06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

323. mál, sjónvarpsmál á Austurlandi

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil fagna því að það skuli í fyrsta sinn af ráðh., að ég hygg, vera viðurkennt, að aðalstaðreyndin varðandi Gagnheiðarstöðina hefur vitanlega alltaf verið sú, að tækjabúnaður hennar hefur verið alls óviðunandi, óhæfur með öllu. Þetta hefur nefnilega ekki fengist viðurkennt af þeim útvarpsmönnum. Þeir hafa alltaf sagt, að þessi tækjabúnaður í Gagnheiðarstöðinni væri ágætur og það væri ekki því um að kenna, heldur öllu öðru, þegar bilanir hafa orðið eystra. En sem sagt, þar eru úrbætur væntanlegar og er vonandi að við sjáum þær sem fyrst.

Varðandi fjármunina hjá sjónvarpinu, þá fullyrði ég það hér, að það vantar ekki fjármagn hjá sjónvarpinu til vissra hluta. Það er alveg áreiðanlegt. Ég hef um það persónuleg dæmi. Það er aðeins það, að dreifingarkerfið hefur verið vanrækt á kostnað annars. Og ég ætla að nefna það persónulega dæmi sem ég hef, sem sýnir að sjónvarpið á peninga þegar það vill. (Gripið fram í: Og það nóga.) Og það nóga. Við 4 þm. gerðumst smátrúðar á gamlárskvöld og ég setti saman tvær vísur af því tilefni. Rétt eftir áramótin fékk ég greiðslur fyrir þessar vísur, tvær stuttar vísur, upp á 3 þús. kr. Austfirðingar áttu skýringu á þessu mjög auðvelda. Vísurnar hefðu vitanlega verið svona dýrt kveðnar. En þær voru það ekkí. En þetta smádæmi sýnir það bara og sannar, að sjónvarpið á peninga, á fjármuni til þess að verja á þennan heimskulega hátt, — ég segi: þennan heimskulega hátt, á meðan það lætur dreifingarkerfið vanrækt að mestu leyti.