06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2172 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

323. mál, sjónvarpsmál á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans, og ég fagna því að hann hefur lýst því yfir að hann muni beita sér fyrir því að gerðar verði umbætur á sendistöðinni á Gagnheiði sem taldar eru nauðsynlegar. Hins vegar er ég ekki jafnkátur yfir því, sem fram kom hjá honum um það, að hann gæti ekki mikið sagt um það hvenær þessar umbætur yfirleitt færu fram á sjónvarpsmálum austfirðinga vegna þess að fé væri ekki fyrir hendi. Þetta er sami söngurinn sem við höfum alltaf heyrt, ég hef heyrt hann taka mannlega á móti honum áður fyrr og ég ætlast ekki til þess að hann fari að syngja þennan söng nú. Sannleikurinn er sá, að það hefur aldrei skort fé til þess að halda uppi sæmilegu dreifikerfi sjónvarps og það stóð ekki á því nú fyrir stuttu að hækka tekjur Ríkisútvarpsins, hljóðvarps og sjónvarps, á ársgrundvelli um 350–400 millj. kr. Auðvitað er hægt að vinna þetta verk og þarf ekki að bera við fjárskorti af þeim ástæðum. Hitt er hins vegar alveg augljóst mál, að það þarf að skilja á milli stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar og jafnvel að taka lán ef á þarf að halda til þess að vinna ákveðin stofnkostnaðarverk. Ég fagna því ekkert fyrir mitt leyti, að því leyti til sem rekstur sjónvarps og útvarps hefur farið fram úr áætlunum og fram úr því sem leyft hefur verið, þá standi nú sérstaklega til að borga niður þær skuldir og það eigi að ganga á undan því að lagfæra það sem algerlega hefur farið úrskeiðis í sambandi við kerfið sjálft.

Hæstv. ráðh. minntist á að það væri unnið að því að bæta útsendingarkerfið eða flutningakerfið í sambandi við útsendingu, og ég tók eftir því í einni fréttinni að það ætti að gera umtalsverðar umbætur til að koma efninu eftir nýrri leið héðan frá Reykjavík og norður til Akureyrar. En það var líka tekið fram í sambandi við þessa frétt að þar ætti að nema staðar. Úr því yrði gamla kerfið látið duga, fyrir þá, sem væru þar austar. Í þessu sambandi er það eins og í sumum öðrum, að það væri líklega nokkuð gott, eins og kom upp hjá einum ágætum manni á Austurlandi, að vinna að þessum málum eftir gamalli leið, sem gafst vel þegar Landsíminn var lagður til landsins, þ. e. að byrja á öðrum stað en Reykjavík. Ég hygg að ef menn hefðu t. d. lagfært kerfið frá Gagnheiði til Akureyrar fyrst, þá hefði ekki staðið á því að halda því áfram frá Akureyri til Reykjavíkur. En þegar menn byrja í Reykjavík og halda út eftir landi, þá verður æðilangur tími þangað til það er komið alla leið.

Ég efast ekkert um að hæstv. menntmrh. vill ráða bót á þessum málum, ég hef staðið svo lengi með honum í því að reyna að koma fram umbótum varðandi þessi mál og ég treysti fyllilega á að hann beiti afli sínu til að lagfæra þessi mál.

Ég vil aðeins segja það að lokum, að ég vona að hann láti ekki einhverja þá skriffinna, sem hafa stjórnað þessum málum til þessa og hafa sent okkur austfirðingum ærið kaldar kveðjur, þegar þeir segja við okkur þegar um þessi mál er kvartað, að við megum okkur sjálfum um kenna, við höfum sjálfir tekið á okkur áhættuna að kaupa tæki, vitandi það að mætti búast við lélegri útsendingu. Ég vil vænta þess, að hann sjái um að framkvæmdirnar verði eins og hann vill í þessum efnum. Ég efast ekkert um að það er hægt, það er til fjármagn og það verður hægt að útvega fjármagn til að leysa þennan vanda og þarf ekki að blanda því saman við almenn rekstrarmál þeirrar stofnunar sem hér á hlut að máli.