06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

323. mál, sjónvarpsmál á Austurlandi

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Það er e. t. v. varasamt að blanda sér í þær umr., sem hér hafa orðið á milli hv. þm. Austurl., en ég get ekki látið hjá líða í fyrsta lagi að láta í ljós ánægju mína yfir því, að þessi mál skuli bera á góma hér á hv. Alþ., því að þó að menn deili mjög um ágæti sjónvarps, þeir sem búa við það og búa við sæmilega aðstöðu til að horfa á það, þá er óumdeilanlegt, að möguleikinn til að njóta sjónvarpsins er eitt af því, sem er þeim mjög viðkvæmt mál sem ekki eiga þess kost. Ég hélt nú reyndar, að það væri ekki mikið um það hér á suðvestanverðu landinu, að ekki sæist í sjónvarpi, en samkv. því sem fram kom hér áðan, þá er það sennilega svo um allt land, að hér og þar sé talsvert margt af fólki sem hefur enga viðunandi aðstöðu til þess að njóta sjónvarps. Mér er kunnugt, að í Norðurl. e. eru heilir sveitarhlutar, sem ekki hafa nein not af sjónvarpsútsendingum, og það meira að segja sveitarhlutar, sem eru í næsta nágrenni við Akureyri sem var verið að tala um áðan sem endastöð á útsendingu sjónvarps með hinni góðu tækni og nýju sem nú á að fara að taka upp. Þetta er víðar. Norður-Þingeyjarsýsla býr öll við afar slæm skilyrði, og raunar er það svo ef borið er saman það, sem er einna best í jafnfjarlægum landshluta og í Norðurl. e., er geysilegur munur þar á og því sem hér verður notið. Ég er að vísu ekki kunnugur nema af fréttum við hvað austfirðingar búa í þessu efni, en ég rengi það ekki að þar sé um alls ófullnægjandi þjónustu að ræða. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að þetta er eitt af þeim jafnréttismálum, sem hinn almenni borgari úti um land, sá sem ekki býr við jafnrétti að eigin dómi, gerir skýlausa kröfu til að sé unnið heilshugar að úrbótum á.

Það var drepið á það áðan, að menn geta einangrast mjög vegna snjóalaga og það er vissulega algengt víðs vegar um norðanvert landið, að einstakir sveitarhlutar, einstakir bæir, jafnvel heil þorp einangrist vegna snjóalaga. Sú einangrun verður ekki síður alvarleg, þegar um er að ræða einangrun frá því að njóta almennra útsendinga frá fréttamiðlum, pósturinn kemur ekki tímunum saman og þegar hann kemur, þá er hann margra daga gamall, útvarpið er víða þannig, að það er erfiðleikum bundið að njóta þess, og sjónvarpið e. t. v. algjörlega dautt. Þetta er einn þátturinn í því, sem ég tel mjög mikilvægt að við allir vinnum að, að bæta aðstöðuna þannig þar sem hún er lökust, að menn eigi við sem mest jafnrétti að búa.