sér til þess í tilefni af þessari fsp. að gefa austfirðingum ákveðið loforð um umbætur í sjónvarpsmálunum á Austurlandi og að hann treysti sér til að segja til um hvenær eigi að framkvæma þessar endurbætur.